Litla 3 vikna daman okkar bauð heim í hádegisboð í gær þegar við gáfum henni nafn, umvafin okkar nánustu fjölskyldu. Svo vel heppnuð spontant skírn á þessum bjarta föstudegi. Það þarf greinilega ekki allt að vera planað með löngum fyrirvara því á nokkrum dögum bjuggum við til, að okkar mati, hina dásamlegustu stund. Hefðum ekki viljað hafa þetta öðruvísi.
Látlaus athöfn, frábrugðin því sem við héldum t.d. með Ölbunni okkar fyrir um 13 árum. Þá var það nánast eins og fermingarveisla í sal með peppaða unga foreldra. Núna vorum við heima með okkar nánustu, fengum prestinn heim, buðum uppá mat og drykk ásamt gómsætri marengs frá einni ömmunni og auðvitað kaffið með. Flóknara þarf það ekki að vera. Það eina sem við gerðum tengt nafninu var í raun að prenta servíettur, við keyptum síðan blóm á borðið og blómakrans á litlu dömuna.
Takk séra Hjördís Perla fyrir að mæta með svona stuttum fyrirvara. Þú ert alveg dásamleg í þessu hlutverki, hátíðleg en á sama tíma í takt við tíðarandann. Við pöntuðum smørrebrød frá Brauð og co – verð að mæla mikið með þessari nýju snilld sem Helga Gabríela á heiðurinn af. Við elskum smørre og øl frá danska tímanum, varð oftast okkar val þegar við buðum heim í meiri léttleika. Við vildum halda í þessa góðu hefð á Íslandi og því er ég mjög glöð með þessa nýjung, vegleg og í minni sneiðum til að sleppa við hnífapörin.
Anna Magdalena átti daginn og fékk nafnið sitt þennan fallega föstudag. Forrík kona þakklát fyrir sig og sína og takk fyrir allar kveðjurnar.
xx,-EG-.
Skrifa Innlegg