fbpx

FATAVENJUR ÍSLENDINGA

MAGAZINE

English version below

IMG_0859

Glamour tók saman áhugaverða könnun fyrir desemberútgáfu blaðsins. Þar skoðuðu þau fatavenjur Íslendinga með nokkrum leiðum. Bæði lögðu þau netkönnun fyrir lesendur í gegnum samskiptamiðla sem og tóku nokkra einstaklinga í frekari “yfirheyrslu”. Ég var ein af viðmælendum og ákvað að deila með ykkur mínum svörum. Spurningarnar voru mjög margar en nokkur svör rötuðu í prentun.

 

IMG_0860IMG_0858IMG_0870

Fyrir hvern klæðir þú þig?
Ég klæði mig fyrir mig sjálfa númer 1, 2 og 3. Ég vona að flestir geri slíkt hið sama.

Hefur þú sleppt því að fara út því þú fannst ekki rétta dressið?
Hef ekki sleppt því að fara út en ég hef farið pirruð út úr húsi þegar ég er ekki ánægð með lúkkið, þá kannski verið í tímaþröng eða eitthvað slíkt. Þegar ég hugsa tilbaka þá er reyndar svolítið langt síðan að ég lenti í slíku.

Lenda fötin þín stundum á gólfinu í staðinn fyrir í fataskápnum?
Nei, en ég tuða mjög gjarnan í öðrum fjölskyldumeðlimum að taka sín föt uppúr gólfinu.

Hefur þú keypt þér nýtt dress fyrir nýja vinnu?
Já. Ég vinn ólík verkefni með ólíkum fyrirtækjum og því hentar oft að kaupa sér ný föt fyrir viss samstörf eða viðburði.

Hversu oft hreinsar þú út úr fataskápnum?
Reglulega – ætli það sé ekki um 2-3 á ári.

Hver er, að þínu mati, flíkin sem allir verða að eiga í fataskápnum?
Gallabuxur í góðu sniði, tshirt og biker leðurjakki. Flíkur sem þú notar mikið og getur dressað upp og niður eftir tilefni.

Hvað áttu mest af í fataskápnum? (t.d svartar buxur, gallabuxur, hvítir stuttermabolir, skyrtur osfrv)
Erfið spurning. Ég er forfallin yfirhafnafíkill sem virðist kaupa þær í meira mæli en aðrar flíkur.

Hvað áttu ekki, sem þig langar að bæta í fataskápinn?
Mig langar mest í vandaða handtösku frá YSL – verðmiðinn er bara svo rosalega hár að ég forgangsraða alltaf öðrum kaupum framyfir töskukaupin.

Hvort finnst þér betra að versla á netinu eða í búðum? Er netverslun komin til að vera og helduru þú að þróunin verði á þá leið að netverslun taki yfir hinar hefðbundnu búðarferðir í framtíðinni? Þá erum við að tala um fataverslun.
Síðustu árin er ég eiginlega hætt að nenna að máta flíkur í verslunum, ég tek þær með mér heim og máta betur þar. Það er því svipað ferlið hjá mér í venjulegum verslunum og netverslunum – ég þarf að skila ef mér líkar ekki í bæði skiptin. Það er þægilegt erlendis þar sem ávallt er boðið uppá opin kaup og maður endar ekki með innlegsnótu. Munurinn er sá að í verslunum get ég komið við flíkurnar og upplifunin er oftast skemmtilegri.
Ég held að netverslanir séu ekki að fara að taka yfir þær venjulegu – þetta er þó orðið gríðarlega mikilvægur miðill fyrir verslanir og þær verslanir sem bjóða ekki uppá þjónustu á netinu dragast fljótt afturúr og eiga lítinn séns. Netið er besti búðargluggi verslunanna og er útstillingin þar mikilvæg.

Hvernig finnst þér best að versla föt? Ein/einn, með maka, með vinkonum /vinum?
Lang best að versla ein í ró og næði. “Metime” er það besta sem ég veit. Mér þykir þó gott að sýna og fá samþykki frá maka.

Hvenær ákveður þú dress dagsins? Um morguninn, kvöldið áður eða fyrr? Og afhverju?
Ég vel dress dagsins um morguninn þann daginn. Ef það er eitthvað mikilvægara framundan þá reyni ég að hugsa fram í tímann hverju á að klæðast.

Ertu meðvituð/meðvitaður um að klæðast ekki sama dressinu tvo daga í röð? Seturu þér einhverjar reglur varðandi það, hversu langt þarf að líða á milli þess að klæðast sama dressinu?
Ég pæli ekkert í því. Hugsa þó eflaust út í það að mæta ekki í sama dressinu á fínni viðburði oftar en einu sinni.

