Ég birti grein í Nýju Lífi á dögunum frá ferðalagi mínu til Parísar fyrr í sumar og viðtal við hátískuhönnuðinn Jean Paul Gaultier. Ferðalag sem gleymist seint – vel heppnað í alla staði. Takk fyrir mig Lindex.
Ferðinni var heitið til Parísar… Sem er mín uppáhaldsborg. Hlutverk mitt í borginni var sérstaklega skemmtilegt í þessa sinn. En ég var send til að taka viðtal við næsta samstarfshönnuð Lindex, sjálfan Jean Paul Gaultier.
Þeir sem hafa vit á tísku kannast flestir við nafnið en margir vita kannski ekki ýkja mikið um þennan ,,óþekka strák” franska tískuheimsins. Jean Paul er rúmlega sextugur og kemur frá úthverfi í París. Hann er þekktur fyrir áhrifaríka og byltingarkennda hönnun og hans þekktasta verk er án efa ,,keilubrjóstahaldarinn” sem Madonna gerði heimsfrægan í byrjun tíunda áratugarins. Það sem er sérstaklega áhugavert er að Jean Paul er ekkert menntaður á sviði tísku eða hönnunar hann fór þá ónvejulegu leið að byrja ungur að senda skissur til þekktra tískuhúsa með misjöfnum árangri. Að lokum hlaut hann starf að launum, 18 ára gamall.
Hann gengur undir viðurnefninu L’enfant terrible innan frönsku hátískunnar en viðurnefnið er notað í Frakklandi yfir óþekk börn sem verða foreldrum sínum til skammar. Hann hlaut viðurnefnið með því að fara leiðir sem ekki þykja við hæfi í hinum franska tískuheimi. Þar á meðal má nefna pils fyrir karlmenn
en þekktasta dæmið eru óvenjulegar fyrirsætur sem hafa gengið tískupallana hjá Gaultier: óléttar konur, eldri borgarar, dvergar
og nú síðast vinningshafi Eurovision 2014, dragdrottningin Conchita Wurst.
Til að gera langa sögu styttri þá hlaut Gaultier verðlaun árið 1987 sem hönnuður ársins í Frakklandi. Hann
hefur starfað undir sínu eigin merki frá árinu 1976 en það var
svo árið 1999 sem hann tók við hlutverki listræns stjórnanda hjá Hermés. Síðar meir hefur hann víkkað starfsvið sitt með leik í bíómyndum, húsgagnahönnun og loks ilmvatnslínu sem hann er hvað frægastur fyrir. Lindex er fyrsta verslunarkeðjan sem hann hannar fyrir en hann hefur áður verið í hönnunarsamstarfi við Coke Light.
Viðtalið fór fram í sýningarrými Gaultiers þar sem hans frægustu hátískuklæði héngu á slám allt um kring. Við mér blasti brosandi og vinalegur maður. Þegar ég kynnti mig og sagðist vera frá Íslandi skellti hann upp úr og sagði: ,,Oh la la, frá Íslandi – eins og Björk.” Því næst kallaði hann spenntur á aðstoðarkonu sína: ,,Heyrirðu hvernig hún talar? Með sama hreim og söngkonan Björk, þær eru frá sama landi!” Búið var að brjóta hið faglega andrúmsloft og honum tókst að fá smároða í kinnarnar á mér.
Hvers vegna valdirðu að gerast fatahönnuður?
Þegar ég var þriggja ára fékk ég bangsa að gjöf frá foreldrum mínum. Í
fyrstu lék ég mér með hann en síðar fór ég að klæða hann í föt sem ég breytti og bætti eftir mínu höfði. Ég fékk innblástur
úr auglýsingabæklingum sem komu inn um lúguna til ömmu minnar. Þegar ég var 12 ára sá ég svarthvíta tískumynd frá fimmta áratugnum og eftir það var ég ákveðinn í að verða fatahönnuður.
Hvernig voru æskuárin þín í Frakklandi?
