fbpx

ANDLEGT OFBELDI

PERSONALTHOUGHTS

Ég veit ég er bloggari og hef þennan yndislega heiður á að skrifa á þessu frábæra bloggi og á þessum vettvangi sem mér var gefinn fyrir níu árum. Þið sem hafið lesið bloggin mín vitið að ég fer yfir allt saman hér. Mér finnst þessi vettvangur vera gott tækifæri til að skrifa niður.

Síðasta árið hef ég skrifað helling niður en það er eitt af þeim tólum sem ég nota til að heila mig í gegnum það sem hefur verið í gangi hjá mér og virðist engan enda ætla að taka. Árið byrjaði á endalausri og óstöðvandi andlegri vinnu frá því að ég vaknaði og frá því ég sofnaði. Það var bæði erfiður og yndislegur tími. Ég var nokkuð naívur að halda að þetta “prógram” mundi bara taka nokkra mánuði og svo yrði ég góður og lífið heldur áfram. En þetta er aðeins flóknara, og ég ætla bara að skrifa þetta, sem ég hélt ég mundi svosem aldrei gera en ég ætla bara að gera það.

Ég var í ofbeldissambandi í átta ár – 

Ég hef farið fram og tilbaka í kringum þetta allt saman. Einn daginn er ég vissum að þetta sé allt í hausnum á mér, annan daginn er ég bugaður að hugsa til þess að ég hafi fjárfest hverri einustu frumu í sjálfum mér til að vera sem boxpúði oftar en ég þori að hugsa um. Ég hef reynt að kynna mér og læra um hvert einasta líffræðilega og sálfræðilega part af andlegu ofbeldi. Sorg, reiði, myrkur, ljós, efi, sorg, reiði, efi aftur og aftur. Líffræðilega hef ég lært að þegar maður er í slíku sambandi þá gerir blanda af serótónin (gleðihormóninn okkar) og oxitósin (streytuhormóninn) það að verkum að heilinn á manni sem á að vernda okkur, algjörlega svíkur mann. Heilinn fer hægt og rólega að trúa því að andlegt ofbeldi sé partur af öllu hinu góða sem finnst í sambandinu. Ég segi aldrei að hver einasta sekúnda í sambandinu mínu hafi verið hreint helvíti. Alls ekki. Ég var í sambandi með að ég hélt, ástinni í lífi mínu. Ég elskaði hann langt langt framyfir öll mörk, ég hélt ég gæti elskað hann til að koma vel fram, biðjast afsökunar á hegðun sinni og í rauninni elskað hann það mikið að það gæti leyft honum til að finna fyrir frelsi til að vera nákvæmlega hann sjálfur og ég mundi elska hann með öllum kostum og göllum. En ég komst aldrei þangað. Ég komst aldrei í gegnum þennan þykka skráp sem stjórnaði öllu. En ég veit líka að þetta er sorgleg staða því þetta kemur allt frá umhverfinu alveg frá blautu barnsbeini. Ég sé það núna að allt var stríð að hans hálfu, smáhlutir, pínulitlir hlutir sem skiptu engu máli, atómsaflsviðbrögð sem komu mér alltaf að óvörum, gaslýsing í tíunda veldi, ábyrgðarleysi, lygar og endalaus kýtingur.

MeToo byltingin hefur gefið mér gríðarlegan styrk til að standa í sannleikanum mínum og ég þarf ekki að efa allt lengur. Bjarkarhlíð hefur líka verið staður sem hefur gjörsamlega hjálpað mér í kringum þetta ferli. Helgaspjallið hefur líka verið fræðandi vettvangur fyrir mig þar sem margir þættir hafa tengst þessum málum. Um er að ræða allt ofbeldi, ég er búinn að fá að upplifa það að andlegt ofbeldi er ekkert til að draga úr. Á Íslandi sem og annarsstaðar eru ofbeldismenn og ofbeldisfólk ráfandi um allsstaðar, og algengari en við gerum okkur grein fyrir. Það er meira segja ógnvekjandi. Andlegt ofbeldi þarf að fá meiri umræðu í samfélaginu, það er grafalvarlegt að þessi tegund af ofbeldi getur gert það af verkum að heilinn getur farið í klessu og eftir að maður kemst útúr aðstæðum er þörf fyrir að eyða öllum sálarkröftum til að endurprógramma heilann til að geta lifað ágætu lífi.

