Stúlkurnar sem standa á bak við tímaritið: BLÆTI !
*Lesið viðtal við Ernu Bergmann neðst í pósti.
Ég er búin að vera spennt að skrifa um þetta frá því að ég byrjaði að fylgja Blæti-stúlkum á Instagram fyrir nokkrum mánuðum síðan. Þar hafa þær verið virkar að deila myndum af vinnu sinni við nýtt íslenskt tímarit sem kemur út á prenti í dag – BLÆTI !! Instagram aðgangurinn er dásamlegur og þar má sjá að vel er vandað til verka í hverri töku fyrir sig. En hann gæti líka selt ykkur hugmyndina að þetta sé mögulega jólagjöfin í ár fyrir tísku, listar og eða menningar unendur? Sjáið hér að neðan –
Stílistinn Erna Bergmann er ein af stofnendum Blætis. Ég fékk hana til að svara nokkrum spurningum sem gefa okkur betri sýn á hverju búast má við.
Hvað er BLÆTI?
Hvernig og hvenær varð hugmyndin að tímaritinu til?
BLÆTI er nýtt íslenskt tískutímarit stofnað af Sögu Sigurðardóttir ljósmyndara og Ernu Bergmann hönnuði og stílista.
Við Saga stofnuðum BLÆTI því okkur fannst vanta vettvang fyrir ljósmyndara og stílista til þess að fá að skapa og vinna með hjartanu. BLÆTI er ljóðrænt tískutímarit þar sem við brjótum upp staðalímyndir og færum raunverulegan og fallegan boðskap, til dæmis með því að nota óhefðbundin módel í myndatökur og auglýsingar. Tímaritið leggjur mikið upp úr fallegum myndaþáttum og á að ljósmyndirnar fái að njóta sín í blaðinu. Við erum einnig með magnaða rithöfunda og fólk með okkur, þannig blaðið verður mjög innihaldsríkt og áhugavert að lesa því innan í BLÆTI er 100 bls. lesbók með áhugaverðum greinum, ljóðum, smásögum og hugleiðingum. Fyrst stefndum við að því gera lítið „zine“ tímarit, en svo vatt verkefnið upp á sig og fór algjörlega úr böndunum. List sprettur af list og gátum við hreinlega ekki hætt að vinna að blaðinu og fullkomna gripinn. Þetta ferli er búið að vera einstaklega gefandi og skemmtilegt og kveikja neista innra með okkur. Í dag gefum við út 400 bls. harðspjalda bók þar sem að við erum búnar að huga að hverju smáatriði og gera hlutina nákvæmlega eftir okkar uppskrift sem er virkilega frelsandi og góð tilfining.
BLÆTI er tímarit um konur. Um karlmenn. Um tísku. Um hið ófullkomna. Um líkamann. Um vonir. Um væntingar. Um gleði. Um sorg. Um söknuð. Um ást. Um minningar. Um þrá. Um miklu meira. Um fagurfræði; um fegurð ljósmyndarinnar, fegurð augnabliksins, fegurð orðsins & fegurð margbreytileikans.
BLÆTI fangar tíðarandann. Þar mætast í einni hringiðu tískustraumar, ljósmyndin og orðið. Reykjavík eins og hún birtist einmitt núna. Í tímaritinu mynda greinar, ljóð og hugleiðingar heild þar sem orðið og hið sjónræna fléttast saman. Við skoðum fegurðina frá mismunandi sjónarhornum og brjótum upp staðalímynd hennar. BLÆTI fagnar ófullkomleikanum. Allt er fullkomlega ófullkomið. Það eru engar reglur.
Hverjar standa á bak við blaðið?
Fjórar konar standa að baki tímaritsins: Saga Sigurðardóttir, Erna Bergmann, Sigrún Edda Eðvarðsdóttir og Helga Dögg Ólafsdóttir grafískur hönnuður.
Hversu oft mun blaðið koma út?
BLÆTI kemur út í dag, 14. desember og er fyrirhuguð útgáfa árleg. En einnig mun BLÆTI gefa út minni útgáfur yfir árið ásamt því að sinna öðrum verkefnum sem koma í ljós í byrjun árs 2017.
Hvar kaupum við Blæti? Jólagjöfin í ár ?
Tímaritið verður selt í velvöldum verslunum og Eymundsson frá 15. desember og kostar 7.900 krónur. En einnig er möguleiki að versla BLÆTI á netinu á www.blaeti.com og er tímaritið fullkomið í jólapakkann.
_____
Takk fyrir þetta og skál fyrir ykkur !! Ég mæli að sjálfsögðu með útgáfuhófi blaðsins HÉR í kvöld!
xx,-EG-.
Elísabet Gunnars á Facebook – HÉR
&
Trendnet á Facebook – HÉR
Skrifa Innlegg