Ég átti erfiða æsku og féll ekki í hópinn á mínum skólaárum. Ég hafði áhuga á tísku og hönnun. Amma mín var vön að leyfa mér að horfa á allt sem ég vildi. Kvöld eitt horfði ég á byrjunina af vinsælum þætti, þar sá ég fatnaðinn og féll fyrir stílnum. Daginn eftir fór ég í skólann og hófst strax handa við skissuteikningar sem voru innblásnar
af útlitinu í þættinum. Ég var með hendurnar út í loftið og kennslukonan sá greinilega að ég var ekki að gera það sem hún hafði sett fyrir. Hún kom aftan að mér og sagði: ,,Gaultier. Stattu upp!” Hún barði á hendurnar á mér með priki, eins og venjan var á þessum tíma. Því næst reif hún af mér teikninguna og sagði mér að standa með andlitið upp að veggnum. Svo festi hún teikninguna aftan á skyrtuna mína, þannig að allir krakkarnir sáu hana þegar þeir löbbuðu fram hjá. Þannig vildi hún niðurlægja mig fyrir að óhlýðnast. Fyrst gengu skólasystkini mín fram hjá, bentu á mig og hlógu: ,,Hann kann ekkert í fótbolta og nú þetta.” Þegar þau hins vegar komu nær og sáu teikningarnar þá varð raunin önnur. Næstu daga á eftir komu þau hvert af öðru og grátbáðu mig um að gera teikningar fyrir sig. Nú er ég viss um að þessi dagur hafi breytt minni stöðu, gert mig öruggari með mig og gefið mér sjálfstraust.
Hvernig komstu af á þessum árum?
Á mínum yngri árum notaðist ég mikið við hvíta lygi. Ég lærði að nota hvíta lygi þegar ég komst að því að jólasveinninn væri ekki til, þá uppgvötaði ég að maður gæti logið hlutum sem ekki myndu skaða aðra. Ég laug til dæmis því að ég ætti kærustu þó að raunin væri önnur. Ég notaði líka mikið sömu lygina um sænska súpermódelið Gunellu. Ég laug því að hún væri frænka mín því mér fannst hún svo falleg og hugsaði með mér að þetta gæti ég notað. Ég gat þá sagt við krakkana: ,,Ég er kannski ekkert
góður í fótbolta en frænka mín er samt súpermódel.” Ég notaði þessa lygi allt þar til ég byrjaði að vinna hjá Pierre Cardin. Þá hugsaði ég með mér að nú væri ég byrjaður að vinna þá vinnu sem mig langaði til og þyrfti því ekki að ljúga lengur. Ég varð að vera heiðarlegur og segja sannleikann svo að fólk tæki mark á mér. Með tímanum fann ég að fólk treysti mér meira og meira og það skiptir gríðarlegu máli í því sem ég er að gera. Á sama tíma fékk ég aukið sjálfstraust og hafði meiri trú á því sem ég stóð fyrir. Ég hafði þróast í að verða maður sem var mjög góð útgáfa af sjálfum mér. Ég var líka heppinn með foreldra sem höfðu opinn huga og studdu mig. Það hjálpaði mikið við mína mótun og er ég þeim ævinlega þakklátur fyrir það.
Geturðu sagt frá línunni sem þú hannaðir fyrir Lindex?
Ég get sagt þér það að öll línan er í Gaultier-stílnum. Innblásturinn er ekki afrit af mínum fyrri verkum og alls ekki lélegri gæðum þó að verðmunurinn sé mikill , miðað er við mínar línur. Ég vann þessa fatalínu með það í huga að ég væri að hanna Gaultier-línu. Við fengum módel mörgum sinnum í mátun og unnum línuna eins og hverja aðra. Þetta verður einstakt og mjög takmarkað, með áhugaverðum flíkum sem ég er stoltur af. Ég er ánægðastur með að gæðin verða frábær þrátt fyrir lágt verð.
Hvað finnst þér um skandinavískan fatastíl?
Skandinavískar konur þurfa auðvitað að verja sig meira fyrir kuldanum og fá því tækifæri til þess að klæðast fleiri flíkum í einu. Þær eru oft meira með trendin á hreinu en Parísardömurnar. Skandinavískar konur þora að fara út fyrir kassann og eru því eftirtektarverðari.
Hver eru tengsl þín og Madonnu?
