fbpx

ÁN FILTERS

LÍFIÐ

Björgvin Páll Gústavsson, vinur minn, er að gefa út bók í dag og það fékk mig til að hugsa. Þið þekkið eflaust flest Bjögga, landsliðsmarkmann í handbolta til margra ára. Hann er einmitt einn af silfurstrákunum okkar frægu. Landsmenn þekkja karakterinn sem litríkan, jákvæðan og brosmildan einstakling sem talar alltof hratt í viðtölum ;) haha.

Bókin sem hann er að gefa út heitir Án filters og þar lýsir hann á hreinskilinn og persónulegan hátt uppvexti sínum við erfiðar aðstæður, haldreipinu sem hann fann í handboltanum, áratuga feluleiknum sem á endanum varð til þess að hann hrundi líkamlega og andlega og bataferlinu sem enn stendur yfir.

Mér finnst svo frábært og óeigingjarnt af Bjögga að opna sig svona fyrir alþjóð því ég veit að þessi saga getur hreyft við ungu fólki í sömu sporum. Mér finnst nafnið á bókinni frábært en áhrifafólk í samfélaginu hefur stutt hann síðustu daga og sjálf Katrín Jakobsdóttir tjáði sig meira að segja um mikilvægi bókarinnar í gær – elska þetta litla vinasamfélag þar sem boðleiðirnar eru svo stuttar og þægilegar. Þetta er einstakt á okkar landi og það er svo heillandi.

#ÁNFILTERS

Ég fór að hugsa sjálf í þessu samhengi hvernig ég gæti lagt mitt af mörkum til umræðunnar þar sem þessi filter tengist mínu lífi auðvitað töluvert líka – þó á annan hátt en hjá Björgvini –

Eins og þið vitið þá er ég bloggari á Trendnet og nokkuð opinber einstaklingur á samskiptamiðlum, þar sem ég deili með ykkur mikið af mínu lífi og hleypi fylgjendum nálægt mér. Ég heyri auðvitað og sé þessa neikvæðu umræðu sem á sér stað um áhrifavalda, staðalímyndir, útlitsdýrkun og bara almennt um áhrif samfélagsmiðla. Ég veit það sjálf að ég mála sjálf kannski heiminn í fagri mynd og getur það eflaust stuðað marga. Ég legg þó mikið uppúr því að sýna heilbrigðan lífstíl og vera fyrirmynd í einu og öllu. Mitt svar við þessari gagnrýni er yfirleitt sú áminning að fylgjendur geri sér grein fyrir því að ég sé aðeins að sýna brotabrot af mínu lífi. Ég sinni líka börnunum mínum á úlfatímanum og hangi í þvottahúsinu með fjallið fyrir framan mig, með hárið í snúð og bauga niður á hné á venjulegum mánudegi og ég næ einhvern veginn aldrei stjórn á þessu blessaða herbergi. Ég síðan vel að sína ykkur ekki þessar stundir. Það er þó frábær þróun að hvað margir áhrifavaldar eru duglegir að sýna þær hliðar í lífinu líka og ég fagna því.

Ef ég tengi síðan #ánfilters umræðuna inní mikilvæga kafla í okkar lífi þá passar það svo vel við bókina hans Bjögga. Ég tek handboltalífið okkar Gunna sem gott dæmi – líf sem hefur gefið okkur svo mikið en samt verið svo erfitt á köflum. Auðvitað lítur allt ljómandi vel út þegar ég er hoppandi úr hamingju yfir góðu gengi eða sýni ykkur mismunandi staði og heillandi líf og menningu sem við höfum fengið að upplifa. Þessu fylgja þó alltaf skuggahliðar – ég er mjög meðvirk í handboltalífinu og slæmt gengi eða meiðsli geta haft þung áhrif í fjölskyldulífið. Síðan fylgja þessu stórar ákvarðanir og flutningar milli landa og tungumála með börnin á misviðkvæmum aldri. Ég hef alveg grátið í koddann og verið með hnút fastan í maganum löngum stundum yfir þessu og þetta hefur svo sannarlega ekki verið alltaf auðvelt. Líf sem aðrir sjá kannski sem stanslaust stuð.

Oftast er þetta þó gaman og ég er þakklát fyrir hversu vel börnin mín hafa aðlagast nýjum aðstæðum og held að það sé blanda af karakter barnanna og viðhorfi foreldranna – við einhvern veginn miklum ekkert fyrir okkur. Þessi vandamál sem ég lýsi hér eru auðvitað ekki á þessari stærðargráðu sem Bjöggi lýsir en mér finnst frábært hjá honum að opna á að fjarlægja aðeins filterinn því fólk hefur gott að því að lesa um aðra í svipuðum aðstæðum sem hægt er að tengja við.

Þetta er góð áminnings og ég þakka Bjögga fyrir hana!

Á þessum degi leið mér til dæmis mjög illa … þó að ég hafi ekki opnað mig um það.

en svo eru móment eins og þessi – sem ég er svo þakklát fyrir:

Til hamingju með nýju bókina, við erum mjög stolt af þér.

Björgvini og útkomu bókarinnar verður fagnað á sportbarnum Gumma Ben, í dag klukkan 17 þar sem boðið verður upp á léttar veitingar auk þess sem bókin verður á sérstöku útgáfudagstilboði. Húsið er opið öllum. Meira: HÉR

Skál fyrir þér elsku Bjöggi vinur minn (eins og sonur minn myndi orða það .. hann er mjög hrifinn af Bjögga)

Áfram svona! Áfram Ísland #ÁNFILTERS

xx,-EG-.

@elgunnars á Instagram

NÝTT FRÁ BIOEFFECT

Skrifa Innlegg