fbpx

ÞEGAR COVID BÝÐUR SÉR Í HEIMSÓKN

PERSÓNULEGT

HALLÓ HEIMUR! Hljómar smá eins og ég hafi verið að eignast barn. En ég er bókstaflega búin að vera lokuð frá umheiminum síðustu vikurnar. COVID kom í heimsókn eins og eflaust einhver ykkar hafið séð á instagram hjá mér. En í stuttu máli þá greindist smit í liðinu hans Arnórs bókstaflega korteri eftir að þeir urðu sænskir meistarar. Daginn eftir átti minn maður svo að fara í landsliðsferð og hafði fengið neikvæðar niðurstöður úr prófi þrjá daga í röð, en það var ákveðið að hann yrði heima til öryggis, ef hann væri þá þegar smitaður af veirunni. Brjálað svekkelsi en sem betur fer vann skynsemin því nokkrum dögum síðar reyndist hann jákvæður. Halelujah að hann hafi ekki mætt og smitað hálft landsliðið. En við tók einangrun á hann og við Aþena Röfn vorum í sóttkví hérna heima. Arnór fór í einhvers konar skyndipróf sem sýndi niðurstöður samdægurs, sem var ekki í boði fyrir mig þannig að  daginn eftir fór ég á heilsugæslustöðina okkar og var testuð á hefðbundna mátann. Við tók síðan bið.. og bið.. og enn meiri bið. Ég beið eftir niðurstöðum frá kl. 15 á föstudegi til 18.30 á þriðjudegi!! Í sóttkví með Aþenu. Arnór inni í herbergi og kom fram með grímu og gula uppþvottahanska (ég legg ekki meira á ykkur, allir latexhanskar uppseldir) þegar hann þurfti að ná í eitthvað eða fara á klósettið. Auðvitað voru líkurnar alveg miklar á því að ég hefði smitast af honum þessa daga frá því smitið greindist í liðinu og þangað til Arnór var testaður aftur. Við vildum samt vera skynsöm, maður á ekkert að óska sér að fá þessa veiru því þó maður sé „ungur og hraustur“ þá veit maður aldrei hvernig hún fer í mann. Ég var með smá höfuðverk og þreytt í líkamanum þessa daga sem ég beið eftir niðurstöðu en aldrei það afgerandi einkenni að ég væri handviss um að ég væri líka smituð. Svo reyndist vera, ég fékk símtal á þriðjudeginum og mér tjáð að ég væri líka jákvæð. Það var örlítið spennufall, ég viðurkenni það. Þegar maður er að bíða eftir einhverju eins og þessum niðurstöðum er frekar erfitt að lifa í núinu. Þó maður stjórni aðstæðunum ekki baun, þá fannst mér samt frekar ómögulegt að hugsa um eitthvað annað. Jákvæða svarið mitt einfaldaði hlutina töluvert því þá gátum við loksins verið saman hérna heima og tekist á við þetta í sameiningu. Aþena Röfn var ekki testuð en mér þykir það afar líklegt að hún hafi líka smitast. En þrátt fyrir að vera heima í veikindabæli áttum við líka notalegar stundir inn á milli, fengum dásamlegar sendingar frá vinum okkar hérna úti og gerðum eins gott úr þessu og við gátum. Maður kemst ekki langt á neikvæðninni og tíminn líður helmingi hægar þannig.

Í stuttu máli varð að smá löngu máli. Við erum allavega komin aftur á ról, ég er sest við tölvuna og til í þessa vinnuviku, Arnór er kominn í vinnuna sína og Aþena komin á leikskólann. Back to basics. Ég finn samt ennþá fyrir mikilli þreytu inn á milli og býst ekkert við því að það hverfi á núll einni. Þessi veira er ótrúlega lúmsk og eiginlega bara óhugnanleg. Núna teljum við bara niður í jólafrí og notalegar stundir með fjölskyldunum okkar á Íslandi.

Smá update.. farið vel með ykkur.
Andrea Röfn

instagram @andrearofn

OUTFIT

Skrifa Innlegg

Skilaboð 1

  1. Svart á Hvítu

    23. November 2020

    Búin að hugsa til ykkar <3 Fáið þið þá ekki líka að losna við sóttkví þegar þið komið heim um jólin, annars ljós punktur í þessu:)
    Knús og kram x