fbpx

RAKEL TÓMAS: NÚ ER ÞAÐ SVART

FÓLK

Ég hef verið svo lánssöm að fá að kynnast listakonunnin Rakel Tómasdóttur vel síðustu árin. Rakel hefur svo sannarlega slegið í gegn með ótrúlegum teikningum sínum – af kvenlíkamanum, andlitum, augum og fleiru sem hún nær að koma með svo fallegum, nákvæmum og listrænum hætti á blað.

Rakel hefur samhliða hannað og gefið út dagbækur sem hafa selst eins og heitar lummur. Eitthvað sem allir þurfa á að halda og kannski vara sem vantaði á okkar íslenska markað. Það er einhvern veginn svo miklu betra að skipuleggja sig í svo fallegri bók og hún er einnig frábær fylgihlutur í töskunni. Ég er að gera tilraun til að nota mína 2020 dagbók um þessar mundir en ég hef alltaf verið léleg með dagbækur, vel alltaf að skrifa í símann. Þetta árið skrifa ég fundi og viðburði inní símann en hef dagbókina klára fyrir ýmis verkefni og todo lista sem ég ætla að komast yfir.

Eftir að hafa þekkt Rakel í nokkurn tíma þá fer það ekki framhjá manni að hún klæðist eingöngu í svart. Það vakti áhuga minn og ég hef lengi ætlað að taka hana í spjall á blogginu og spyrja hana út í þetta þema – svarið hafið þið að neðan!

Afhverju svart?

Ég finn svo mikið öryggi í svörtum, það er svona litur sem tekur utan um mann, ver mann einhvernveginn. Sérstaklega þegar ég nota svartan í myndirnar mínar, það er eitthvað svo þægilegt að gera hvítan pappír alveg svartan með kolum eða bleki.

Hefur það verið svoleiðis alla tíð?

Fatastíllinn hefur þróast í þessa átt í gegnum tíðina, ætli það séu ekki um það bil 4 ár síðan ég byrjaði að klæðast svörtu á hverjum einasta degi.

Er einhver ástæða sem liggur að baki?

Það eru allskonar ástæður fyrir þessu. Ég held að margir geti tengt við það að eiga risastóran fataskáp en standa samt fyrir framan spegilinn og „eiga ekkert til að vera í“ og jafnvel sleppa því að fara út af því einhvernveginn gengur ekkert upp. Ég fékk hægt og rólega ógeð af þessari tilfinningu og ákvað að losa mig við öll föt sem mér leið ekki fullkomlega vel í.

Eftir stóðu mjög fáar flíkur, allar svartar. Ég áttaði mig á því að mér líður lang best þegar ég er í öllu svörtu og þar af leiðandi ákvað ég að klæðast bara alltaf öllu svörtu, af því ég nenni ekki að eyða tíma eða áhyggjum í að líða ekki 100% vel í því sem ég klæðist. Það er örugglega einhverjum sem finnst þetta skrítið eða „leiðinlegt” en mér er alveg sama, ef mér liði best í öllu gulu þá væri ég alltaf í öllu gulu.

Á sama tíma og ég losaði mig við öll föt sem ég fílaði ekki losaði ég mig líka við allt á heimilinu mínu og í kringum mig sem þjónaði ekki tilgangi eða lét mér ekki líða vel. Ég fór mikið að pæla í minimalískum lífsstíl sem hentar mér mjög vel og í dag á ég mjög fáa hluti yfir höfuð … sem tengjast ekki myndlist þar að segja, blýantar og pappír fá undanþágu frá þessari reglu.

Langar þig aldrei að klæðast lituðum fötum?

Það gerist mjög sjaldan að mig langi til þess, vinkonum mínum langar það mun oftar, sem sagt að ég klæði mig í lituð föt, ekki þær.

Það þýðir samt ekki að mér finnist litrík föt ekki falleg. Mér finnst mjög gaman að sjá vinkonur mínar í lit og fylgjast með tískusýningum þar sem litir eru allsráðandi. Ég er bara búin að aðskilja sjálfa mig frá þessu, það er alveg hægt að finnast hlutir fallegir og kunna að meta þá án þess að þurfa að eignast þá.

Finnur þú mun á veskinu eftir að þú tókst þessa ákvörðun?

Þessi ákvörðun hefur klárlega sparað mér fullt af pening, en líka fullt af tíma, ef ég fer í búðir í dag þá er það yfirleitt af því mig vantar eitthvað ákveðið og þá er mjög auðvelt að finna það sem mig vantar af því svarti liturinn setur manni ákveðin ramma.

Í dag kaupi ég engöngu föt sem ég veit að ég get notað á hverjum einasta degi í mörg ár, líður vel í og mun ekki fá leið á. Þar af leiðandi nota ég líka fötin mín bókstaflega þangað til þau detta í sundur.

Þegar ég vel mér föt á morgnanna tekur það enga stund því ég gríp bara eitthvað úr skápnum og fer í það, því mér líður vel í öllu sem ég á og allt passar saman. Ég er yfirleitt í síðerma kjólum yfir gallabuxur eða sokkabuxur og háum stígvélum. Það skemmir líka ekki fyrir að geta farið t.d. beint úr vinnu í matarboð eða partí án þess að skipta um föt, maður er bara með varalit í veskinu. ;)

En á sumrin, verður þér ekki heitt?

Mér finnst ég án djóks vera sumarleg í svörtu ef efnin eru t.d. létt. Jú mér verður stundum heitt en ég tengi svarta litinn engan vegin við myrkur eða kulda, ég þoli ekki skammdegið og vildi óska þess að það að vera í svörtum, síðum, langerma, rúllukragakjól væri eitthvað sem gengi upp á sólarströnd. En svartur sundbolur og stuttbuxur virka mjög vel.

 

Vissulega eru Konur Eru Konum Bestar bolirnir okkar hvítir og því klæðist hún hvítu einu sinni á ári ;) við stelpurnar komum henni á óvart núna síðast og létum prenta einn svartann sem við gáfum henni í gjöf eftir viðburð. Það gladdi hana mjög.

En hvað er á döfinni hjá RakelTomas?

Ég er að fara að opna sýningu núna á fimmtudaginn (16.janúar) á The Coocoo’s Nest, til sýnis og sölu verða myndir sem eru í aðeins einfaldari stíl en ég geri vanalega, Myndirnar eru unnar út frá skissum sem ég gerði meðan ég var á Hawaii síðastliðið haust.  Svarti liturinn verður í aðalhlutverki, ótrúlegt en satt!

Svo er aldrei að vita nema maður fari að prófa sig áfram með liti, í myndlist þar að segja, það er aðeins ólíklegra að ég breyti fatastílnum.

 

Takk fyrir spjallið  Rakel <3 Ég mæli að sjálfsögðu með að fólk fjölmenni á Coocoos Nest á fimmtudaginn. Viðburður á Facebook, HÉR

xx,EG,-.

@elgunnars á Instagram

GÓÐAN DAGINN 2020

Skrifa Innlegg

Skilaboð 1

  1. Andrea

    13. January 2020

    LoveLove