Áttu eitthvað í þínum fataskáp sem hefur aldrei verið notað? Og þá afhverju ertu að halda upp á það?
Í dag er ég orðin nokkuð góð í að kaupa mér ekki vörur nema að vita fyrir víst að þær verði notaðar. Áður fyrr var ég dugleg að kaupa allskonar óþarfa sem stóð lengi inní skáp með miðanum á. Í dag leyfi ég því ekki að gerast en ef það kæmi fyrir myndi ég vera fljót að gefa það frá mér.

Hversu oft hreinsaru úr fataskápnum? Ertu með eitthvað kerfi hvað fer inn og hvað fer út úr honum? Áttu góð ráð fyrir lesendur þegar kemur að skipulagi í fataskápinn?
Ég get nú ekki sagt að ég sé skipulags snillingur þegar kemur að fataskápunum og er ekki með nein undra ráð.
Vegna atvinnu mannsins míns þá höfum við flutt nokkuð reglulega síðustu ár. Ég hef notað þessi tækifæri til að gera róttækar hreinsanir úr skápunum.
Það virðist þó vera þannig að skápurinn er alltaf fullur, sama hversu oft maður hreinsar til. Það myndi auðvelda margt að vera með plássgóða skápa og föt í lágmarki þar sem þau öll væru sýnileg – það verður mitt markmið í næstu flutningum.

Hvort verslaru frekar ódýrt og mikið eða fátt og dýrt þegar kemur að fatnaði?
Ég spila með báðum liðum í þessum efnum. Ég tek þátt í ákveðnum trendum og versla þau gjarnan í stærri keðjunum. Þegar kemur að klassískum og tímalausum flíkum eða vörum þá leyfi ég mér að eyða fleiri krónum og kaupa vandaðari vörur.

Hvort verslaru frekar á Íslandi eða í útlöndum?
Mér þykir mjög gaman að versla við íslenskar verslanir. Ég elska það að klæðast íslenskri hönnun og vera spurð af útlendingum hvar sé hægt að nálgast vörurnar. Það er líka frábær upplifun að versla í stórborgum þar sem úrvalið er mikið – ég er svo heppin að búa í útjaðri Köln, en það er frábær borg til að kíkja í nokkrar búðir og drekka gott kaffi í leiðinni. Svona Ameríku verslunarferðir er algjör “no no” fyrir mér.

Ef tekið er mið af helstu verslunarstöðum hérlendis hvert ferðu helst til að kaupa föt á þig eða fjölskylduna – í Kringluna, Smáralind eða í miðbæinn og afhverju?
Ég fer á alla þessa upptöldu staði enda ólíkir með meiru – bæði búðarúrval og stemningin. Laugarvegurinn heillar mest því mér finnst maður alltaf hálf innilokaður í verslunarmiðstöðvum. Því miður býður Laugarvegurinn þó ekki uppá sama úrvalið og verðurfarið getur strítt manni þar.

Notaður fatnaður eða nýr?
Nýr. En notaður kemur til greina þegar ég kemst í second hand verslanirnar í París.

Hefuru fengið samviskubit yfir fatakaupum? Endilega deildu þeirri sögu.
Samviskubitið á það til að naga mann þegar maður eyðir einhverjum upphæðum í föt, það gengur þó fljótt yfir ef maður er ánægður með kaupin. Ég held að samviskubitið stjórnist af því þegar þú kaupir vöru sem þú þarft ekki eða átt ekki fyrir.
Í uppeldinu var mér kennt að þurfa að vinna fyrir þeim hlutum sem mér girnuðust. Ég hef því alltaf tileinkað mér að fjárfesta ekki í flík nema eiga fyrir henni.
Yfir heildina held ég að ég sé nokkuð heppin og á enga krassandi sögu þar sem ég hef séð mikið eftir kaupum. Maðurinn minn kallar stundum fram samviskubitið þegar hann kastar fram frægu spurningunni “Þarftu þetta eitthvað?” ..

Hver er fyrsta flíkin sem þú klæðir þig á morgnana? Nærbuxur, sokkar eða brjóstarhaldari (kvk)?
Nærföt.

Gengur þú alltaf með handtösku?
Já, alltaf.

Háir hælar eða flatbotna?
Ég er lágvaxin og notaði eiginlega bara hæla þegar ég var yngri. Í dag fer það eftir dressi hvort ég þurfi hælana – það þarf að vera sérstaklega gott tilefni til að ég nenni að klikka um gólfin. Mér finnst ég alveg eins mikil pæja hérna niðri í mínum lágbotnu skóm með minn hávaxna mann mér við hlið.

 

Áhugaverð samantekt sem ég mæli með að þið skoðið í heild sinni í blaðinu sjálfu.

//

Glamour Iceland, December Issue, gathered together clothing habits for people in Iceland.
I answered few questions that helped getting the final result. You can find my answer in the post but unfortunatly, just in icelandic. Copy/paste in google translate for more info.

xx,-EG-.

Elísabet Gunnars á Facebook – HÉR
&
Trendnet á Facebook – HÉR

DESEMBER Á INSTAGRAM

Skrifa Innlegg