Íslenska parið Orri Finnbogason & Helga G. Friðriksdóttir hanna saman undir nafninu Orri Finn.
Ég hef lengi verið ástfangin af látlausa akkerishringnum úr þeirra hönnun – eiginlega verið með hann á heilanum síðasta mánuðinn!
Uppá síðkastið hefur parið haft í nægu að snúast en þeirra önnur vörulína er væntanleg fyrir jólin, ég var að vonum spennt að heyra meira og lagði því nokkrar spurningar undir þau Orra og Helgu.
Hvað er Orri Finn?
Orri Finn eru skartgripir/vörumerki þar sem haft er að leiðarljósi að hanna “unisex” skartgripalínur sem höfða til fleiri en hefðbundnir skartgripir hafa hingað til gert.
Hversu lengi hafið þið verið starfandi?
Orri lærði demantaísetningu og gullsmíði og hefur starfað sem gullsmiður síðan 2003, hann stofnaði Orri Finn vörumerkið og hannaði einn undir því framanaf. Helga hefur starfað í skartgripageiranum undafnarin sex ár en hóf samstarf við Orra árið 2011. Nú hanna þau bæði undir Orra Finn vörumerkinu og eru í dag að leggja lokahöndina á aðra skartgripalínu sína saman.
Hvaðan kemur innblásturinn?
Í fyrstu skartgripalínunni okkar Akkeri var innblásturinn sóttur úr okkar nánasta umhverfi. Sem ábúendur á eyju erum við umvafin sjó og flestöll tengd sjómennsku á einn eða annan hátt. Akkerið er okkur líka sérstaklega hjartnæmt þar sem við höfum bæði tengingu við sitthvort sjávarþorpið á Íslandi; Orri er frá Akranesi og móðurætt Helgu frá Hnífsdal.
Akkerið er sterkt tákn, það er mjög hlaðið og það er án landamæra þar sem að það er alþjóðlegt. Okkur finnst Íslendingar tengja mikið við akkerið og mætti jafnvel segja að margir tengi betur við það en við krossinn. Tákn eru hugleikin í hönnun okkar og við höldum áfram að vinna með þau í nýju línunni okkar Scarab en hún dregur einmit nafn sitt af fornegypskum verndargrip.
Hvað er framundan?
Undanfarna mánuði höfum við unnið hörðum höndum að nýrri skartgripalínu. Nú er hún loks tilbúin og er frumsýningin á henni framundan. Skartgripirnir í Scarab línunni líkja eftir bjöllum úr Scarabaeidae bjölluættinni en fornegyptar töldu þær heilagar. Scarab bjallan táknar hringrásina og endurfæðinguna og heiðra skartgripir Scarab línunnar þessi tákn. Við erum ótrúlega spennt fyrir sýningunni en hún verður í formi tískusýningar með karl- og kvenkyns fyrirsætum sem klæðast skartinu. Eftir sýninguna býðst gestum að skoða skartgripina í návígi. Svo verður einfaldlega skálað fyrir Scarab og haldið partý í boði Tanqueray!
Myndin hér að neðan er í fyrsta sinn birt hér á Trendnet en hún sýnir nýju skartgripalínuna.
Frumsýning Scarab verður haldin á morgun, 28. nóv. Fyrir áhugasama þá eru allir velkomnir. Meira: HÉR
Ég hlakka til að fylgjast áfram með. Áfram íslenskt!
xx,-EG-.
Skrifa Innlegg