fbpx

STÍLLINN Á INSTAGRAM: HILDUR ERLA

FÓLKINSPIRATIONSTÍLLINN Á INSTAGRAM

Ofur yndislega Hildur Erla hefur verið á Instagram radarnum mínum í þónokkur ár. Hildur er með ótrúlega fallegt auga og hefur fangað mikilvægustu augnablikin á filmu fyrir fjölmarga Íslendinga síðustu árin. Hún er mjög vinsæl í brúðkaup og hefur líka tekið fjölskyldu og bumbumyndir sem gefa hlýju í hjartað.

Það er eitthvað við myndirnar hennar Hildar sem er ólíkt því sem aðrir eru að gera, hún fangar réttu mómentin og myndirnar eru klassískar. Hún hefur skapað sinn anda á Instagram sem ég elska að fylgjast með – allt svo hreint og fallegt á einfaldan hátt.

Ég bað Hildi um að deila með okkur nokkrum myndum úr albúminu og svara fyrir mig stuttum spurningum sem leyfa okkur að kynnast henni örlítið betur. Hér að neðan fáum við einungis persónulegu myndirnar hennar en á Instagram deilir hún líka myndum úr verkefnum sem hún myndar svo færið ykkur gjarnan yfir á prófælinn hennar þegar þið hafið lokið við að lesa þessa færslu.

 

Hver er Hildur Erla?
Mér finnst alltaf smá erfitt að svara þessari spurningu en ég er bara sú sem ég er í dag, hvern dag fyrir sig. Ég trúi því að við séum stöðugt að þroskast og breytast í gegnum lífið. Eins finnst mér lífið of stutt til að leyfa sér ekki að kanna, prófa, mistakast og einfaldlega vera til óháð því hver þú varst eða hvað þér fannst í gær eða jafnvel í fyrra.

Uppáhalds tími dagsins?
Það hefur alltaf verið morguninn hjá mér. Ég á mjög auðvelt með að vakna og veit fátt betra en að vakna snemma um helgar með fjölskyldunni þar sem enginn á að mæta neitt svo við getum bara tekið því rólega frameftir degi.

Venjulegur dagur í þínu lífi?
Dagarnir mínir eru sjaldan eins þar sem ég starfa sem ljósmyndari og flugfreyja. Allt hefur sína kosti og galla en á meðan það er gaman þá er við engu að kvarta og vá hvað það er gaman.

Hvaða hlutar gætir þú ekki verið án?
Kaffivélarinnar minnar, rakakrems og mér þætti svakalega erfitt að vera án hárburstans míns.

Hvaðan færðu innblástur?
Það hefur enginn veitt mér jafn mikinn innblástur og kraft og dóttir mín, þetta hljómar kannski lummulega en það er satt og hún gerir það alla daga. Eins fæ ég ótrúlega mikinn innblástur í göngu með hundinum mínum og síðast en ekki síst á Instagram. Ég er að followa svo geggjað fólk útum allan heim, þá sérstaklega frá Ástralíu, kannski svolítið random en ég gjörsamlega elska vibe-ið og stílinn þeirra. Leita mikið í þeirra afslappaða og neutral stíl heima fyrir og þennan ‘effortlessly’ stíl í ljósmyndun. Pinterest er svo líka í miklu uppáhaldi.

Af hverju Instagram?
Það er myndaalbúm okkar tíma að mínu mati og ég elska að skrolla niður og skoða gamlar minningar alveg eins og ég elskaði að skoða myndaalbúmin heima hjá foreldrum mínum. Þó er ég líka mjög dugleg að prenta út myndir og geyma í veskinu, nota sem bókamerki, á ísskápnum og í glerboxum sem gaman er að fara í gegnum.

Hvað er á döfinni?
Það eru svo sannarlega spennandi tímar framundan. En það helsta á döfinni er að mynda enn meira. 

Takk fyrir að leyfa okkur að kynnast þér kæra Hildur Erla. Vegni þér áfram og alltaf vel.
Áhugasamir geta fylgst með Hildi á Instagram: HÉR

xx,-EG-.

Elísabet Gunnars á Facebook – HÉR
&

Trendnet á Facebook – HÉR

10 TÍMAR Í OSLO

Skrifa Innlegg