fbpx

LÍFIÐ

ANDREA RÖFNPERSÓNULEGTSVÍÞJÓÐ

Góðan daginn! Línan mín í samstarfi við JoDis fór í sölu í Kaupfélaginu í gær við mjög góðar undirtektir. Það seldust margar týpur upp (!) og ljóst að ég þarf eitthvað að vinna í því að láta gera enn fleiri pör af einhverjum þeirra. Mig langaði bara til að koma hérna inn og þakka kærlega fyrir mig <3 Ég er með ógrynni ólesinna skilaboða sem ég mun svara hægt og rólega, en ég er búin að vinna svo mikið síðustu daga að ég þori ekki einu sinni inn í screen time í símanum til að sjá allar klukkustundirnar sem safnast hafa saman.

Annars er það helst í fréttum héðan frá Malmö að Aþena Röfn er byrjuð í leikskóla! Vá hvað þetta er kærkomið eftir langt fæðingarorlof þar sem síðasta hálfa ár reyndi verulega á vegna ferðatakmarkana, engra heimsókna og bara skrýtinna tíma yfir höfuð. Aþena elskar leikskólann sinn og náði að aðlagast mjög hratt. Við erum að tala um það að hún er farin að leggja sig á dýnu með hinum krökkunum og sofa lengst allra – eitthvað sem ég grínaðist oft með í orlofinu að yrði týpískt fyrir hana sem hefur alltaf viljað láta keyra sig um í vagninum til að sofna og aldrei á sínum 18 mánuðum sofið eitthvað sérstaklega lengi. En gott í hjartað fyrir foreldrana að vita og sjá hvað henni líkar leikskólinn vel. Hins vegar varð hún veik strax í viku tvö og við vorum heima í 6 daga – aldeilis sem manni var kippt niður á jörðina á núll einni þegar maður ætlaði loksins að demba sér í vinnugírinn! Við gleymdum alveg að taka inn í dæmið að þetta myndi gerast, og væri meira að segja mjög líklegt að myndi gerast snemma.

Ég ætla ekkert að skafa af því að ég er útkeyrð eftir vinnu síðustu daga með litla veika konu á kantinum. Arnór er nýfarinn í landsliðsferð og planið mitt var að vera hérna heima í Malmö á meðan, leyfa Aþenu að fara í leikskólann og vinna sjálf. Núna langar mig hins vegar aðeins heim til Íslands og ákvað að bóka flug fyrir okkur mæðgur á föstudaginn. Þó það þýði sóttkví, ég held ég hafi bara gott af því að hægja aðeins á mér og endurhlaða batteríin, og hún að fá ömmu – og afadekur.

Eigið yndislegan dag

Andrea Röfn

Fylgið mér á instagram @andrearofn

JODIS BY ANDREA RÖFN - FER Í SÖLU Í DAG

Skrifa Innlegg