Ég elska Madonnu! Hún er góð vinkona mín og við erum í frábæru vinasambandi. Ég sá hana fyrst í sjónvarpinu þegar hún söng lagið Holiday. Hún leit svo vel út, alveg glæsileg! Ég hugsaði með mér að hún hlyti að vera ensk – ég gat ekki ímyndað mér að einhver frá Ameríku gæti verið með svona sérstakan stíl. Madonna var alls staðar á þessum tíma, London, París, út um allt. Ég sá hana fyrst með eigin augum í New York árið 1985, ég var algjörlega heillaður. Stuttu síðar var fyrsta MTV-tónlistarverðlaunahátíðin haldin og ég fékk þann heiður að klæða hana fyrir rauða dregilinn. Það var besta mögulega auglýsing fyrir jaðarhönnuð eins og mig.
Madonna var mikil tískudrós og allar ungar stúlkur fylgdu hennar stíl. Hún hefur svo góða tilfinningu fyrir stíl og sömu sterku skoðanirnar og ég. Hún veit hvað hún vill og fílar mína hönnun sem er blanda af karlmennsku og hinu kvenlega. Fyrir mér er Madonna algjörlega einstök. Fyrir kvikmyndahátíðina í Cannes undirbjó hún sig með því að fletta í gegnum tískutímarit með mér. Þar fann hún hvernig hárið átti að vera á einni síðunni, förðun á þeirri næstu og loks innblástur að fötunum á þeirri þriðju. Þetta gaf ávallt sérstaka niðurstöðu. Madonna hefur þann hæfileika að hugsa ekkert út í því hvað öðrum finnst og fer sínar leiðir. Madonna var ekki með stílista á þessum tíma, heldur sá hún um heildarmyndina sjálf og valdi föt sem voru við hæfi. Skemmtilegt dæmi um það er þegar hún þurfti að vera með hnéhlífar vegna dansatriðis í einni sýningunni, stelpurnar tóku þetta upp eftir henni um leið og þar með bjó hún til vinsælt íþróttatrend.
Hvernig varð hinn frægi keilubrjóstahaldari til?
Madonna vissi hvað hún vildi og hún bað mig um að hanna eitthvað sem hefði aldrei sést áður. Niðurstaðan var keilubrjóstahaldarinn, Madonna fylgdi sínu innsæi og sló í gegn. Haldarann má síðan rekja lengra aftur í tímann, eða allt frá því að ég var að leika með bangsann minn. Ég fékk innblástur úr auglýsingahefti frá fimmta áratugnum sem sýndi fyrirsætur í undirfötum. Ég hugsaði um þennan sama haldara, að það þyrfti ekki að fela hann undir öðrum flíkum heldur væri hægt að gera eggjandi flík úr honum.
Munu undirfötin sem þú hannaðir fyrir Lindex vera í anda Madonnu?
Að einhverju leyti. Undirfatalínan er virkilega vel heppnuð og ég þori að fullyrða að viðskiptavinir verða ekki fyrir vonbrigðum, það er ef kúlubrjóstarhaldarinn var þeim að skapi. Línan er kynþokkafull og ekta Gaultier.
Hvað finnst þér um viðurnefnið þitt, L’enfant terrible?
Ég elska það! Það er þó bara tilbúningur, ég held að raunverulegur uppreisnarseggur myndi aldrei starfa við tísku. Það er algjör misskilningur að ég reyni að hneyksla þó að ég sé þekktur fyrir það. Fegurð er afstæð og stundum eru frávikin í samfélaginu einmitt fegurðin sem ég er að leita eftir. Ég hef alltaf fylgt hjartanu og gert það sem mér hefur fundist rétt og langað til á því augnabliki. Ég reyni að vinna með það sem er að gerast í heiminum, eitthvað sem er að virka. Fólk hélt til dæmis að ég hefði hannað pils á karlmenn til að sjokkera, en það var alls ekki þannig. Þegar ég var barn heyrði ég alltaf út undan mér
að karlmennska þýddi sterka og áhrifaríka menn. Það passaði engan veginn við mitt umhverfi þar sem allar konurnar í mínu lífi voru mikli stærri og sterkari karakterar en karlmennirnir. Þær voru bæði sterkari og klárari. Í fyrstu herralínunni sem ég hannaði vildi ég sýna þennan raunveruleika.
