fbpx

HÚRRA REYKJAVIK

IMG_0745_NOTA

Sindri Snær Jensson og Jón Davíð Davíðsson vinna þessa dagana hörðum höndum við að gera húsnæði að Hverfisgötu 50 að tískuvöruverslun fyrir karlmenn landsins. Ég held að verslun sem slík sé einmitt eitthvað sem vantar í flóruna og var því forvitin um framhaldið og fékk að heyra hljóðið í öðrum eigandanum, Sindra Snæ.

Hurra.Framkvaemdir2Hurra.Framkvaemdir

Hver er maðurinn?

Ég er fyrst og fremst mikill áhugamaður um fatnað og fótbolta. Mér hefur tekist að starfa við þessi áhugamál mín í tíu ár núna og stefni á að halda því áfram um ókomna tíð. Í dag er ég að að spila fótbolta með KR og undirbúa verslunina Húrra Reykjavík sem ég er að opna með æskuvini mínum Jón Davíð Davíðssyni að Hverfisgötu 50.

Hvað kom til að þið ákváðuð að opna herrafataverslun í miðbænum?

Það hefur lengi blundað í okkur sá draumur að opna herrafataverslun. Frá áramótum höfum við markvisst unnið að undirbúningi Húrra Reykjavík og fóru áformin svo á fullt þegar ég flutti heim frá Kaupmannahöfn í apríl. Jón Davíð sagði síðan starfi sínu lausu nýlega en hann starfar sem verslunarstjóri í Húsgagnahöllinni sem er á mikilli siglingu. Það kom í raun aldrei til greina að opna verslunina í Kringlunni eða Smáralind. Erlendis eru flottustu og sértækustu verslanirnar staðsettar á verslunargötum og nærliggjandi hliðargötum. Miðbærinn er í mikilli uppbyggingu og erum við spenntir fyrir að taka þátt í því og bæta okkur í þá litríku flóru verslana sem fyrir eru.

Afhverju nafnið Húrra Reykjavik?

Að finna nafn á sinn eigin rekstur getur verið vandasamt og voru ófá kvöldin sem fóru í að leggja höfuðið í bleyti. Húrra Reykjavík kom upp í byrjun árs og þótti okkur það strax mjög frambærilegt. Húrra er stutt, þjált og jákvætt orð, þá skemmir ekki fyrir að það er einnig alþjóðlegt og auðvelt í framburði. Eftir að skemmtistaðurinn Húrra opnaði svo í Naustinni í vor runnu á okkur tvær grímur. Eftir að hafa ráðfært okkur við eiganda Húrra var ekkert annað í stöðunni en að deila nafninu og hugsanlega starfa saman með einhverjum hætti.

Fyrir hvað mun verslunin standa?

Við teljum okkar helstu sérstöðu vera þá að verslunin selur eingöngu herrafatnað. Þannig munu karlmenn eignast góðan stað til að koma á í rólegheitunum og finna sér fatnað sem hentar. Við munum leggja mikla áherslu á persónulega þjónustu og óþvingað andrúmsloft. Það er mikilvægt að fólk fái góða upplifun af búðinni og líði vel að heimsækja Húrra Reykjavík þó það ætli sér ekki endilega að versla í það skiptið. Vörurnar eru það sem við köllum vandaður hversdagsfatnaður innblásinn af skandinavískri hönnun og götutísku sem er einföld og hefur mikið notkunargildi.

Hvaða merki megum við búast við að sjá?

Við höfum tryggt okkur gott úrval af mjög sterkum alþjóðlegum vörumerkjum. Sum merkin ættu íslenskir karlmenn að kannast ágætlega við en önnur hafa ekki verið seld hér á landi áður. Í fatnaði eru helstu merkin Norse Projects, Libertine-Libertine, Carhartt WIP, Edwin og Oh Dawn. Þá verðum við með skó frá Red Wing, Vans, Nike og Pointer Footwear. Þar að auki erum við með nokkur mjög skemmtileg vörumerki sem útvega okkur aukahluti líkt og belti, úr og skóhreinsiefni. Það skemmtilega við þennan bransa er að við getum auðveldlega hrist upp í hlutunum og tekið inn ný vörumerki með nokkuð skömmum fyrirvara. Þannig mun Húrra Reykjavík halda í ferskleikann og sjá til þess að íslenskum karlmönnum sé ekki mismunað þegar kemur að úrvali vörumerkja.

Hvenær geta fyrstu viðskiptavinir mætt á staðinn?

Þessa dagana erum við á fullu að undirbúa verslunarrýmið og huga að öllum smáatriðum. Við erum svo heppnir að njóta liðsinnis fjölskyldu og vina í framkvæmdunum og er sú hjálp og sá stuðninur ómetanlegur. Nýlega vorum við staddir í Berlín á vörusýningum að sækja okkur innblástur, gera pantanir og hitta birgjana okkar. Í byrjun ágúst förum við á tískuviku í Kaupmannahöfn og ljúkum þar við allar pantanir fyrir opnunina sem og næsta vor. Ef allt gengur að óskum er planið að opna með heljarinnar partýi snemma í september.

Hvenær opna dyrnar?

Eigum við ekki bara negla þetta niður og segja fimmtudaginn 4. September.

Framtíðarplön?

Við erum fullir bjartsýni en gerum okkur þó grein fyrir því að svona rekstur krefst mikillar vinnu og skuldbindingar. Stefnan er sett á hönnun eigin fatalínu undir nafninu Húrra Reykjavík og þá jafnvel strax næsta haust. Þá höfum við mikinn áhuga á því að þjónusta kvenfólk og opna Húrra Reykjavík verslun sem notast við sömu hugmyndafræði. En er ekki best að spara yfirlýsingarnar örlítið og sjá hvert þetta ævintýri leiðir okkur.

_

Áfram Íslensk verslun! Það er bara þannig ….
Gangi ykkur vel kæru karlmenn.
Sjáumst í september.

xx,-EG-.


TÍSKA Á SUNNUDEGI: BEISIK ER BEST

Skrifa Innlegg