Þar sem ég er stödd í París af vegum Lindex vegna samstarfs þeirra við hátískuhönnuðinn Jean Paul Gaultier finnst mér við hæfi að segja ykkur örlítið betur frá honum.
Jean Paul Gaultier er franskur hátískuhönnuður sem unnið hefur í bransanum í yfir 30 ár. Hann er fæddur árið 1952 í úthverfi Parísar, og er því 62 ára í dag(!) Gaultier er löngu orðin goðsögn í heimi tísku og er nafn hans orðið heimsþekkt og gríðarstórt vörumerki. Hann er þekktur fyrir áhrifamikla og byltingarkennda hönnun og hans frægasta hönnun er án efa keilu brjóstahaldarinn sem Madonna klæddist árið 1990.
Það er mjög áhugavert að fara yfir feril hönnuðarins því hann hefur ekkert menntað sig á sviði tísku eða hönnunar. Hann byrjaði ungur að senda skissur og teikningar á ýmsa franska hönnuði og á 18 ára afmæli sínu fékk hann starf hjá hönnuðinum Pierre Cardin.
Árið 1976 byrjaði Gaultier með sitt eigið merki og fór sínar eigin leiðir. Hann fylgir ekki reglunum og elskar að sjokkera fólk sem var ekki algengt á þessum tíma. Hann hefur verið þekktur undir nafninu L’enfant terrible innan frönsku hátískunnar. Viðurnefnið vitnar í börn sem verða foreldrum sínum til skammar og segja hluti sem ekki þykja við hæfi. Hann hefur unnið sér inn viðurnefnið með því að skera sig úr í frönsku hátískunni og hefur farið leiðir sem ekki þykja við “hæfi” í þessum fína heimi. Hann hannaði t.d. pils á karlmenn árið 1985 og lét allskonar konur ganga tískupallana hjá sér, óléttar, eldri borgara og dverga sem dæmi.
Árið 1987 var hann kosinn hönnuður ársins í Frakklandi og var því orðinn viðurkennt nafn í frönsku hátískunni. Síðar víkkaði hann starfsvið sitt, lék í bíómyndum, hannaði húsgögn, gleraugnalínu ásamt ilmvatnslínu sem hann er frægur fyrir.
Hann var ráðinn til Hermes árið 1999 og starfaði þar sem listrænn stjórnandi til ársins 2011.
Jean Paul Gaultier starfar í dag við sitt eigið vörumerki og hannar öðurvísi en jaframt tímalausar flíkur.
Samstarf hönnuðarins við Lindex verður það fyrsta með þesskonar verslunarkeðju en áður hannaði hann kók flöskur fyrir Coke Light (sem varð til þess að ég byrjaði að drekka tískukók sem dæmi).
Það var gaman að kynnast karakternum sem hann hefur að geyma ásamt því að spyrja hann spjörunum úr um allt og ekkert. Ég hlakka til að deila áhugaverðum sögum frá honum með ykkur.
xx,-EG-.
Skrifa Innlegg