fbpx

NEW YORK MEÐ PLAY – STÓRBORGARLÍF, SVEITASÆLA OG SKEMMTIGARÐAR

FERÐALÖGLÍFIÐSAMSTARF

Við fjölskyldan héldum í spennandi sumarfrí og í samstarfi við Play Air varð New York fyrir valinu. Við áttum yndislega viku þar sem við fengum sitt lítið af hverju – stórborgarlífið í New York, sveitasæluna í Hudson Valley og all-in Legoland heimsókn fyrir smáfólkið.

Play Air lendir á minni flugvelli (Stewart) sem liggur um 90 mínútum fyrir utan stórborgina. Flugvöllurinn er ótrúlega lítill og þægilegur og okkur fannst nú bara smá eins og við værum að lenda á Akureyri eða eitthvað slíkt. Við komuna á flugvöllinn þá bíður rúta eftir farþegum og hún keyrir beina leið niður á Times Square. Maður er svo fljótur í gegnum þennan krúttlega flugvöll og beint í rútuna, að heildartíminn er alls ekki langur inní í miðja New York.

Við hins vegar ákváðum að byrja í sveitasælunni í grennd við flugvöllinn, Hudson Valley. Við nýttum bara Uber í okkar ferðir þar, en eftirá hefði líklega verið betra að leigja bílaleigubíl fyrir þessa daga til að vera frjálsari í okkar ferðum. Það á að vera lítið mál að leigja bíl á flugvellinum.

OKKAR FERÐ

Ferðalagið okkar var ein vika sem við skiptum þannig að við vorum 3 nætur í Hudson Valley, allar á Legoland hótelinu, og 4 nætur á Manhattan þar sem við tókum 2 nætur á sitt hvoru hótelinu.

HUDSON VALLEY – 3 NÆTUR

LEGOLAND

Við byrjuðum á all-in Legoland ævintýri, krakkarnir elskuðu það og sérstaklega sá yngri (6 ára), hann var í himnaríki. Við semsagt gistum á Legoland hótelinu og eyddum síðan einum degi í Legoland garðinum. Við höfum upplifað Legoland áður þar sem við bjuggum nálægt Billund í Danmörku og helsti kosturinn við garðinn er að þegar maður er kominn inn þá þarf ekkert að greiða aukalega í nein tæki.

Í hreinskilni sagt þá var Legoland hótelið alveg full mikið af hinu góða. Við gistum í Kingdom herbergi sem var alveg upplifun útaf fyrir sig og rómantíkin var ekki í hámarki :) Þetta var yndisleg upplifun en ég gæti ekki verið margar nætur í svona fjöri, 1-3 nætur er passlegt að mínu mati. Það er gott að geta þess að það var einnig sundlaug fyrir utan Legoland hótelið.

WOODBURY COMMON

Daginn eftir Legoland byrjuðum við í rólegheitum og héldum síðan um hádegisbil í alvöru ameríska verslunarferð í outleti sem ég hef lengi vitað af fyrir utan New York. Woodbury Common Premium outlets er staðsett mjög nálægt PLAY flugvellinum og ég veit að margir Íslendingar eiga eftir að fagna þeim fréttum. Þarna er ótrúlegt úrval af merkjavöru á niðurlækkuðu verði. Við erum að tala um merki á borð við  Prada, Gucci, Acne, Dior, Burberry, Givenchy, Celiné, Fendi … og ég gæti haldið endalaust áfram … Nike, Ralph Lauren, Adidas, CK, Crocs, Levis og bara nefnið það. Það voru alltaf góðir afslættir og síðan smá tips að á mörgum stöðum (flestum sem við versluðum við) var auka 15% ef maður skráir inn netfangið sitt, við vorum dugleg í því og gerðum oft bara viljandi kannski einn vitlausan bókstaf til að lenda ekki á öllum póstlistunum. Ekki segja neinum frá því ;)

CITY WINERY

Ótrúlega heillandi staður, gömul efnaverksmiðja sem var búið að breyta í einhvers konar vínbúgarð og framleiðslu. Við fengum kynningartúr um svæðið sem endaði síðan á góðum mat og vínsmökkun við live undirspil frá lókal tónlistarmönnum. Ég var alveg heilluð og fannst ég vera mætt í væmna en dásamlega bíómynd, væri til í að gista þarna einhvern tíman síðar, en planið er að opna þarna heillandi boutique hótel. Yfir hásumarið eru síðan reglulegir útitónleikar á svæðinu.

 

ANNAÐ SEM VIÐ VORUM SPENNT FYRIR

Mohonk Moutain House

Við vorum mjög spennt fyrir því og planið var að gista þar allavega eina nótt. Því miður var hótelið frátekið fyrir einhvern viðburð og því varð ekki úr því. Þetta er einhver drauma sveitasæla og bæði hægt að eyða þarna nótt eða bara taka daginn þarna og nýta sér eitthvað af því sem þeir bjóða uppá – bátsferðir, spa, golf, tennis eða matur. Algjörlega uppskrift fyrir okkur.

The Kartrite – resort & indoor water park

Stór innanhús vatnsrennibrautagarður og mögleikinn á að gista á hóteli á sama stað. Við völdum Legoland í þetta skiptið í stað þess að fara í þennan garð, okkur þótti full mikið að gera bæði.

