Árið sem var að líða var viðburðaríkt, svo vægt sé til orða tekið, og það allra besta hingað til. Þetta var stórt ár hjá okkur Arnóri og okkar nánustu, fullt af uppákomum og stórum stundum. Allar þessar stundir eru festar á rafræna filmu og geymdar vel í tækjunum okkar, en það er svo auðvelt að gleyma sér og taka sér ekki tíma til að líta yfir farinn veg og rifja þessi moment upp. Hér er ég með fullkominn miðil til að rekja árið í máli og myndum – fyrir mig og mína og öll ykkar sem hafið áhuga á.
Nýtt heimili
Við fluttum til Malmö fyrir sléttu ári og við tók búseta á hóteli á meðan íbúðaleit stóð. Að lokum fundum við draumaíbúðina okkar í fallegu fjölskylduhverfi í göngufæri við miðbæinn. Á þessu eina ári erum við búin að koma okkur vel fyrir og eiga ógleymanlegan tíma hérna, sérstaklega á svölunum sem eru klárlega okkar uppáhalds staður á heimilinu eins og fylgjendur mínir hafa eflaust tekið eftir. Meira HÉR.
Útskrift
Ég útskrifaðist sem viðskiptafræðingur frá Háskólanum í Reykjavík í febrúar eftir 3 og hálfs árs nám. Um kvöldið hélt ég svo party og fagnaði með vinum og fjölskyldu. Það toppaði daginn að fá betri helminginn fljúgandi frá Florida þar sem hann var í æfingaferð og náði því að fagna áfanganum með mér og mínum nánustu. Meira HÉR.
HM í Rússlandi
Þessari minningu er erfitt að koma í orð. Tilfinningin þegar Arnór var valinn á HM var ólýsanleg, hvað þá að sjá og upplifa heimsmeistaramótið í heild sinni. Félagsskapurinn var af allra bestu gerð og dýrmæt vinkonusambönd mynduðust á meðan við eltum liðið til þriggja borga í Rússlandi. Endilega lesið HM færslurnar – nr. 1 HÉR og nr. 2 HÉR.
Á þessum tíma var ég að vísu nýbúin að komast að því að ég væri ólétt og á öðrum degi ferðarinnar hófst sturluð ógleði sem varði frá því ég vaknaði og þangað til ég lagðist á koddann á kvöldin. Þetta setti sitt strik í reikninginn enda erfitt að vera ekki í sínum þægindaramma og kunna ekkert á matinn í landinu. Þannig nú get ég játað að vínglösin sem sáust á myndum úr ferðinni eru fengin að láni eða einfaldlega full af trönuberjasafa og sódavatni :-)
9 óléttuprófum síðar
Sama dag og Arnór hélt til Rússlands með landsliðinu komumst við að því að ég væri ólétt. Næstu vikuna pissaði ég á 9 óléttupróf því mér fannst þetta eitthvað svo óraunverulegt og fannst jafnvel líklegt að öll prófin væru gölluð, að þau sýndu vitlausa niðurstöðu (lol). Ég ætla að skrifa sér færslu um meðgönguna frá byrjun til enda en hér eru nokkrar myndir.
Mamma sextug
Þann 7. október fagnaði mamma mín sextugsafmæli sínu. Veisluna hélt hún á Port 9, okkar uppáhalds vínbar, en ég fékk mjög mikið af spurningum út í staðinn þegar ég setti nokkrar myndir í story úr veislunni. Við fjölskyldan gáfum henni svo golfbíl í afmælisgjöf, þar sem hún og pabbi spila mikið golf og geta keyrt á honum úr bústaðnum á golfvöllinn í sumar.
Eruð þið annars að sjá hvað þessi sextuga kona er stórglæsileg? Ég á henni mikið að þakka og get ekki beðið eftir því að sjá hana rúlla upp ömmuhlutverkinu.
It’s a girl!
Í heilan mánuð héldum við kyninu á litlu dömunni leyndu. Eins og ég skrifaði í færslunni HÉR, sem er mesta stríðnisfærsla sem ég hef nokkurn tímann sett hérna inn (sorry!), langaði okkur að greina frá kyninu í návist okkar nánustu eftir að hafa tilkynnt nánast öllum um óléttuna í gegnum facetime. Tækifærið gafst loks í landsliðsfrítíma í október og ég er ótrúlega ánægð að hafa átt þetta moment með okkar fólki. En guð, ég held ég muni aldrei aftur nenna að halda svona leyndarmáli jafn lengi. Fleiri myndir HÉR.
Babyshower
Vinkonur mínar komu mér á óvart í desember með óvæntri babyshower veislu. Ég hélt ég væri á leiðinni í indverskan og kosykvöld með fáum vinkonum en á móti mér tóku mun fleiri, enginn indverskur en í staðinn dásamlegar veitingar og gjafir. Arnór hafði skipulagt þetta með þeim bakvið tjöldin og var meira að segja búinn að kaupa stóru gjafirnar frá þeim hérna í Malmö. Ég mun lifa svo lengi á þessari minningu, þetta var fyrsta óvænta veislan sem hefur verið haldin fyrir mig og ég skemmti mér svo vel!
Trúlofun
Arnóri tókst að toppa árið, sem ég hélt að yrði ekki toppað, með bónorði 22. desember í fullkomnu sólsetri. Eins og með margt sem gerðist á árinu 2018 er ég ennþá hálf orðlaus yfir þessu. Minning sem mun lifa að eilífu. Hann fullkomnar mig og sér til þess að ég sé hamingjusamasta kona í heimi á hverjum einasta degi. Það er enginn spenntari fyrir litlu dömunni en hann og ég veit að pabbahlutverkið verður sniðið honum á alla vegu. Svo er ég handviss um að stelpan okkar verður algjör pabbastelpa. Meira HÉR.
Florida
Árinu var slúttað í golf- og fjölskylduferð til Florida þar sem við fögnuðum jólum og áramótum. Þið sem fylgist með mér á samfélagsmiðlum hafið eflaust tekið eftir því hvað við Arnór erum með mikla golfdellu, þá sérstaklega hann, og því nutum við þessa frís í botn. Að vísu gat ég ekki spilað, líkaminn hefur ekki alveg þrek í slíkt þessa dagana, en í staðinn spiluðu hinir tvöfalt og ég keyrði golfbílinn í staðinn. Dýrmætt frí með fjölskyldu og vinum í sól og hita.
Vinir og fjölskylda..
2018 var síðan fullt af góðum stundum með vinum og fjölskyldu. Við fengum fjölmargar heimsóknir til Malmö og ég heimsótti Ísland þónokkrum sinnum. Þegar maður rennir yfir myndir frá árinu ýtir það enn frekar á mann að halda áfram að vera duglegur að taka myndir, tilefnin þurfa ekki að vera þau merkilegustu því það eru oft ljúfustu minningarnar, þegar ekkert sérstakt er á dagskrá annað en gæðastundir með góðu fólki. Hér er samansafn af alls kyns myndum með fólkinu sem ég á.
..
Megi 2019 færa ykkur hamingju og fullt af góðum minningum!
—
Andrea Röfn
Fylgið mér á instagram: @andrearofn
Skrifa Innlegg