fbpx

VEL SKIPULÖGÐ 58 FM ÍBÚÐ MEÐ FRÁBÆRU LITAVALI

Heimili

Hér er á ferð fallegt heimili með skemmtilegu skipulagi, íbúðin sem er ekki nema 58 fm er nefnilega sett þannig upp að hægt er að ganga hring í gegnum öll rýmin og svefnherbergið sem staðsett er í miðjunni er því með inngang inní bæði eldhús og stofu. Mörgum gæti þótt það ekki vera mjög praktískt en engu að síður skapast skemmtilegt flæði á heimilinu, og einfaldlega enn meiri ástæða til að búa um rúmið! Litavalið í öllum herbergjum er algjörlega frábært og eru mjúkir grænir tónar ásamt kóngabláum sem setja sterkan svip á heimilið ásamt dásamlegum hörgardínum í ljósbleikum lit sem setja alveg punktinn yfir i-ið! Plássið er einnig vel nýtt sem er nauðsynlegt í litlum íbúðum, hér eru t.d. skápar allar leið upp í loft í svefnherberginu og umlykja rúmið og innganginn og verða að einskonar höfðagafli nánast. Algjör snilld!

Kíkjum í heimsókn –

Gullfallegar hörgardínur í ljós brúnbleikum lit skapa hlýleika á heimilinu, stofan er litrík en þó í svo mildum tónum að hér er mjög afslappað yfirbragð. Plakötin á veggnum eru frá Paper Collective / Epal og Flos Gatto lampinn / Lumex er flottur við sófann.

Hringborð eru góð lausn í litlum íbúðum og það skapast gott flæði í stofunni þegar það er ekki ferhyrnt borðstofuborð við gangveginn.

Klassísk málverk og jafnvel gamaldags hafa verið að koma sér fyrir undanfarið á nútíma heimilum og mætti vel tala um að einhverskonar “tísku”bylgja sé um að ræða, sem er þó svo jákvæð. Því það að fjárfesta í málverki er ekki á allra færi en oft liggja gömul verk í geymslum hjá fjölskyldum sem við yngri kynslóðin höfum hingað til afþakkað pent. Ég er hrifin af þessari þróun.

Eldhúsið er stílhreint en litavalið, gardínurnar og bekkurinn við gluggann gera það aðeins meira sjarmerandi. Hér mætti kannski helst skipta um blöndunartæki og fronta á eldhúsinnréttinguna eða að mála hana og setja á nýjar höldur. Þá fellur það betur að heildarstílnum að mínu mati.

Ég elska þennan bláa djúpa lit á svefnherberginu og sjáið hvað það kemur vel út að hafa vegglista fyrir ofan gólflistann og mála hvítt á milli sem tengir þá saman, fallegt smáatriði sem fer þessari íbúð sérstaklega vel þar sem veglegir loftlistar eru í stofunni og þetta gerir heildarmyndina enn meira elegant. Svona má að sjálfsögðu leika eftir á sínu heimili, – mæli með að fá ráðgjöf í Sérefni fyrir svona pælingar.

Skeljalampinn (5321) frá Gubi er einn sá allra fallegasti og verður yfirleitt stjarnan á svæðinu þar sem honum er stillt upp.

Ellipse ljósið / Dimm hefur prýtt ansi mörg heimili á þessu bloggi undanfarið. Greinilega ansi vinsælt hjá þessum sænsku!  

Myndir // Historiska Hem 

Fallegt heimili í haustlitum og hér má svo sannarlega fá góðar hugmyndir þegar kemur að efnis og litavali og skreytingum heimilisins. Alveg æðislegt heimili og svo gaman að spá og spekúlera hvernig við gætum gert svona íbúð að okkar, myndum við flytja beint inn eða breyta einhverju?

Fylgstu endilega með á Instagram @svana.svartahvitu 

DRAUMABÓK // DESEMBER

Skrifa Innlegg