Splash Down Beach

Þetta tips fengum við frá bílstjóranum (heimamanni) sem keyrði okkur inní New York frá Legolandi. Honum fannst þessi garður alveg frábær, ég hef þó ekki heimsótt hann og get engu lofað. Mér finnst slagorðið samt nokkuð gott – Americas Biggest Little Water Park.

 

NEW YORK CITY – 4 NÆTUR

New York er einhvern veginn ótrúlega heillandi en á sama tíma mjög yfirþyrmandi. Við fengum að heyra frá einhverjum að það hentaði ekki endilega að vera með börn þar, en við ákváðum bara að haga ferðinni þannig að það myndi henta og áhersla á að allir myndu njóta á okkar tempói. Það tókst með eindæmum vel. Við gistum í tveimur hverfum, fyrstu tvær næturnar í East Village sem er hverfi sem ég þekki vel og svo seinni tvær í Chelsea, bæði á Manhattan. Fyrsta daginn var um 30 gráðu heitt og við ákváðum að eyða honum, sjálfum Þjóðhátíðardegi Íslendinga, í Central Park. Við fundum þar ótrúlega flottan vatnsróló þar sem börnin nutu sín í botn. Við nýttum það að vera komin svona miðsvæðis og sýndum krökkunum (og Gunna) Times Square. Það er gaman að upplifa þá stemningu, en alls ekki svæði sem ég kýs að eyða mínum tíma á.

Dag 2 byrjuðum við rólega með croissant og kaffi á hótelinu. Uppúr hádegi fórum við á flakk og dagurinn var bland af kósýheitum, kaffi, mat og búðarrölti. Alba, unglingurinn okkar, fékk að fara í Flight Club sem er einhvers konar sneakers himnaríki. Við röltum síðan á East Side, Soho og í kringum Elisabeth’s street og ég fékk að líta inní mína uppáhalds verslun, The Frankie Shop.

Dag 3 byrjuðum við á sama stað, með kaffi og croissant, er til betra morgunkombó? Við ákváðum síðan að setja töskurnar í geymslu og drífa okkur í siglingu. Við héldum niður á höfn án þess að vera með neitt bókað og hoppuðum uppí skip sem var alveg að leggja af stað – perfect timing. Það kostað 50$ fyrir okkur 4 en það sem við vorum búin að googla kostaði alltaf vel yfir 100$. Ég mæli mjög með svona ferð, við sigldum undir frægu brýrnar, frá Manhattan og maður gat því séð alla borgina í fjarlægð og síðan að frelsisstyttunni. Klukkutíma rúntur í sól og sælu. Við Íslendingarnir tróðum okkur auðvitað á fremsta bekk án þess að hika :)

 

Í framhaldinu heimsóttum við byrjunina á Brooklyn Bridge, röltum í gegnum China Town og Little Italy. Það var mikil upplifun og mikið líf og fjör á þessum sunnudegi. Það er svo gaman hvað er mismunandi stemning eftir hverfum í NY. Við enduðum síðan daginn á að tékka okkur inná nýtt hótel í Chelsea hverfinu, hótel sem við vorum búin að reyna að bóka en var alltaf uppselt.

Dagur 4 og dagur 5 voru mjög slakir og var það fyrirfram ákveðið. Við völdum því fínt hótel með sundlaug fyrir síðustu tvo dagana og var pælingin að njóta bara þar. Það var því smá skellur að komast að því að börn máttu ekki vera við sundlaugina eftir hádegi. Við gerðum þó gott úr því og vorum þar fyrir hádegi og fundum síðan góðan garð með vatni eftir hádegi, við foreldrarnir fengum síðan aðeins að slaka á við laugina á meðan börnin tóku því rólega uppá herbergi seinni partinn.

Ég hafði aldrei áður verið í Chelsea hverfinu og það heillaði mig, algjörlega eitt af mínum uppáhalds. Það var eitthvað svo góð stemning þar, einhvern veginn hreinna og “öruggari” tilfinning. Ég veit að þetta er líka dýrasta og snobbaðasta hverfið en það er greinilega eitthvað íslenskt í því.

Síðasti dagurinn var svipaður, ferðadagurinn heim. Rólegheit sem enduðu síðan með Uber uppá Times Square þar sem Play rútan beið okkar og keyrir beina leið (án stoppa) uppá Stewart flugvöllinn aftur. Þar var engin röð í check-in og persónuleg þjónusta eins og áður.

Hliðarsaga með flugvöllinn – þegar við mættum þá var það hún Erin, yfirkona á flugvellinum sem tók hlýlega á móti okkur og hjálpaði okkur með skráningu inní landið, bara algjör tilviljun. Hún talaði fallega við börnin og hjálpaði okkur síðan aftur þegar við vorum að ákveða hvernig við færum frá flugvellinum. Hún endaði á að segja við Ölbu – “see you in a week and I want to hear all about your trip”. Hún var síðan að sjálfsögðu á staðnum þegar við mættum útá völl og sú síðasta sem við spjölluðum við áður en við fórum inní vél. Takk fyrir góðar móttökur Erin!

Takk fyrir farið PLAY

Í heildina, nokkuð fullkomin vel nýtt vika uppfull af dýrmætri samveru með uppáhalds fólkinu mínu.

Mæli svo sannarlega með New York fyrir alla – IG story úr ferð okkar finnið þið HÉR

xx,-EG-.

@elgunnars á Instagram

HÆ&HÓ FRÁ NEW YORK CITY

Skrifa Innlegg