Af hverju fylgja svo margir tískustraumum?
Hvaðan kemur hræðslan við að vera öðruvísi? Ég held að fólk sé einfaldlega hrætt við höfnun. Ég held að margir fái neikvæð viðbrögð og hafnanir á lífsleiðinni. Þetta leiðir til þess að fólk velur annaðhvort auðveldu leiðina eða að þurfa allavega ekki að vera öðruvísi. Ég var heppinn í æsku og fékk stuðning frá foreldrum og ömmu minni sem ég var mjög náinn. Eins og með bangsann minn þá dæmdi mig enginn fyrir að klæða hann upp. Ég mátti reyndar ekki fá dúkku eins og mig langaði og fékk því bangsann í staðinn. Síðar meir þegar ég fékk enn meiri áhuga á tísku þá leyfði amma mín mér að gera það sem ég vildi. Ég fékk aldrei að heyra að það væri ekki fyrir stráka að vinna í tísku. Foreldrar mínir spurðu mig hins vegar hvort ég væri viss um að ég væri að gera það sem ég vildi. Þau sögðu að ef svo væri þá væru þau ánægð. Þess vegna er svo mikilvægt að fólk sé með opinn huga og sýn á lífið. Til að útskýra betur hversu opinn hugur foreldra minna var þá sá ég myndina Guess who is coming to dinner þegar ég var 12 ára. Myndin fjallar um svartan mann sem fellur fyrir hvítri konu. Í framhaldinu spurði ég pabba og mömmu hvað þau myndu segja ef ég kæmi með svarta konu heim. Þau sögðu að ef við myndum elska hvort annað þá væri það bara fallegt og allt færi vel. Seinna meir sagði ég þeim að ég væri með strák. Þau voru sjálfum sér samkvæm og spurðu hvort við elskuðum hvor annan. Sú var raunin og þá var allt í góðu lagi. Svona stuðningur í lífinu er ekki sjálfgefinn.
Ertu aldrei óöruggur með sjálfan þig?
Ég er ekki ofurmenni þó að ég segi að allt sé mögulegt. Ég er auðvitað hræddur við marga hluti. Ég get sagt með vissu að ég er mjög heppinn. Áður fyrr var ég feiminn og ég er það enn þá að einhverju leyti. Þegar ég var í skóla var mér hafnað fyrir hluti sem ég var ekki góður í. Til dæmis var ég ekki góður í fótbolta eins og hinir strákarnir í bekknum. Það varð til þess að ég fór að gera hluti sem ég kunni og var góður í. Ég varð öruggari með mig því ég vissi að ég var góður og þá hvarf feimnin. Ég var ekki góður í fótbolta en þegar krakkarnir fóru að biðja mig um skissur þá opnuðust einhverjar nýjar dyr fyrir mér sem gerðu mig að annarri og öruggari persónu. Ég gat leyft mér að vera ég sjálfur, ég þurfti ekki að þykjast lengur.
Hefurðu góð ráð fyrir þá sem eiga sér æskudrauma?
Þetta er kannski klisja, en hún er sönn; allt er mögulegt! Ég átti mér óvenjulegan draum 12 ára gamall, eftir að hafa horft á tískumynd, og hann varð að veruleika. Þessvegna vil ég meina að allir geti elt drauma sína og látið þá rætast. Þegar þú virkilega elskar eitthvað og vinnur hörðum höndum að því, þá rætist draumur þinn að lokum.
Jean Paul Gaultier er frumkvöðull sem þorir að fara eigin leiðir. Hann lítur á lífið með opnum huga: að hans mati eiga einstaklingar að leyfa sér að þroskast og finna sig á sínum sviðum, þó að það sé ekki alltaf innan hins týpíska ramma samfélagsins. Þrátt fyrir að hafa notið mikillar velgengni kemur Jean Paul eins fram við alla og lætur frægðina ekki stíga sér til höfuðs. Útgangspunktur Jean Pauls er einfaldur: Allir ættu að berjast fyrir draumum sínum, enda er allt hægt ef viljinn er fyrir hendi!
Skrifa Innlegg