fbpx

VIÐ ERUM AÐ FLYTJA…

PERSÓNULEGTSVÍÞJÓÐ

Til BOSTON!

Ég er búin að fresta því í marga daga að skrifa þessa færslu. Það skrifast 100% á þá staðreynd að ég er sjálf að átta mig á þessu – við erum að flytja frá Malmö og alla leið til Boston. Arnór var keyptur frá Malmö til New England Revolution. Það fylgja þessu miklar tilfinningar, við höfum búið í Malmö í rúmlega þrjú ár, eignast og alið upp okkar fyrsta barn þar og eignast fullt af vinum og minningum. Við kveðjum því Svíþjóð full þakklætis fyrir tímann okkar og allt fólkið sem við munum eiga þar og heimsækja eins oft og við getum. Ég mun alltaf vera með sænskt hjarta og líða eins og heima þegar ég kem þangað.

Þannig að!! Við Aþena Röfn „skutumst“ til Malmö eftir páskafrí á Íslandi og pökkuðum niður einu stykki búslóð á tveimur vikum. Ég var búin að skrifa þessa færslu áður en ég byrjaði að pakka en ó guð, nú þarf ég að laga hana aðeins til. Planið var þannig að Aþena Röfn fengi að njóta síðustu viknanna í leikskólanum á meðan ég væri að pakka í „rólegheitunum“. Þetta plan gekk ekki betur en svo að hún var veik alla seinni vikuna og það voru alls engin rólegheit að pakka niður. Ég misreiknaði heldur betur hversu mikið af dóti við höfum sankað að okkur síðustu ár og elsku veika barnið mitt þurfti að hanga með mér í staðinn fyrir að njóta með vinum sínum á leikskólanum. Tilfinningin þegar flutningabíllinn keyrði út götuna okkar var svo góð, næstum því jafn góð og þegar ég fékk Aþenu Röfn í fangið í fyrsta sinn.. næstum því. Búslóðina ætlum við að geyma á Íslandi og hafa hlutina eins einfalda og mögulegt er þarna í Boston.

Við seldum svo fallegu íbúðina okkar til sænskra vina okkar sem eru að flytja úr stigaganginum við hliðina á okkur. Aðeins einfaldari flutningar framundan hjá þeim en okkur! Planið þeirra er að gera töluverðar breytingar á íbúðinni og ég hlakka mikið til að fylgjast með því. Við kvöddum svo Svíþjóð á sunnudaginn og héldum til Íslands og verðum hérna þangað til við fáum vegabréfsáritun. Þá hoppum við rakleiðis upp í næstu vél til Arnórs og hefjumst handa við að koma okkur fyrir á nýjum stað. Boston er ein af mínum uppáhalds borgum, ég kom þangað fyrst átta ára og í hvert skipti sem ég hef komið þangað síðan þá hef ég hugsað með mér „hvernig ætli sé að búa hérna?“. Nú fæ ég loksins svar við þessari spurningu.

Nýtt ævintýri að hefjast og við hlökkum svo til.

Andrea Röfn

Fylgið mér á instagram: @andrearofn

JODIS BY ANDREA RÖFN: DROP 3

Skrifa Innlegg

Skilaboð 1

  1. Arna Petra

    28. April 2021

    Þið eruð svo dugleg! Spennt að fylgjast með 😍