Vitiði, mjög ólíkt mér, en ég tók furðulega lítið af myndum í þessari ferð. Ég eiginlega skammast mín svolítið fyrir það. Samt ekki, því ég var miklu meira í því að soga að mér augnablikum og menninguna í staðinn fyrir að vera með símann uppi endalaust og skildi hann margoft eftir á hótelunum eða gistingunum sem við vorum á. Þessi ferð var svaka næs og ég er alveg meiriháttar þakklátur að fá að eyða svona góðum tíma með besta vini mínum, við því miður hittumst ekki mikið þegar við búum svona langt í burtu frá hver öðrum.
Tökum ferðarbloggið með myndum, það er miklu skemmtilegra!
Mættir til Bangkok, við ákváðum að stoppa stutt og enda svo ferðina í Bangkok. Flugið var einstaklega langt en ágætir 11 klukkutímar og 50 mínútur.
Við náðum þó að heimsækja fræga Khao San Road, það er helst backpacking svæðið í Bangkok. Þar er meðal annars boðið uppá mikið úrval af pöddum sem hægt er að kaupa og borða. Ég borðaði sporðdreka, sem mig grunaði ALDREI að ég mundi nokkurntíman gera. Bragðið var núll gott en þó mikil upplifun. Shit maður. Mæli með að fara á Khao San Road ef þið farið einhverntíman til Tælands – kannski ekki með börn samt!
Eftir tvo sæta daga í Bangkok tókum við næturlest til Chiang Mai. Sú lestarferð tók 14 tíma en mér fannst hún sjúklega næs. Fannst ferðin engin kvöð þó að hún hafi verið löng. Ég elska lestir og ég gæti auðveldlega ferðast um allan heim í lest. Við fengum okkar eigin svona rúm, ef svo má kalla, með svona tjaldi fyrir. Það var sjúklega kósí, ég meira segja svaf ekki nema fjóra tíma í þessari ágætu lestarferð, en djöfull var hún næs. Ég hef ekki verið að lesa bækur mikið en þar las ég nýju Harry Potter og AAAANSKOTINN hvað hún er góð. Það er eins gott að þau gera bíómynd, seeeeriously!
Annars var ég spenntur að fara til Chiang Mai, hef alltaf haft áhuga á að fara þangað og efst á óskalistanum var að fara að heimsækja fílana. Við fundum mjög öruggan og fallegan sanctuary þar sem þau bjarga fílum og svo borgum við fólkið bara pening til að dekra við þau og gefa þeim fullt af mat og ást og knús og dekur. Það er góð ástæða fyrir því að þessi dýr eru kölluð ‘ Gentle giants ‘ en þessir fílar voru yndislegir og ég fann ekki fyrir tilfinningu um að þeim leið óþæginlega. Þeir nutu athyglinnar og matarins sem þau fengu, miðað við mína upplifun allavega, og vona það innilega. Það mundi brjóta á mér hjartað ef ég fengi að vita að þeim þætti þetta óþæginlegt eða að þetta mundi valda þeim einhversskonar kvíða eða stressi. Ég las reyndar mikið um þessi mál í Tælandi og er ég nokkuð sannfærður um að fílunum líði vel í svona rólegum túr og svo lengi sem ekki sé farið á bak og þeir séu að gera einhvers trix.
Mér fannst þetta geggjuð upplifun, og ég gerði mitt besta að reyna að láta þau finna að ég og við vorum þarna til að gera þeim gott. Ég upplifði smá svipað með þeim og hundum, alveg svona einstaklega gáfuð og einlæg dýr.
Þessi fallega fílamamma var ólétt og nokkuð langt komin. Hún var alveg ótrúlega róleg og móðurleg. Það sást rosalega vel á henni og það var hægt að finna litla fílabarnið á fullu í maganum á henni, það var líka magnað. Ég spurði hvort henni þætti það óþæginlegt, en einn af þeim sem vinnur þarna talaði um að hún væri meira stolt af því sem væri að gerast í maganum á henni, það var pínu krúttlegt.
Það sem var eiginlega magnaðasta við þessa ferð að hitta fílana var fólkið sem var með. Ég get eiginlega ekki lýst því hvað við lentum í stórkostlegum hóp af fólki. Við hoppuðum uppí bíl um morguninn og ég man ég sagði “Good morniing!” og eftir það, var bara spjallað og talað um allt milli himins og jarðar. Það tók 1 klukkutíma og 40 mín að komast á staðinn, en þetta hefði getað verið 20 mínútur. Þarna var yndislegt, stórkostlegt par frá Vancouver, systur frá Ítalíu, kennari sem tók sér ársfrí til að ferðast með sjálfri sér (Eat, Pray, Love much??) frá Boston, stelpa frá eyju á Frakklandi sem var að ferðast ein og og önnuð frá Tansmaníu sem var einnig að ferðast ein. Þetta fólk var – STÓRKOSTLEGT – hvert og eitt einasta.
Þessi var algjör kelirófa, mjög ung og krúttleg. Hún elskaði að láta dekra við sig, það var ofur krúttlegt.
Eftir drullu meðferðina sem þau fengu frá okkur var svo baðað sig. Æ þetta var svo gaman. Gæti ekki mælt meira með svona túr ef einhver ætlar til Tælands. Þá að velja hinn hárrétta. Stranglega bannað að fara á bak og horfa á trix :)
Ég hef borðað hádegismatinn minn á ljótari stöðum.
Það var svolítið magnað líka hvernig þessi matur var gerður, það var ekki beint eldhús, eða jú, en bara einfalt eldhús gert úr bambus og hrísgrjónin koma úr akri rétt hjá, æ þið vitið. Það var rosa gaman. Þetta var líka ljúfengt! Absolút!
Komnir í Grand Canyon í Chiang Mai, mjög skemmtileg upplifun. Ég er algjör krakki þegar kemur að vatni og stökkpöllum og allt þetta, svo ég skemmti mér konunglega. Þetta er í rauninni já, Canyon? Hvernig útskýrir maður það? Með fullt af vatni sem hægt var að hoppa í.
Daginn eftir að við vorum þarna dó maður þarna. Sem var pínu svona, jaaá, ókei. Frekar hellað. Það sem gerðist var að hann hoppaði ofan í vatnið, einhver kjáni án þess að horfa niður og kanna svæðið hoppar bara niður og lendi á hálsinum á greyjið manninum og hann deyr samstundis. Alveg ótrúlega sorglegt og vont að heyra.
Já, þessi týpa.
Þennan dag fórum við í lífrænan cooking class sem mér fannst ágætt. Ég stóð mig reyndar ekki eins vel og ég hefði haldið, svo ég fór í örlitla fýlu svona innst inni. Skemmtileg upplifun þó!
Ég elskaði gististaðinn okkar í Chiang Mai. Við gistum í einskonar tréhúsi hjá yndislegu fólki. Þau gerðu bókstaflega allt fyrir okkur og setti alveg stórt og fallegt strik í heildarferðina.
Þarna má sjá húsið að degi til, ég gæti auðveldlega búið þarna, auðveldlega!
Síðasti dagurinn á Chiang Mai og við nýttum hann í Sunday Night Market sem er gjörsamlega hjúts. Það ringdi allan þennan dag mjög mikið svo það var vatn uppá ökla útum allt. Þarna var allt til, allskonar matur, og þið vitið, allt. Þá meina ég allt. Það var allt til þarna. Þetta svæði var eflaust á stærð við allan miðbæinn, þetta tók virkilega engan enda.
NÆST: Koh Phangan og Koh Tao!
Instagram: helgiomarsson
Snapchat: helgiomars
Skrifa Innlegg