Vegna fjölmargra fyrirspurna ákvað ég að skrifa smá færslu um frábæra ferðalag okkar fjölskyldunnar til Cinque Terre ásamt yndislegum vinum.
Cinque Terra eru 5 gömul smáþorp á ítölsku ríverunni og liggja þar í þjóðgarði. Vegna þessa hafa þorpin gamlan og sjarmerandi anda. Milli þorpanna er aðeins hægt að ferðast með lest og því engin bílaumferð til að skemma fallegu “málverkin”, en þegar að ég kom í fyrsta þorpið leið mér eins og ég væri komin inn í málverk.
Mín leið til Cinque Terre –
Við fjölskyldan tókum flug til Mílanó. Þaðan tókum við svo u.þ.b. 3 tíma lest að þorpunum. Það er mjög auðvelt og nokkuð ódýrt að taka lest niður til La Spezia (þar sem að við gistum). Þar leigðum við okkur frábæra og ódýra íbúð í gegnum airbnb.com. Íbúðin var aðeins í 3 mínútna göngufæri frá lestarstöðinni og því kjörin staðsetning, því aðeins tekur um 5 mínútur með lest að ferðast í fyrsta þorpið. Það kom mér á óvart hversu stutt vegalengdin er á milli þorpanna en þau liggja hlið við hlið og aðeins nokkrar mínútur að ferðast á milli þeirra. Við nýttum okkur lestarnar en mjög margir velja sér það að ganga á milli. Ég ætla að eiga það inni. :)
Við náðum að vísu bara 3 þorpum þar sem að við ákváðum að eyða helium degi í eina þorpinu sem hafði strönd.
Við fylgdum einnig ráðum leigjanda okkar og heimsóttum önnur þorp fyrir utan þessi týpísku 5.
Porto Venere er fallegt þorp þar sem hægt var að fara í siglingu í kringum eyjarnar sem liggja þar fyrir utan. Það er fræg höfn fyrir snekkjur fræga fólksins og til dæmis var Beckham fjölskyldan þar ekki fyrir svo löngu síðan.
Síðasta daginn böðuðum við okkur á troðfullri strönd á Lerici, þar sem Ítalir voru í meirihluta.
Þorpin fimm eru uppfull af ferðamönnum, en staðina sem leigjandinn okkar mældi með eru meira heimsóttir af Ítölum og hafa því sinn sjarma. Við fórum einnig á 2 veitingastaði sem leigjandinn mældi með og voru þeir frábærir. Það er svo gaman að fá svona “insider tips” því að sú upplifun er svo allt öðruvísi – innan um heimamennina í þeirra uppáhaldi.
Vonandi geta einhverjir nýtt sér þetta, en ég myndi mæla með 5-7 dögum á þessum slóðum, en við vorum heldur stutt. Eitt af mínum uppáhalds ferðalögum hingað til.
Eftir sæluna niður við ströndina eyddum við síðan 4 dögum inní Mílanó borg. Ef þið hafið áhuga þá get ég sett inn “what to do” post frá Mílanó – sem kom mér skemmtilega á óvart eftir að hafa heyrt marga neikvæða gagnvart borginni.
Allir til Þorpanna fimm í næsta ferðalag?
xx,-EG-.
Skrifa Innlegg