fbpx

ÍSLENSKUR FATAHÖNNUÐUR SEM VERT AÐ FYLGJAST MEÐ

ALMENNTFÓLK

Útskrifarlína Sigríðar er hönnuð út frá spennandi karakter sem hún bjó sér til með sjálfbærni og umhverfishyggju að leiðarljósti.

Sigríður Ágústa / Útskriftalína

Ég elska að fylgjast með ungu fólki á uppleið og nýútskrifaði fatahönnuðurinn Sigríður Ágústa er ein af þeim sem vert er að fylgjast með. Ég kynntist Sigríði á tískuvikunni í Kaupmannahöfn fyrir tveimur árum þar sem hún aðstoðaði baksviðs hjá einni af skærustu fatahönnuðum Danmerkur, sjálfri Stine Goya.  Nú hefur Sigríður sjálf náð sér í fatahönnunargráðu frá Listaháskóla Íslands. Útskriftarlínan hennar heillaði mig og ég held að við munum sjá mikið af þessari metnaðarfullu stelpu í nánustu framtíð, en kynnumst henni betur hér að neðan –

Hver er Sigríður Ágústa?

Ég er 27 ára, fædd og uppalin á vestfjörðum og yngst í stórum systrahóp. Ég bý í Hlíðunum ásamt syni mínum og kærasta. Þá er ég nýlega útskrifuð úr fatahönnun frá Listaháskóla Íslands.

Hvernig lýsir þú útskriftalínunni? 

Í upphafi var ég mikið að skoða neysluhyggju, umhverfismál og hvernig við metum hlutina okkar. Fyrir mig verða hlutirnir svo persónulegir þegar ég geri þá sjálf eða einhver sem mér þykir vænt um býr til. Ég bjó því til karakter og heim fyrir karakterinn og byrjaði að vinna línuna út frá því. 

Karakterinn er fyrrum glæsikona sem neyðist til að flytja út á land með einungis hennar veraldlegu eigur. Hún þarf að fá sér vinnu í fiski og þarf að læra að bjarga sér, gera við fötin sín og skapa ný úr hlutunum í kringum hana. En á sama tíma sleppir hún aldrei takinu af glamúrnum. Þessu náði ég fram með því að búa til vinnufatnað á móti meiri glamúr flíkum, notaði efni sem líktust áklæði og rúmdýnu og svo má sjá tilvísun í fiskvinnslufatnað eins og t.d. ermahlýfar og svuntur.

Hvaðan kemur innblásturinn? 

Ég skrifaði BA ritgerðina mína um sjálfbærni innan fataiðnaðarins og langaði að halda áfram með þær vangaveltur sem ég hafði um iðnaðinn og neyslu. Einnig sæki ég innblástur í æskuslóðirnar, vestfirði og háttsemi og ráðagerð foreldra minna. Þau eru svona ekta týpur af gamlaskólanum og svo ótrúlega gaman að fylgjast með þeim. Ég hef líka svo gaman að því að blanda saman andstæðum og að velta fyir mér mismunandi fólki sem ég hitti.

Nú hefur þú verið dugleg við að heimsækja og hjálpa til á tískuvikum erlendis, dæmis hjá Stine Goya. Hvaða verkefni færðu og hvað lærir þú á þeim? Telur þú það mikilvægan part í þínu lærdómsferli og afhverju? 

Ég var um tíma í starfsnámi hjá Stine Goya í Danmörku og strax á eftir hjá Filippa K í Svíþjóð. Það var virkilega skemmtilegur og lærdómsríkur tími. Hjá Stine Goya sá ég um að gera sjö svokallaðar showpiece flíkur ásamt því að aðstoða við allskonar fjölbreytt verkefni. Þar var ég með mína eigin vinnustofu og vann undir leiðsögn hönnuðana. Hjá Filippa K aðstoðaði ég í sníðagerðadeildinni sem sér um að gera snið og allar prufur af fatnaði sem eru síðan sendar í framleiðslu. Sú deild vinnur mjög náið með hönnunardeildum fyrirtækisins og lærði ég mikið af tæknilegum atriðum þar. Filippa K er þekkt fyrir klassík og gæði og leggur mikla áherslu á sjálfbærni. Þar kviknaði áhugi minn á sjálfbærni innan iðnaðarins.

Eftir að ég kom heim var ég dugleg að halda sambandi við þau hjá Stine Goya og hef síðan heimsótt þau reglulega og aðstoðað fyrir sýningar. Í fyrra fór ég t.d. út nokkrum dögum fyrir sýningu til að aðstoða við lokafrágang á fatnaði og vann svo baksviðs á sýningardag. Ég tel það mjög lærdómsríkt ferli þar sem það er að mörgu að huga fyrir svona sýningar og svo er bara svo mikið stuð í kringum allt ferlið.

Framtíðarsýn? 

Hvað varðar framtíðina þá er svo margt spennandi í boði og svo margt sem mig langar að gera. Til að byrja með stefni ég á starfsnám erlendis og seinna meir gæti ég hugsað mér að fara í framhaldsnám. En til að halda mér á jörðinni þá er næsta mál á dagskrá útskrift í júní og það mikilvægasta af öllu, samvera með fjölskyldunni. Kærastinn minn er sjómaður og er því mikið í burtu, en þegar hann er í fríi erum við dugleg að gera eitthvað skemmtilegt saman litla fjölskyldan. Við erum mikið á flakki á sumrin, erum með annan fótinn í Reykjavík og hinn í Bolungarvík, þar sem við erum að gera upp lítið hús, en það verkefni hefur fengið að bíða aðeins á meðan ég hef verið að klára námið.

Eitthvað að lokum?

Síðustu þrjú ár í Listaháskólanum hafa verið nokkuð strembin, virkilega lærdómsrík en umfram allt svo ótrúlega skemmtileg. Bekkjasystkini mín eru þau allra bestu og verður skrítið að hitta þau ekki daglega næstu árin. En mikil vinna liggur að baki útskriftarverkefnisins. Línan inniheldur hátt í 30 flíkur og fylgihluti og hefði þetta ekki verið hægt nema með hjálp yndislegu fjölskyldu minnar og vina. Þau eiga stóran þátt í þessu verkefni með mér.

Ég mæli með að fylgjast með þessari kláru konu á uppleið. Þið finnið hana HÉR á Instagram.

Áfram Ísland!

xx,-EG-.

DRESS: MÁNUDAGUR Á FÖSTUDEGI?

Skrifa Innlegg