fbpx

AÐ BROTNA & VAKNA TIL LÍFSINS –

PERSONAL

Hæ kæru Trendnet lesendur – ef þið munið ennþá eftir mér. Ég ákvað að koma inn og opna mig aðeins um síðustu vikur eða mánuði. Ég er liggur við hræddur við það en ég veit heldur ekki hversu mikið ég á að skrifa eða hvernig ég á að setja þetta almennilega í orð. Þið vitið kannski mörg að ég flutti heim síðasta haust og í kjölfarið endaði 8 ára samband. Samband sem ég hélt að ég mundi berjast fyrir að eilífu. Sem ég svosem gerði, nema að eilífu var lífstíðin innra með mér sem gat barist fyrir því að sambandið mundi virka. Ég átti ekkert eftir, þó svo að ég reyndi. Það var annaðhvort að færa mig heim og taka ákvörðunina eða halda áfram og verða að engu. Ég kom heim með smá ragettu í rassinum, stofnaði fyrirtæki, vann 16 tíma á dag, svaf lítið, borðaði lítið, gerði mitt besta og hugsaði með mér að kannski koma skuldardagarnir ekki. Kannski verð ég bara alltílagi í framhaldinu. Þið sáuð það hér, það kemur – alltaf – af skuldardögum. Uppgjörið er alltaf partur af programmet. 

Það gerðist á aðfangadag, systemið mitt var hætt að geta reipitogað og verndað mig frá því sem koma skyldi. Að horfast í augu við það sem var í raun og veru í gangi í lífinu mínu. Við tók erfiðasta verkefni sem ég hef tekið að mér, tók því samt með auðmýkt, það er mjög gefandi að lenda í svona miklum sársauka. Grátköst örugglega 8 sinnum á dag, lokaður inní herbergi, takmarkaður svefn, martraðir, lítil sem engin næring, titringsköst undir sæng og hreinlega að efa hvort ég mundi lifa þetta af, og hvernig fólk yfirhöfuð hefur lifað svona af áður svo eitthvað sé nefnt. Ég var eins og heróín fíkill að ná úr mér eiturefnunum, ekki það að ég hafi prófað það, en ég get ímyndað mér að það sé sirka svona.

Ég þarf að passa mig að segja ekki of mikið. En ég var búinn að sitja í tilfinningarússíbana sem ég mundi ekki bjóða mínum versta óvini uppá í alltof langan tíma, mörg ár og núna var minn tími kominn til að loksins – eins og Fönixinn, að brenna upp og verða að ösku og hefja endurfæðinguna. Ein lítil fjöður í einu þangað til ég get staðið uppréttur aftur og tilbúinn að fljúga.

Janúarmánuður fór í full time sjálfsvinnu, frá því ég vaknaði og þangað til ég fór að sofa. Sársauki er stórkostlegur kennari, ég gæti ekki verið þakklátari fyrir þessa reynslu. Ég sé núna afhverju við brotnum, eins og vöðvarnir okkar. Við brotnum til að stækka og ég hlakka til að stækka enn meira en ég hef gert. Ég er enn í prógrammi, á hverjum degi. Ég hef náð gríðarlegum árangri en það er nóg eftir og er þakklátur að hafa fengið pláss til þess að horfast í augu við allt sem þessu tengist, það eru ekki allir sem hafa slíkt pláss. En hér er ég, lítill Fönix kjúklingur, með nokkrar glænýjar fjaðrir sem eru glansandi, heilbrigðar og sterkar. Og hlakka til að halda áfram ævintýrinu mínu, þá á ég við bara lífið almennt, en líka Trendnet ævintýrið. Ég er þakklátur að hafa þetta outlet til að fá að skrifa til ykkar sem nennið að lesa.

Ég sendi ást og kærleik á alla – og það er alltaf nóg að gera á @helgiomarsson og Helgaspjallinu – sjáumst þar líka!

Ykkar

Helgi

3 in 1 HJÁ CLINIQUE FYRIR STRÁKANA

Skrifa Innlegg

Skilaboð 1

  1. Eygló

    11. February 2021

    Fallega skrifað. Gangi þér vel í uppbyggingunni, áfram þú :)