fbpx

HARMLEIKUR

ÍSLAND

Hæ elsku vinir –

Dagurinn í gær var vægast sagt skrýtinn. Ég var mættur í Smáralind að vinna verkefni þegar ég fann þessa fáranlegu þörf til að tala við Dagnýju systir og sagði meðal annars við hana “Mig vantar bara að heyra þig segja “you got this” við mig” – við erum bestu vinir og tölum reglulega saman. Nokkrar mínútur inní símtalið heyri ég bara “Framhús er farið” en það er húsið hennar systir minnar sem við höfum átt ófáar minningar saman með henni og stelpunum hennar, Margrét Móeiði og Sigrúnu Ísold. Skærustu stjörnur. Hjartað á mér pompaði og í kjölfarið tekur við stór rússíbani. Skriða féll á húsið og húsið algjörlega ónýtt. Þakklæti er varla nóg, því tilfinningin er svo þúsund sinnum stærri en það. Að húsið hafi verið mannlaust og að enginn slasaðist. Við eigum marga engla sem vaka yfir bænum og þeir hjálpuðu.

Ég veit ekki alveg hvert ég ætlaði með þennan pistil og skrifa ég þetta með tárin í augunum. Þetta er bara ekki flókið, Seyðisfjörður er fjölskylda. Við erum eins og heil ætt, með skrýtna frændanum með fyndnu frænkunni. Það hefur sýnt sig og sannað aftur og aftur að samkenndin sem einkennir þetta bæjarfélag er algjörlega einstakt. Það sem við Seyðfirðingar og velunnarar deilum fyrst og fremst er ástin okkar gagnvart bænum. Hver einasti foss og hver einasti lækur er okkur heilagur. Orkan þarna kemur líka beint tilbaka til okkar og til þeirra sem heimsækja bæinn. Hún er mjög heilandi, næstum eins og faðmlag frá góðum ástvin. Svo tilhugsunin hversu margir af okkar fólki á staðnum eru skelkaðir, hræddir og sorgmæddir er þyngra en tárum taki.

Þetta hefur verið eins og að fylgjast með bíómynd og raunveruleikinn hefur svo sannarlega ekki kikkað inn. Þessi nýi raunveruleiki að historísk og innilega stórkostleg hús séu farin og við deilum öll einhverjum minningum í hverju og einu húsi. Raunveruleikinn að fólk hafi misst heimili, vinnustaði og einstök hús. Ég veit ekki hvernig þetta verður allt, en ég veit að Seyðfirðingar sigra með kærleiknum sem býr í þeim.

Pabbi skrifaði svo fallegt á Facebook og ég nýti þau sem lokaorð:

“Seyðisfjörður mun rísa upp á ný, sólin mun aftur skína á fjörðinn og skriðan mun aftur verða græn” 

Ef þið hafið tök, þá eru eftirfarandi upplýsingar:

Rauði Krossinn á Seyðisfirði
Kennitala: 620780-3329
Reikningsnúmer: 0176-26-30

Björgunarsveitin Ísólfur
Kennitala: 580484-0349
Reikningsnúmer: 0176-26-5157

Þið sem hafið sent mér skilaboðin, takk æðislega <3

MÍN EIGIN SKARTGRIPALÍNA - 1104 BY MAR

Skrifa Innlegg