Það er búið að blunda aðeins í mér hvort ég ætti að setjast og skrifa niður þær breytingar sem ég hef verið að ganga í gegnum síðustu mánuði. Mér finnst eins og ég sé að fara aðeins of persónulegt í málin, en hey ..
Ég hef í gegnum tíðina ekki verið reglulegsti einstaklingur í heiminum. Ef ég horfi alveg lengst aftur, þá var ég krakkinn sem ekki fylgdist með í kennslustundum, ég horfði útum gluggann, ég krotaði í bækurnar mínar, og var því miður þekktur sem krakkinn sem truflaði í tímum. Ég var alveg vissum að þetta var hreinlega bara áhugaleysi á viðfangsefni eða ímyndunaraflið mitt að trufla. Ég var alltaf að fá flugur og hugmyndir í hausinn. Þegar ég lærði heima varð sjónvarpið helst að vera í gangi og einnig tónlist, mamma skildi þetta ekki, en jú sá að það virkaði ágætlega.
Ég allavega sættist bara við týpuna sem ég var, fókuseraði á það sem vakti áhuga minn, og skildi eftir það sem ég fílaði ekki. Ég hef alltaf þurft að vera meðvitaður um andlega líðan mína, en ég hef farið upp og niður eins og línurit síðan ég varð unglingur, og hafði aldrei lagt það á mig að þekkja tilfinningar mínar eða sjálfan mig, ég sigldi bara með straumnum. Ég vandi mig á slæman vana, þar sem ég gerði allt á síðustu stundu, ég skilaði ekki af mér verkefnum, ég reyndi að komast undan hlutum, ég frestaði öllu sem ég gerði, og ég skapaði mér því miður ekki nógu tryggt mannorð. Aftur, ég hélt að svona væri ég bara, sætti mig við það, ég vissi ekki hvað ég gæti annað gert en að vera meðvitaður um mistökin sem ég gerði. Sem eins og þið getið ímyndað ykkur, var ekki gott fyrir sálina. Andlegt niðurbrjót varð partur af daglegri rútínu.
Í byrjun síðasta árs var þetta farið að ágerast á þann hátt að ég var orðinn hræddur. Eftir öll þessi ár að sigla með þessum leiðinlega straum fann ég að þetta var farið að hafa virkilega skaðandi áhrif á mig. Ég upplifði þetta svolítið eins og hvirfilbyl sem skall á mig og ég þurfti bara að grúfa mig niður og bíða eftir að storminum linnti, því mér fannst ég ekki getað stjórnað neinu sjálfur. Á meðan storminum stóð varð ég leiður, uppstökkur og ósanngjarn, við aðra og sjálfan mig.
Ég á minn lífsþjálfara, sem ég leitaði til. Með henni ég fór yfir allt saman og þar hún sagði mér að þessi vanlíðan hefur mögulega eitthvað með ADHD að gera. Ég vissi svosem alveg að ég væri með athyglisbrest en ég pældi ekkert í því. Ég var búinn að sætta mig við að ég detti út stundum, að ég geti ekki lesið bók, að ég geri hluti á síðustu stundu og svo framvegis. Hún setti mig í samband við stórkostlega manneskju sem sjálf er með ADHD. Sú manneskja var svo góð að hjálpa mér og opnaði augu mín fyrir því, hvað þetta í rauninni var og kom í ljós, að þetta passaði allt við mig.
Það var farið að brenna svolítið í mér að ég þyrfti að láta kanna þetta, fara í greiningu, fá einhversskonar aðstoð. Geðlæknir var í rauninni það eina sem ég gat sótt í þessum aðstæðum. Ég eyddi mörgum vikum, ef ekki mánuði að hringja á morgnana þegar var opið fyrir símasamtöl. Ekkert gekk, engir tímar í boði fyrren eftir 6 til 7 mánuði, og hjá mörgum ár alveg uppí þrjú ár. Þegar næsti “hvirfilbylur” reið yfir vissi ég að ég gæti ekki meira, ekki með allar þessar nýju upplýsingar. Ég tók þá ákvörðun að skrifa niður heimilisföng læknastofa, og labba á milli stofana, banka á hurðir, og krefjast aðstoðar. Ég veit, það poppar örugglega “djöfull er hann klikkaður” uppí kollinn á einhverjum, en ég hugsaði nákvæmlega það sama. Það bakkaði mig upp með hugsa að þessir læknar díla við geðsjúklinga á hverjum degi, afhverju ekki að haga sér eins og einn slíkur?
Þetta gekk eins og í sögu, eftir að hafa fengið synjun frá nokkrum læknum var ein góð kona sem bauðst til að aðstoða mig, þið getið þó ímyndað ykkur að þarna var ég orðinn mjög desperate og órólegur.
Ég fékk tíma hjá lækni, fór í greiningaferli, og kemur í ljós – að ég er með ADHD, athyglisbrest og ofvirkni.
Ég fékk lyf til að hjálpa mér, til að koma huganum í ró og fá einbeitingu og ég hef grátið úr ánægju á því tímabili. Kannski dramatískt að segja það, en mér finnst eins og ég hafi öðlast fullt af nýjum lífsgæðum. Fókus og einbeiting er eitthvað sem fólk má vera virkilega ánægt með að hafa, þetta er sterkt og mikilvægt fyrirbæri. Ég sinni vinnunni og verkefnum betur, skipulaginu mínu, ég nýti dagana mína betur, ég er glaðari, og finnst í fyrsta skipti í mörg ár eins og ég geti alveg náð þeim markmiðum sem ég hef sett mér. Áður fyrr fannst mér eins og þau væru mjög óraunhæf.
Lífið með ADHD tekur stundum á, að geta ekki sofnað nema hafa eitthvað hljóð, skjá eða sjónvarp til að svæfa mig. Gleyma hlutum útum allar tryssur, gleyma mér í samtölum, geta ekki lesið bækur, meira segja gleyma næsta orði sem ég ætla að segja. Þetta er þó ekkert sem ég hef stjórn á, allavega ekki góða. Svona virkar einfaldlega minn heili og ég hef oft heyrt að þetta sé eitthvað tabú. Að eitthvað sé að mér. Það er ekkert minna að mér en að ef ég væri með lélega sjón, eða lélega heyrn. Þau sem sjá illa fá gleraugu og aðrir sem heyra illa fá heyrnatæki. Ég þarf líka aðstoð og ég vona að aðrir sem eru með ADHD þurfa ekki að bíða til 23 ára aldurs til að fá aðstoð. Ef ég hugsa tilbaka þá hefði ég eflaust ekki hætt í Menntaskóla, eða gefist upp í prófunum mínum, bókum sem mig langaði að lesa, eða svindlað á samræmduprófunum hefði einhver kennari sagt mér eða foreldrum mínum að ég væri kannski með ADHD og hefði þá fengið hjálp. Ég var bara vandræðagemsinn sem truflaði í tímum.
Skrifa Innlegg