fbpx

STÍLLINN Á INSTAGRAM: HELGAJOHANNS

Norðlenska fasjónistan Helga Jóhannsdóttir á Stílinn á Instagram að þessu sinni. Helga virkar á mig sem dugnaðarforkur í sínum verkefnum en hún heldur úti virkum Instagram reikningi þar sem hún skvísar yfir sig ;) Helga er ein af þeim sem notar Instagram reikning sinn sem eins konar blogg og ég kann að meta það – persónulegt í bland við innblástur og mood.

Ég heyrði betur í þessari áhugaverðu sveitastelpu og svör hennar finnið þið fyrir neðan myndirnar.

@helgajohanns :

Hver er Helga Jóhannsdóttir?
Ég er 22 ára og uppalin á Akureyri, flutti svo til Reykjavíkur og bjó þar í rúmlega tvö ár, en eins og er bý ég í Ólafsvík á Snæfellsnesi. Ég er nýflutt en ég elti kærastann minn hingað sem er sjómaður. Ég hef mikinn áhuga á tísku og hönnun en einnig brjálaðan áhuga á matargerð.

Afhverju Instagram?
Instagram er frábær miðill til að halda utan um skemmtilegar minningar – mitt instagram er eins og dagbók fyrir mér, mér finnst ég halda best utan um myndirnar mínar á þessum miðli. Svo finnst mér líka gaman að fylgjast með því hvað aðrir eru að gera.

Venjulegur dagur í lífi þínu?  
Nú er ég nýflutt til Ólafsvíkur frá Reykjavík, og hafa dagarnir breyst ansi mikið eftir það. Venjulegur dagur væri að gera mér morgunmat, fara svo í vinnuna frá 11 til 15, svo kem ég yfirleitt heim og kíki aðeins í tölvuna, fer í ræktina eða út að hlaupa og enda svo á að elda góðan mat fyrir mig og kærastann minn.

Er hver dagur í lífi þínu útpældur þegar að kemur að klæðaburði?
Nei myndi ekki segja það, ég fer frekar í eitthvað sem mér dettur í hug hverju sinni, en fyrir sérstaka viðburði finnst mér mjög gaman að ákveða í hvað ég ætla fyrirfram.

Skemmtilegast að kaupa?  
Sneakers og jakka, ég fell alltaf fyrir því.

Uppáhalds flík í fataskápnum?
Won Hundred samfestingurinn minn myndi ég segja að væri uppáhalds, sem og Nike Air Max 97 gold sneakerarnir mínir – mig hafði lengi langað í þá

Áttu þér styleicon – tískufyrirmynd?
Ekki beint icon nei en finnst mjög gaman að fá inspo á instagram, td. hjá Thoru Valdimars, Melissu Bech og Idu Broen.

Framtíðarplön?
Ég er að vinna í því að opna veitingastað á Snæfellsnesinu í sumar. Ég, mágur minn og svilkona ætlum að opna veitingastað í júní/júlí, dagsetningin er ekki alveg komin á hreint – en við erum að gera upp gamalt hús fyrir staðinn sem er mjög skemmtilegt verkefni. Vonandi gengur það vel – annars langar mig líka að klára að mennta mig og ferðast eins mikið og ég get.

Svo ein að lokum … afþví að íslenska tískuhátíðin, RFF er handan við hornið –

Hvað er íslensk tíska fyrir þér?

Fyrir mér er íslensk tíska hönnun (sem er ekki fjöldaframleidd), vönduð og eitthvað sem að ég get hugsað mér að nota mikið og lengi. Það er ekki langt síðan að ég fór alvarlega að pæla í hvað íslenskir hönnuðir eru að gera en finnst alltaf jafn frábært þegar einhverjum íslenskum hönnuði gengur vel. Nú heillast ég mikið af Hildi Yeoman, en ég er líka mjög spennt að sjá hvað hönnuðirnir sem sýna á RFF í ár hafa upp á að bjóða. Sem dæmi er ég mjög spennt að sjá línuna sem Cintamani mun sýna en Heiða sem var með Nikita á sínum tíma hannaði hana ásamt teyminu sínu. Mér finnst líka mjög flott hvað íslenskir hönnuðir gera mikið sjálfir, sem dæmi sauma strákarnir hjá Inklaw öll fötin sem þeir hanna sjálfir. Það finnst mér aðdáunarvert.

Ég þakka Helgu fyrir gott spjall. Ung fyrirmyndar stúlka með sterkan stíl. Ég gæti vel hugsað mér að taka roadtrip og koma í kvöldverð á Snæfellsnesinu á nýjum spennandi veitingastað í sumar.

Takk @helgajohanns!

xx,-EG-.

ÁBERANDI EYRNALOKKAR

Skrifa Innlegg

Skilaboð 1

  1. Sólveig

    21. March 2017

    Hún er svo mikill snilli þessi dama!! =)