Skál í Moët Ice

PERSÓNULEGT

Þá er ég búin að kaupa flugelda fyrir 40 þúsund krónur, tré sem verður gróðursett í Áramótaskógi.. og eina svona. Ég mæli með þessari tegund af Moët – tilvalin fyrir áramótin eða nýársfögnuð. Flaskan virðist vinsæl fyrir þennan tíma árs en af öllum þeim Moët flöskum sem voru til var langmest farið af þessari.

Annars sjáiði jólatréð okkar í bakgrunn. Ég póstaði aldrei annarri mynd af trénu eins og ég ætlaði mér. Ég átti nóg af jólaskrauti á það, enda hefur guðmóðir mín sem býr í Bandaríkjunum gefið mér jólaskraut, eitt á hverju ári, frá því ég fæddist. Ég á því 34 persónuleg jólaskraut.. þetta er í fyrsta sinn sem ég á mitt eigið jólatré og því fylltist hjartað mitt af góðri tilfinningu við að skreyta það.. ég á t.d. “Baby’s first christmas, 1984”.

Ég bætti við möttum hvítum kúlum ásamt pappaskrauti frá H&M. Svo keypti ég skraut fyrir efsta hluta trésins (hvað heitir þetta eiginlega?) í Byko á 500kr. Í janúar ætla ég að kaupa hvíta fjaðradúska sem ég sá á einhverri síðu, ég held það verði eilítið “dreamy” að hafa kannski tuttugu slíka.

Nýtt ár

PERSÓNULEGT

Sum ykkar munið mögulega eftir færslunum mínum í lok árs 2017, byrjun árs 2018. Ég var staðráðin í því að verða óttalaus, hætta að ýta á bremsurnar og vaða í þau verkefni sem mér byðust. Ég var búin að vera í sama starfinu í of langan tíma. Starfi sem mig langaði lengi að segja lausu. Starfið gerði ekki mikið fyrir mig, ég þarf áskoranir, ég þarf að ná markmiðum og ég þarf að hafa rödd. Mig langar að læra nýja hluti, vaxa og þróast í starfi (tek fram að ég tala fyrir mína hönd – auðvitað hentar starfið öðrum).

Árið 2018 hefur verið mér mjög lærdómsríkt. Ég fékk nýja vinnu, draumastarfið, sem útskýrir mikla fjarveru hér (sem og annars staðar). Líf mitt hefur verið ansi mikil púsluspil síðastliðna mánuði og hafa hlutir eins og ræktin mætt algjörum afgangi…. algjörum!

Ég eyði tveimur tímum á dag í að keyra í vinnu.. og með tveggja ára barn og heimili er það frekar tímafrekt. Mig hefur sárlega vantað auka tvo tíma í sólarhringinn. Stundum vaki ég til kl. 1 á nóttunni (og vakna 6) bara til að ná að klára ýmsa hluti fyrir næsta dag. Smá svona “roller coaster ride” en svo sannarlega þess virði.

Með nýju ári ætla ég að reyna að skipuleggja hlutina aðeins öðruvísi. Ég þarf að finna út úr því hvernig ég næ að púsla þessu öllu betur saman & koma fleira fyrir í dagskrána. Klárlega væri það auðveldara ef ég byggi á höfuðborgarsvæðinu. Einn af mínum helstu veikleikum er að vaka fram eftir… ég þarf kannski að byrja þar, fara fyrr að sofa.

Gleðilegt ár & takk fyrir þau gömlu.

Fallegasta jólatréð

HEIMILIÐ MITT

Við höfum aldrei sett upp jólatré áður. Þá meina ég aldrei.. ástæðan er ekki sú að við Davíð erum Grinch’ar í okkur. Ég hef bara aldrei fundið gervijólatré á Íslandi sem mér hefur þótt fallegt. Ég sá alltaf fyrir mér að ég þyrfti að fara með eitt stykki tré heim frá Bandaríkjunum & ég nenni því auðvitað engan veginn. Blessunarlega ropaði ég þessum pælingum mínum út úr mér í vinnunni því vinnufélagar mínir sögðu að ég þyrfti ekki að leita langt yfir skammt, heldur væru skátarnir þekktir fyrir að vera með ein fallegustu gervijólatrén.  Ég sá tréð og keypti það án þess að velta því eitthvað frekar fyrir mér. Skátarnir hafa selt gervijólatré síðan 1993 í fjáröflunarskyni. Trén eru sérlega vönduð og með 10 ára ábyrgð.

Ég er brjálæðislega ánægð með tréð (ég er að skrifa tré í tíunda sinn, hef held ég ekki skrifað tré svona oft í lífinu). Nú vantar bara að klára að skreyta það, eins og þið sjáið þá dugði 283 ljósa serían ekki til. Ég held að við þurfum ca. 400-500 ljós.

