fbpx

TAKK FYRIR MIG KVENNAKRAFTUR

LÍFIÐ

@kvennakraftur er frábært framtak á Instagram sem ég er svo þakklát fyrir að hafa verið partur af. Takk fyrir að heyra í mér og horfa á mig sem góða fyrirmynd, það hlýnar í hjartanu að vita til þess að maður er að gera eitthvað gott með þessu öllu saman. Viðtalið var tekið í vor en birt núna í haust á besta tíma þegar við hjá Konur Eru Konum Bestar erum einmitt að leggja lokahönd á okkar fjórðu góðgerðaboli. KEKB snýst nefnilega smá um það sama og Kvennakrafturinn að því leiti að við viljum að konur standi saman og lyfti hvor annarri upp, Kvennakraftur er flott dæmi um slíkt. Hugmyndin er að setja konur í fókus og veita innblástur fyrir – sýna að það eru margar konur úti í samfélaginu að gera góða hluti sem mega fá klapp á bakið.

Mæli með að konur fylgi  þeim á Instagram til að kynnast conceptinu betur –

Elísabet Gunnarsdóttir⠀
Frumkvöðull og eigandi @trendnetis
—⠀
@elgunnars fæddist 6. maí 1987 og ólst upp í Grafarvogi. Sem barn hafði hún mikinn áhuga á söng og leiklist og græddi hún þar góðan grunn sem nýtist henni vel í öllu sem hún gerir í dag.⠀
—⠀
Árið 2009 flutti Elísabet ásamt handboltamanni sínum til Svíþjóðar. Hún var í viðskiptafræðinámi en hugðist taka frí til að sinna ungbarni þeirra. Hún varð eirðarlaus og plön breyttust. Hún opnaði vefsíðu til að hjálpa Íslendingum að nálgast fatnað úr skandinavískum verslunum og byrjaði að blogga til að koma með hugmyndir af því besta úr búðunum. Vefsíðan fór á flug og mikil vinna í kringum hana. Árið 2012 tók næsta ævintýri við, þar sem hún og Álfrún Pálsdóttir söfnuðu saman vinsælustu íslensku bloggurunum. Trendnet varð til og er hún stolt af þeim fjölbreytta hópi sem þar hefur skrifað.⠀
—⠀
Ferðalag fjölskyldunnar hélt áfram, þau fluttu til Frakklands, Þýskalands, Svíþjóðar og Danmerkur – og ávallt hefur hún sinnt vinnu með fartölvuna við hönd. Hún kláraði nám frá Bifröst og skrifaði BS ritgerð um blogg sem nýja leið í markaðsmálum, sem hjálpaði mikið við upphaf Trendnets. ⠀
—⠀
Elísabet sinnir ýmsum verkefnum. Þau hjónin eru umboðsaðilar Sjöstrand á Íslandi, hún bloggar, er virk á samfélagsmiðlum og reynir að gefa af sér á fleiri sviðum. Hún er hvað stoltust af verkefninu, Konur Eru Konum Bestar. Árlegu átaki þar sem minnt er á mikilvægan boðskap, að konur (og menn) eigi að vera í sama liði. Átakið stækkar með ári hverju og styrkir verkefnið góðgerðarstörf.⠀
—⠀
Elísabet telur mikilvægt að þora að láta vaða og ekki mikla hlutina fyrir sér, það gerir ekkert til að gera mistök. Það er hægt að byrja smátt og sjá fljótt hvort hugmyndin sé eitthvað sem mun virka. Hún hefur trú á sínu og telur að ef fólk trúir á eitthvað, þá trúir fólkið í kringum þig því líka. Elísabet vill fara eigin leiðir og gera frekar færri hluti og gera þá vel. Hún vill koma vel fram og kennir börnunum sínum það líka. Ekki baktala, lærðu að samgleðjast og svaraðu gagnrýni og leiðindum með góðmennsku – það er besta vopnið.⠀
—⠀
Skilaboð Elísabetar til annarra kvenna: Láttu vaða, það er ekkert víst að þetta klikki. Áfram þú!⠀

Takk fyrir mig @kvennakraftur

xx,-EG-.

@elgunnars á Instagram

LÍFIÐ: HALLÓ ÍSLAND

Skrifa Innlegg