fbpx

MORGUNBLAÐIÐ: TÍSKA

FASHIONMAGAZINE
Hvað er í tísku í sumar?

Morgunblaðið gaf út sérstakt fylgirit sem leggur okkur línurnar um hvað koma skal í tísku og förðun í sumar. Hin glæsilega Saga Sig prýðir forsíðuna glæsilegu.

Ég var ein af álitsgjöfum sem situr fyrir svörum. Vert er að taka það fram að ég valdi ekki skóna, sundfötin og sólgleraugun sem sett eru meðfylgjandi í greininni en sundfötin mættu alveg verða mín þó skórnir og gleraugun séu ekki “minn stíll”.

Lesið viðtalið við mig í heild sinni hér að neðan en fleiri skemmtileg ráð í blaðinu: HÉR

Frábært framtak Morgunblaðsins og tilvalinn helgarlestur fyrir okkur öll.

Þegar Elísabet Gunnarsdóttir, viðskiptafræðingur og eigandi vefsíðunnar Trendnet.is, er beðin að lýsa stílnum sínum segir hún hann vera frekar mínimalískan, en þó með smá „twisti“. Þá segist hún eiga yfirhafnir í tonnatali, enda setji þær punktinn yfir i-ið þegar kemur að heildarútlitinu. Elísabet sat fyrir svörum, en hún er með puttann á púlsinum þegar kemur að sumartískunni.

Ég gæti vel hugsað mér að ganga í gallabuxum, stuttermabol og fallegum skóm alla daga, og skipta síðan bara um yfirhafnir. Það myndi auðvelda lífið mikið. Ég íhuga þetta,“ segir Elísabet kát, en hver skyldu nýjustu kaupin vera?

„Samsoe Samsoe stuttbuxur, röndóttur síðermabolur með stórum ermum úr Monki og dásamlegir eyrnalokkar sem hafa lengi verið á óskalista frá Soru Jewellery. Lokkana fékk ég hjá Hlín Reykdal úti á Granda.“

Elísabet segir að fátt vanti í fataskápinn, þótt hana langi að sjálfsögðu í ansi margt.

„Þessa dagana er ég að leita mér að strigaskóm fyrir sumarið. Ég er eitthvað hrifin af „old school“ Adidas og held að Gazelle Super verði fyrir valinu. Þetta úrval af strigaskóm er samt orðið bilað, og ekki svo auðvelt að velja. Ég mæli með www.nakedcp- h.com fyrir stelpur sem vilja skoða og pæla á netinu. Svo er Húrra Reykjavík með langmesta úrvalið á Íslandi,“ segir Elísabet, sem einnig er með á hreinu hvaða flík sé nauðsynleg fyrir sumarið.

 

„Hvít, stór skyrta úr léttu efni sem hægt er að dressa upp og niður eftir tilefnum. Þetta er hugmynd að góðum bloggpósti. Fylgist með á Trendnet þegar ég kem með nokkrar hugmyndir að skyrtum í mismunandi verðflokkum,“ bætir Elísabet við og kímir. „Svo eru auðvitað S-in þrjú mikilvægust; sundföt, striga- skór og sólgleraugu.“

Elísabet bætir þó við að hún sé ekki ýkja hrifin af sumartískunni, enda heilli hausttískan miklu frekar.

„Ef ég á að vera hreinskilin heillar hausttískan mig alltaf meira, fleiri lög af flíkum búa til skemmtilegra lúkk. Það sem heillar mig við sumarið er meira sálrænt,“ segir Elísabet. En er eitthvað sem hún myndi aldrei klæðast?

„Fyrir nokkrum árum sá ég ekki fyrir að við myndum grafa upp Buffalo-skóna í bráð. Önnur varð raunin og því hef ég lært að maður á aldrei að segja aldrei,“ segir Elísabet.

Sjálf viðurkennir Elísabet að hún hafi gert sek um fullt af tískumistökum í gegnum tíðina, þótt hún sé nú ekki að velta þeim mikið fyrir sér.

„Já, svo sannarlega, og fullt af þeim. En eins og einhver vitur maður sagði koma fleiri góðar ákvarðanir með reynslunni og reynslan kemur með slæmu ákvörðunum. Það er því ágætt að gera stundum mistök, þetta á auð- vitað ekki bara við um tísku.“

 

Elísabet er búsett í Svíþjóð en unnusti hennar, Gunnar Steinn Jónsson, spilar með sænska handknattleiksliðinu IFK Kristianstad. Íslenskir hönnuðir eru því í miklu uppáhaldi þessi dægrin.

,,Ég elska að klæðast íslenskum flíkum erlendis. Hildur Yeoman, 66°Norður, AndreA, iglo+indi á smáfólkið og svo framvegis. Einnig hrífst ég af hönnun Guðrúnar Helgu vinkonu minnar, sem er að gera það svo gott þessa dagana. Í hátískunni fell ég meira fyrir einstökum línum hönnuða hverju sinni. Frönsku tískuhúsin eru eiginlega alltaf með þetta, og get ég þar nefnt Saint Laurent og Isabell Marant sem mín uppáhalds. Ég hrífst líka af sænska merkinu Acne, danska merkinu Ganni og fleirum.”

Elísabet segist ekki eiga sér sérstaka tískufyrirmynd en hún fái þó innblástur frá smekklega fólkinu í kringum sig.

,,Það sem gefur mér mestan innblástur er þegar ég sit á góðu götuhorni og velti fyrir mér mannlífinu. Það er líka hægt að sitja fyrir framan tölvuna og fá innblástur af tískubloggum og samfélagsmiðlum. Sem sagt veitir alls konar fólk mér innblástur, og það er eitthvað við eldra fólk sem er með stíl eða vel klætt sem er í sérstöku uppáhaldi, “ segir Elísabet.

,,Ég hef síðan til dæmis fylgst með hinni sænsku Elinu Kling í mörg ár, hún er ,,basic” og flott og með viðskiptavit. Síðan mætti nefna Olsen-systurnar sem veittu mér kannski meiri innblástur þegar ég var yngri. Þær virðast alltaf vera með þetta þó að þær hafi verið minna áberandi undanfarið.”

Elísabet segir að það verði nóg að gera í sumar og margt skemmtilegt á dagskrá næstu mánuði.

,,Trendnet verður á tánum en þar er aldrei sumarfrí og því tilvalinn staður til að kíkja í heimsókn í sumarfríinu. Við fjölskyldan ætlum síðan að taka sumarfrí saman. Við byrjum á Íslandi, þar sem draumurinn er að njóta sveitasælunnar í góðu veðri. Síðan eru brúðkaup á dagskránni, en við maðurinn minn ætlum einnig að fagna tvöföldu þrítugsafmæli okkar með vinum. Þá er planið að keyra til Þýskalands þar sem við bjuggum, og reyna síðan að komast í örlitla afslöppun á Spáni áður en stutta handboltasumarfríið er búið.”

Takk fyrir mig, Morgunblaðið.

xx,-EG-.

Elísabet Gunnars á Facebook – HÉR
&

Trendnet á Facebook – HÉR

FALLEGRI KAUP: EMPWR PEYSUR

Skrifa Innlegg