Síðustu mánuðir hafa verið eins og línurit, skýst upp og pompar niður. Það var ekki fyrren nýlega þegar ég talaði við Söru Maríu í Helgaspjallinu sem ég vaknaði að mögnuðu leyti. Ég hef svo lengi verið fangi fórnarlambsins, sem ég reyni mér aldrei að vera í. Trúi því svo sannarlega að það er allt annað en hollt fyrir mann að vera í fórnarlambsmegin í lífinu. Ég held bara að ég hef aldrei náð að taka það í sátt að vita að ég var að rífa af mér allar öreindir til að reyna elska og “bjarga” einhverjum sem var markvisst að eyðinleggja mig. Hvernig það var hægt skildi ég ekki. Finnst allt mjög sorglegt við það. “Hvernig gat hann gert þetta” og allt það. En Sara María er mér ótrúlega kær og hefur kennt mér meira en ég geri mér sjálfur grein fyrir. Hún kenndi mér um daginn um sjálfsábyrgð. Hún spurði mig einfaldlega “Hvað með þig? En hvað með þína ábyrgð í þessu?”. Mér brá fyrst, hvað átti hún við? Hann er vondi gaurinn. Það er ég sem er að vinna uppúr ofbeldinu. En svo fór ég hægt og rólega að skilja hvað hún átti við, og hún hélt einmitt áfram að orða þetta með miklum kærleik og bara mjög djúpum gáfum. Sjálfsábyrgð. Sjálfsáááábyrgð. Ég stjórna ekki hvort hann kýs að taka ábyrgð (shocker, það mun aldrei gerast), ég stjórna engu, ég get ekkert gert eða sagt til að fá að heyra orðin sem eiga að láta mér líða betur eða gefa mér staðfestinguna eða viðurkenninguna sem ég tel mig þurfa. Það er ekki málið. Ég þarf að taka ábyrgð á meðvirkninni minni, ábyrgð á því að hafa ekki vitað betur, ábyrgð á sjálfum mér að öllu leyti hvað ég gerði rétt og hvað ég gerði rangt í þessu sambandi. Þetta var gríðarlega frelsandi og lífið mitt hefur tekið drastískar breytingar eftir að hún sagði mér þetta. Ég get ekki mælt meira með þessum þætti, en þið finnið hann HÉR.

Eitt er fyrir víst. Það var ekki þess virði að fara í gegnum þetta ef ég get ekki hjálpað öðrum. Ég mun aldrei hætta að berjast fyrir vitundarvakningu hvað andlegt ofbeldi varðar. Ég hef fengið að upplifa hvað þetta er og hvernig áhrif þetta hefur. Við þurfum að hafa hátt, hvað varðar allt ofbeldi. Þetta á ekki að líðast. Þetta er nýja öldin okkar – ekki meiri þöggun. Höfum einnig eitt á hreinu. Ef fólk sem beitir ofbeldi vill ekki að fólk viti að þau beiti ofbeldi, þá á það ekki að beita ofbeldi.

Fræðumst endalaust, hjálpumst að. Fræðið ykkur um narsissisma og öll rauðu flöggin. Ef þið eruð í ofbeldissambandi er aðeins ein leið og hún er ÚT – ég veit að það er hægara sagt en gert, en ekki gefast upp. Þið getið fengið aðstoð, eins og Bjarkarhlíð, sem gjörsamlega hafa bjargað mér. Þið eruð ekki ein, við er hóóóóópur sem hafa verið að hjálpast að til að lyfta hvert öðru upp. Þið megið biðja um aðstoð.

ást og kærleikur –

Helgi

RÓSIN MEÐ TRENDNET O.G ERNU HRUND -

Skrifa Innlegg

2 Skilaboð

  1. Svart á Hvítu

    21. September 2021

    Helgi þú ert yndi og gull og ert án efa að hjálpa fleirum en þig grunar :*

  2. Pingback: Helgi Ómars var í ofbeldissambandi í átta ár – „Ég var í sambandi með, að ég hélt, ástinni í lífi mínu“ - DV