fbpx

KONUR ERU KONUM BESTAR VOL3

FÓLKLÍFIÐ

12. SEPTEMBER – TAKIÐ DAGINN FRÁ!

Það er komið að skemmtilegasta tíma ársins, góðgerðaverkefnið okkar, sem mér þykir svo vænt um, KONUR ERU KONUM BESTAR VOL3 fer í sölu fimmtudaginn 12.september.

Bolurinn í ár er sá flottasti frá upphafi, ég get fullyrt það. Það er listakonan okkar hún Rakel Tómasdóttir sem á heiðurinn af myndinni á bakinu sem er svo vel heppnuð – KONUR !! 

Við ákváðum að hafa okkar mikilvægu skilaboð frekar lítil og látlaus í þetta skiptið, þrjár línur ofarlega fyrir miðju framaná bolnum. Með því móti er hægt að para hann vel saman með t.d. flottum blazer eða annarri yfirhöfn í vetur, en samt sjáum við alltaf setninguna sem skiptir okkur svo miklu máli – Konur Eru Konum Bestar.

Eins og síðustu ár er bolurinn samstarfsverkefni nokkurra kvenna. Ásamt mér þá eru það eins og áður fatahönnuðurinn Andrea Magnúsdóttir, ljósmyndarinn Aldís Pálsdóttir og grafíski hönnuðurinn Rakel Tómasdóttir og í ár hefur ein ofurkonan bæst í okkar góða hóp – Nanna Kristín Tryggvadóttir.

KEKB: Paldís, Nanna, Elísabet, Andrea & Rakel.
Takk Sara Dögg fyrir að farða okkur svona fallega

Hvað er KONUR ERU KONUM BESTAR?

Afhverju stofnuðum við AndreA Konur eru Konum Bestar 2017 og fyrir hvað stendur þessi setning?

Þið sem ekki þekkið til þá snýst setningin Konur Eru Konur Bestar um það að við, konur, verðum að standa saman frekar en að draga hvor aðra niður. Breytum neikvæðu hugafari og umtali og gerum þannig samfélagið okkar að betri stað.

Góðgerðarverkefnið  hefur verið hugarfóstur okkar í mörg ár en við viljum sjá meiri samstöðu meðal íslenskra kvenna í okkar litla góða samfélagi. Neikvæðni og slæmt umtal er því miður daglegt brauð í nútíma samfélagi og á netinu virðist fólk hafa leyfi til að ráðast á hvern sem er með orðum. Orð geta verið álög og þetta er eitthvað sem þarf að bæta og helst breyta. Við erum fyrirmyndir komandi kynslóða og þurfum að sýna meiri kærleik og virðingu gagnavart náunganumAndreA selur íslenskum konum föt hvern einasta dag og lesendur Trendnet eru að stærstum hluta konur svo það lá beinast við að sameina kraftana okkar Andreu í upphafi en í dag er klappliðið orðið miklu stærra! Það er magnað að finna fyrir samstöðunni sem myndast í kringum þetta mikilvæga verkefni.

Bolurinn er góðgerðaverkefni og fer allur ágóði af sölu hans til góðra málefna ár hvert.

2017 – 350 bolir – gáfum 1 milljón í Kvennaathvarfið
2018 – 
500 bolir – gáfum 1,9 milljónir í Menntunarsjóð Mæðrastyrksnefndar
2019 – ?

Að þessu sinni kom ekkert annað til greina en að styrkja ungt fólk og aðstandendur þeirra í baráttu gegn krabbameini. Þessi barátta hefur verið sérstaklega áberandi undanfarna mánuði.

Í ár völdum við að styrkja KRAFT – félagið hefur það að leiðarljósi að beita sameinuðum kröftum sínum til að aðstoða og styðja ungt fólk sem greinst hefur með krabbamein og aðstandendur þess. Félagið er fyrir fólk á aldrinum 18 – 40 ára sem greinst hefur með krabbamein og aðstandendur á öllum aldri alveg frá 16 ára og upp úr.

Við höfum alltaf viljað velja málefni sem hjálpar konum en þarna hjálpum við bæði konum og körlum. Málefnið stendur mér nærri en ég þekki til tveggja dásamlegra fjölskyldna sem þurftu að kveðja einn ástvin sökum þessa ömurlega sjúkdóms. Önnur þeirra er frænka mín, Ástrós Rut Sigurðardóttir, aðstandandi (kona) Bjarka Más og elsku Emma dóttir þeirra (kona). Hin var Fanney Eiríksdóttir vinkona (kona) sem kvaddi þennan heim og skildi eftir sig Ragnar Snæ, Emilý (kona) og kraftaverkadrenginn Erik Fjólar.

Bæði voru þau gestir í brúðkaupi okkar Gunna fyrir rúmu ári síðan, þá var Bjarki búinn að berjast fyrir lífi sínu í 6 ár á meðan Fanney geislaði með litla óléttu bumbu alveg ómeðvituð um hvað beið hennar, hún greindist í vikunni eftir brúðkaupið.

Bæði Bjarki og Fanney kvöddu í sumar, með viku millibili og við tekur erfitt líf fyrir aðstandendur sem sitja eftir. Elsku börnin sem kvöddu foreldra sína alltof snemma og þau eru ekki þau einu heldur er staðreyndin sú að ungt fólk er að greinast alltof oft.

 

Þessi færsla sýnir ykkur bolinn í fyrsta sinn og þið megið gjarnan deila henni fyrir mig svo sem flestir sjái hana. Það eru allir velkomnir að vera með í klappliði KONUR ERU KONUM BESTAR.

Það myndi skipta mig og mínar konur mjög miklu máli ef að sem flestir sjá sér fært að mæta á viðburðinn okkar, næsta fimmtudag eftir vinnu. Fyrstu 100 sem mæta fá veglegan gjafapoka, léttir drykkir í boði og ljúf stemning.  

HVAR: AndreA, Norðurbakk 1
HVENÆR: FIMMTUDAGINN 12.september
KLUKKAN HVAÐ: 17:00 – 20:00
HVERS VEGNA: AF ÞVÍ VIÐ ERUM ALLAR Í SAMA LIÐI ♥
Meira: HÉR

xx,-EG-.

@elgunnars á Instagram

 

EPLAKAKA - FORRÉTTINDI AÐ NOTA HRÁEFNI ÚR GARÐINUM

Skrifa Innlegg

Hætta við svar

Skilaboð 1

  1. Andrea

    8. September 2019

    veiiii hlakka svo til
    og eeeeeelksa þennan bol <3