Rakel Tómasdóttir, Andrea Magnúsdóttir, Elísabet Gunnarsdóttir og Aldís Pálsdóttir ljósmyndari
Gleðilegan Kvenréttindadag kæru lesendur. Ég átti góða stund með góðum konum fyrri part dags þar sem við tókum myndir af nýjum bolum sem fara í sölu seinna í vikunni. Um er að ræða hvíta stuttermaboli sem bera merkinguna: KONUR ERU KONUM BESTAR …hljómar það ekki miklu betur en þessi gamla leiðinlega lína sem við erum vanar að heyra?
Neikvæðni og slæmt umtal virðist vera orðið daglegt brauð í nútíma samfélagi og á netinu virðist fólk hafa leyfi til að ráðast á hvern sem er með orðum. Orð geta verið álög og þetta er eitthvað sem þarf að bæta og helst breyta. Við erum fyrirmyndir komandi kynslóða og þurfum að sýna meiri kærleik og virðingu gagnavart náunganum.
Merktir stuttermabolir með skilaboðum hafa aldrei verið vinsælli og þær vinsældir halda áfram út árið miðað við það sem hátískan sýnir okkur. Við AndreA deilum sömu ástríðu fyrir því að vilja breyta neikvæðu hugafari og gera þannig samfélagið okkar að betri stað. Við ákváðum því að fara þessa leið sem fyrsta skref í því átaki. AndreA selur íslenskum konum klæði hvern einasta dag og mínir lesendur eru 90% konur, þið eruð því einhverjar sem gætuð rekist á þessi skrif og myndir af stuttermabolnum sem minnir okkur á málefnið. Hér ættum við að ná til hóps sem vonandi er á sama máli og vill hjálpa okkur að dreifa boðskapnum enn frekar.
Framtíðin er björt: Magnea dóttir Aldísar, Alba dóttir mín og Ísabella dóttir Andreu.
Sem mæður þá leist okkur ekki nógu vel á þann veruleika sem börn okkar alast uppí. Okkur ber skylda að reyna að bæta hann og vera fyrirmyndir og sjá til þess að okkar börn verði einnig góðar fyrirmyndir.
Samstarfið hlaut yfirskriftina ,,Konur eru konum bestar” og þau orð passa svo sannarlega við okkar hugmynd. Lítil breyting á gamalli setningu en risa breyting á hugarfari. Þetta eru hlutir sem við getum stjórnað og það þarf oft ekki mikið til að gera marga mun hamingjusamari. Letrið á bolunum er hannað af Rakel Tómasdóttur ofursnilling og allur ágóði af sölu mun renna til Kvennaathvarfsins.
Hvítum stuttermabolum er hægt að klæðast við öll tækifæri – hægt að dressa upp og niður eftir tilefnum og fyrir fínni tilefni þarf lítið annað en rauðan varalit til að ná heildarlúkkinu. Loréal slóst því með í málefnið og mun varalitur fylgja með öllum bolunum.
Bolurinn fer í sölu á fimmtudagskvöld og ég vona að ég sjái ykkur sem flest þar í góðu geimi. Meira um viðburðinn: HÉR
Ég yrði auðvitað þakklát ef þið gætuð flest deilt þessum bloggpósti með því að smella á “deila” hér að neðan.
Áfram Ísland!
xx,-EG-.
Elísabet Gunnars á Facebook – HÉR
&
Trendnet á Facebook – HÉR
Skrifa Innlegg