fbpx

FALLEGT HAUST HJÁ FARMERS MARKET

ÍSLENSK HÖNNUN

Það má með sanni segja að haustið sé fallegt hjá Farmers Market þetta árið. Fegurðin skín sérstaklega vel í gegn í lifandi myndbandi sem gefið hefur verið út samhliða nýrri herferð frá merkinu. Íslensk tískumynd sem ég er svo heppin að fá að frumsýna hér á blogginu. Pressið á play hér fyrir neðan og leyfið tónum Hjaltalín að ná ykkur inn í íslenska ævintýralega umhverfið. Haustdagur eins og þeir gerast bestir.

Farmers_Market__K9A9850_01

 

En hver er innblásturinn við hönnunina á haust og vetrarlínu merkisins þetta árið? Bergþóra Guðnadóttir, yfirhönnuður Farmers Market gaf mér nokkrar línur.

Náttúran í öllu sínu veldi, sveitarómantík og staðsetning okkar hér á norðurhjara er sem fyrr innblásturinn að Farmers Market konseptinu. Nú fyrir haust/vetur 2014-15 höfum við breikkað línuna hressilega og erum að kynna til leiks skyrtur, skyrtukjóla og nýjar yfirhafnir ásamt meira af hlýlegu prjóni sem við erum kannski hvað þekktust fyrir.  Ég er líka í enn meira mæli en áður að hanna og láta sérframleiða fyrir okkur sjálf efnin í flíkurnar. Við látum t.d. vefa fyrir okkur skyrtuefni með sama mynstri og í sömu litum og þykkt ullarponsjó og er hver þráður er litaður eftir minni pallettu.  

Það er svo ekki síður mikilvægt að kynningarefnið okkar endurspegli þá veröld sem við reynum að skapa með Farmers Market. Ljósmyndirnar sem við erum að byrja að kynna af haustlínunni eru eftir sem áður teknar af Ara Magg ljósmyndara, en við höfum unnið með þeim snillingi í nokkur ár. Jafnframt varð gamall draumur að veruleika því við gerðum myndband með bróður mínum Óttari Guðnasyni kvikmyndatökumanni. Hann vinnur aðallega við gerð auglýsinga og bíómynda erlendis og þess vegna ekki hlaupið að því að góma hann í slík verkefni hér heima. Við vorum svo heppin að hann var einmitt á landinu þegar myndatökur fóru fram nú um daginn og hann gerði þetta fallega myndband fyrir okkur sem við erum að frumsýna með miklu stolti.

Það er ekki hægt að segja annað en að myndbandið hafi heppnast með eindæmum vel. Til hamingju með þetta Farmers Market! Myndband sem lætur mig fyllast þjóðarstolti yfir hæfileikum og fegurð landsins. En kreditlisti verkefnisins er eftirfarandi:

Myndband: Óttar Guðnason
Förðun: Fríða María Harðardóttir
Fyrirsætur:  Eydís Helena, Sara Elonora, Tatiana, Ava, Kári, Bjartur, Davíð, Birta og Anna Guðný.
Tónlist: Hjaltalín

Áfram Ísland!

xx,-EG-.

STÍLLINN Á INSTAGRAM: ELFA ARNAR

Skrifa Innlegg