Áður en lengra er haldið.
TAKK (!) fyrir þessa persónulegu og dásamlegu gjöf.
Ég elska að fylgjast með ungu íslensku hæfileikafólki blómstra í sínu og það er enginn staður betri til að fylgjast með en á Instagram! Ein af þeim sem ég uppgötvaði nýlega er förðunarfræðingurinn og listakonan Helena Reynisdóttir. Helena heillaði mig þegar ég rakst á andlitsmyndir af vinkonum mínum á aðgangi hennar (þar má nefna Sigríði okkar, Melkorku og Fanney Ingvars) og eftir það skrollaði ég langt niður og komast að ýmsu: Ég komst að því að við bjuggum á sama tíma í Svíþjóð síðustu árin og ég komst líka að því að þið þekkið hana örugglega mörg nú þegar .. (hún er stór á samfélagsmiðlum, þó ég hafi verið sein að uppgötva þennan snilling sem hún hefur að geyma.)
Ég elska fólk, allskonar fólk og þessvegna heilla þessar persónulegu teikningar sérstaklega. Takk fyrir að deila þeim með okkur á Instagram. Ég mæli með að lesendur mínir fylgi henni hafi þið áhuga á þessum myndum hér að neðan …
Kynnumst Helenu betur hér …
Hver er Helena Reynis?
Ég er 24 ára gamall listamaður og förðunarfræðingur sem er fædd og uppalin í Reykjavík. Í byrjun ársins 2016 flutti ég til Stokkhólms þar sem ég komst inn í listaskóla sem heitir Konstskolan Basis og lauk þar tveggja ára listnámi. Að búa í Svíþjóð og að fá að vera í kringum listasenuna í Stokkhólmi hafði mikil áhrif á mína mótun sem manneskju og ég mæli með því við alla að prófa að búa erlendis. En núna eftir að ég kom heim frá Stokkhólmi byrjaði ég í Háskóla Íslands og er að taka BA í listfræði. Einnig hef ég haldið fjórar einkasýningar á verkum mínum en fyrsta einkasýningin mín var haldin þegar ég var aðeins 17 ára gömul. Ég hef einnig mikinn áhuga á förðun og er förðunarfræðingur eins og kom fram hér fyrir ofan. Ég útskrifaðist úr Reykjavík Makeup School árið 2014 og hef unnið mikið í förðun síðan þá, bæði á Instagram og freelance verkefnum bæði á Íslandi og Svíþjóð. Svo er ég yfirleitt sjúklega hress og alltaf til í kaffibolla og spjall.
Uppáhalds tími dagsins?
Ég elska morgna svo mikið en ég sef yfirleitt svo lengi fram eftir að ég missi yfirleitt af þeim haha. En þegar ég vakna nógu snemma finnst mér ekkert betra en að eiga kósý morgun hvort sem það er bjart eða dimmt, bara eitthvað við þennan tíma dags.
Hvað veitir þér innblástur?
Það sem veitir mér innblástur er bæði að skoða gömul verk eftir mig og pæla aðeins í því hvað ég var að hugsa og pæla þegar ég gerði verkið. Það gefur mér ákveðið “push” til að halda áfram kreatívum hugsunum. Einnig finnst mér þægilegt að skoða aðra listamenn, gamla meistara frá 18. öld, popplistamenn 20. aldar eða bara nútímalistamenn sem gera öðruvísi list en ég. Finnst rosalega gaman að skoða Pinterest þar sem sú síða er með endalaust af hugmyndum og gefur mér mikið inspiration til að gera mína útfærslu af einhverju allt öðruvísi. Með þessu öllu saman í bland finnur maður svolítið sinn stíl finnst mér.
A eða B manneskja?
Mesta B manneskja sem finnst haha! Ég elska að sofa út og vaka langt fram á nótt, sem stangast smá á við það að morgnar eru uppáhalds tími dagsins hjá mér. En það er bara eitthvað við það að kúra uppí rúmmi fram eftir sem ég bara stenst ekki og hef alltaf frá því ég man eftir mér verið svona.
Hvaða hlut gætir þú ekki verið án?
Pennaveskið mitt án efa. Þar eru öll tæki og tól sem ég þarf til að teikna og ég gæti alls ekki verið án þess.
Afhverju Instagram?
Instagram er vettvangur sem gerir manni svo auðvelt að nota til að koma sér og listinni sinni á framfæri. Ég hef reyndar einnig Facebook síður sem ég hef verið að nota í mörg ár sem heita það sama og Instagrömmin mín, eða Helena Reynis Art og einnig Helena Reynis Makeup. Svo var Snapchat einnig mjög vinsælt og er ég með stóran Snapchat-aðgang þar sem heitir helenareynisart en þótt að bæði Facebook og Snapchat hafi verið mjög góð leið til að koma sér á framfæri finnst mér flestir hafa fært sig yfir á Instagram.
Hvað er á döfinni?
Fyrir utan það að lokaprófin séu að nálgast í skólanum þá er ég að fara vinna mikið í listinni minni, jólin að nálgast svo það verður mikið að gera í teikningum fyrir mig þá en fyrir utan það finn ég mér alltaf einhver skemmtileg verkefni til að takast á við. Það væri náttúrulega sjúklega gaman að vera aftur með einkasýningu þar sem það er komið smá síðan seinasta var svo kannski stefni ég að því. Það verður allavega mjög skemmtilegt að fylgjast með miðlunum mínum bæði á förðunar- og lista -Instagramminu mínu þannig ég mæli með því!
… og það ætla ég svo sannarlega að gera. Takk fyrir spjallið kæra @helenareynisart. Þú átt framtíðina fyrir þér!
Helena heldur einnig út förðunar aðgangi fyrir ykkur sem hafið áhuga á að fylgja henni þar líka @helenareynismakeup.
Áfram þú, unga ofurkona !
xx,-EG-.
Elísabet Gunnars á Facebook – HÉR
&
Trendnet á Facebook – HÉR
Skrifa Innlegg