fbpx

STÍLLINN Á INSTAGRAM: SNJÓLAUG ÁRNADÓTTIR

STÍLLINN Á INSTAGRAM

Lögfræðineminn Snjólaug Árnadóttir er 26 ára Reykvíkingur búsett í Gautaborg. Smekk kona á Instagram eins og annarsstaðar.

 

Hver er Snjólaug Árnadóttir?

Ég er jákvæð og feimin ævintýramanneskja með fullkomnunaráráttu. Fædd og uppalin í Reykjavík en ég flutti nýlega til Gautaborgar til að klára meistaranám í lögfræði sem skiptinemi í fallegu Svíþjóð. Auk lögfræðinámsins hef ég unnið sem lögfræðingur hjá Vegagerðinni og numið klassískan söng við Söngskólann í Reykjavík.

Hefur þú alltaf spáð í tísku?

Mig minnir að ég hafi fyrst haft sterkar skoðanir á því hverju ég klæddist um 10 ára aldurinn. Mamma minntist reyndar á það þegar við vorum saman í verslunarleiðangri fyrir stuttu að sér þætti sérstaklega vænt um að geta loksins farið með mér í búðir því ég hefði svo lengi verið áhugalaus um tísku. Hún virðist ekki skilja hvað ég var útpæld og ótrúlega kúl í Fila peysunum mínum, Fila skónum og risastóru Spútnik buxunum; svona er smekkurinn misjafn en núna erum við kannski loksins komnar á sömu blaðsíðu ;)


Er hver dagur í lífi þínu útpældur þegar að kemur að klæðaburði?

Nei alls ekki. Ég sef yfirleitt alltaf yfir mig og hef því sjaldnast tíma til að velta klæðaburðinum fyrir mér áður en ég legg af stað út í daginn. Ég hef samt mjög gaman af því að máta allt í fataskápnum, gefa mér tíma til að setja á mig naglalakk, finna fullkomna fylgihluti og svo framvegis.

Hvar kaupir þú fötin þín?

Ég versla mjög mikið á netinu og ég fylgist yfirleitt með öllu nýju sem kemur inn á vefsíðu AllSaints, ASOS, Topshop, Solestruck, Monki, Cos, & Other Stories, Weekday, Acne og Pixiemarket svo dæmi séu nefnd. Mig langar í nánast allt frá Acne og AllSaints þessa stundina en fjárhagurinn kemur í veg fyrir að slíkar óskir rætist í nánustu framtíð.
Uppáhalds íslenska búðin mín er tvímælalaust Aftur. Ég á margar dásamlegar flíkur og skartgripi þaðan og þar fékk ég líka ilmvatn sem ég get varla lifað án!

Hver er þín tískufyrirmynd?

Ég get eiginlega ekki sagt að ég eigi neina tískufyrirmynd. Mér finnst skipta töluverðu máli að fylgja eigin skoðunum og þess vegna reyni ég að láta tískubylgjur og annað fólk ekki hafa of mikil áhrif á mig. Ég ólst samt upp við að fylgjast með systur minni, Völu Gestsdóttur, og vinkonum hennar dressa sig upp fyrir næturlífið og mér fannst þær alltaf vera flottustu stelpur í heimi. Ein þeirra er Hrafnhildur Hólmgeirsdóttir, listrænn stjórnandi Jör, og hún er einn allra mesti töffari sem ég þekki :)

Framtíðarplön?

Ég bý núna með kærastanum mínum á lítilli eyju rétt fyrir utan Gautaborg og við kunnum ótrúlega vel við okkur hérna. Ég útskrifast væntanlega í byrjun febrúar en eftir það vonast ég til að fá starf í Gautaborg eða í einhverri annarri áhugaverðri borg. Mig langar endilega að læra sem flest tungumál og að prófa að búa út um allan heim til þess að komast að því hvert draumalandið er! Í framtíðinni vonast ég til að fá starf hjá alþjóðlegri stofnun, helst á sviði umhverfisréttar eða mannréttinda, t.d. hjá Sameinuðu þjóðunum, Amnesty International eða Mannréttindadómstól Evrópu.

Einhver tips fyrir aðrar fashionistur?

Mér finnst erfitt að gefa ráðleggingar í þessum efnum enda er ég enginn sérfræðingur! Less is more er samt gullin regla í mínum huga því mér finnst fallegast að hafa einfaldleikann í fyrirrúmi, að leyfa hverri flík að njóta sín og vera náttúrulegur. Afslöppuð look eru mér sem sagt að skapi enda finnst mér svolítið tilgerðarlegt að vera of stíliseraður eða mikið málaður. Hafandi sagt þetta þá vil ég samt taka fram að það getur verið alveg jafn tímafrekt að hafa sig til þó að lokaniðurstaðan virðist einföld ;)

TAKK @snjolaugarnardottir

xx,-EG-.

 

LÍFIÐ: PARÍS YFIR HELGI

Skrifa Innlegg