Ég á ýmislegt persónulegt jólaskraut sem ég hef eignast í gegnum ævina. Það nægir hins vegar ekki til að “fylla” tréð og því þarf ég að kaupa meira. Svo vantar okkur jólatrésstand og það er bara einn sem kemur til greina. Ég var svo sem alltaf búin að ákveða að eignast hann áður en ég eignaðist tré. Þetta er jólatrésstandurinn frá VIGT.

Vonandi er ljósaserían ekki búin – það yrði hálf grillað að vera með þetta svona.

Okkar tré er 215cm hátt og kostaði 34.900kr.

Fæst hér.

Tómur veggur fær loks verk

HEIMILIÐ MITTÍSLENSK HÖNNUN

-Færslan er unnin í samstarfi við listamanninn-

Lengi er veggurinn inni í stofu búinn að vera tómur. Mér finnst alveg eins betra að hafa hann tóman en að hengja upp eitthvað til bráðabirgða. Nú eru liðin tvö og hálft ár frá því við fluttum inn og hann er enn tómur. Ég hef verið að bíða eftir rétta verkinu eftir listamann sem ég hef fylgst með í dágóðan tíma.

Loksins sá ég verkið sem mig langaði í – ég vildi fá að skoða það nema hann sagði mér að það væru fjórir á undan mér. Hins vegar kíkti ég á hann um daginn og þá var verkið ennþá þar og ég nánast ákvað mig á staðnum. Þetta væri verkið.

Hér að neðan sést aðeins í verkið… en heildin er allt öðruvísi en þessir litlu bútar sýna. Það er svo ótrúlega flott – hlakka til að sýna ykkur. En þið sjáið hvar það fer á neðri tveimur myndunum, yfir sófann.

Eigið góða helgi,

Ómissandi PopUp markaður

BARNAVÖRUR

Mig langaði að segja ykkur frá POP UP markaði Míní Lúx á morgun, en það er ný barnafatavefverslun (fyrir stráka og stelpur) sem opnar bráðlega. Það má segja að þetta sé algjör lúxus vefverslun en flíkurnar eru ótrúlega fallegar. Ég rakst á þau á instagram og áttaði mig svo á að ég þekki stelpuna sem er með þetta. Mér finnst því extra gaman að segja frá þessu.

POP UP markaðurinn er í Café Atlanta, Hlíðarsmára 3 í Kópavogi (fyrir aftan Smáralind) frá klukkan 12-16 á morgun og sunnudag. Sjón er sögu ríkari en myndirnar segja líka ansi mikið.

Ahh, þessar flíkur eru svo hrikalega fallegar.. úlpurnar og húfurnar, slárnar.. ég bilast yfir þessu öllu!

Ég hlakka svakalega til að fylgjast með þessari vefverslun. Við fyrstu sýn lofar þetta ansi góðu :)

Dásamleg barnaskóverslun – FLÓ

BARNAVÖRUR

Skóna fékk Snædís í afmælisgjöf frá ömmu & afa

Snædís fékk þessa æðislegu skó frá versluninni flo.is. Sú sem á verslunina, Kristín Johansen, er móðursystir fóstursystra minna. Þessi fjölskylda veit alveg hvað hún er að gera þegar kemur að tísku, og er Svava Johansen flestum góðkunnug í þeim geira.

Allavega, þessi verslun er svo dásamleg og úrvalið af fallegum & vönduðum skóm er endalaust! Ég þarf að kíkja í heimsókn í verslunina, jafnvel smella nokkrum myndum. Hún er staðsett á Klapparstígi 44.

Draumastjakar

HEIMILIÐ MITT

Kertastjakana keypti ég sjálf

Ég keypti mér þessa æðislegu stjaka í Snúrunni þegar Julie Hugau, annar hönnuður Reflections, kom til Íslands. Það var 20% afsláttur af öllu frá Reflections og ég ákvað að slá til og kaupa mér þessa tvo stjaka sem mig hefur lengi langað í. Litirnir eru svo fallegir og stjakarnir eru svo stórfenglega bjútífúl að ég sé get ekki séð eftir þessum kaupum. Ég var reyndar í smá basli með hvert ég ætti að setja þá og með hverju ég ætti að para þá… og er í raun ennþá þar, en núna eru þeir uppi á eldhúseyju með J.A. vasanum.

Snúran er auðvitað algjör draumaverslun og ég mæli svo sannarlega með heimsókn þangað. Starfsfólkið er líka frábært sem er alltaf bónus.

Annars er ég að vinna frekar mikið og ég er að vinna í því að koma þessu öllu fyrir á 24 tímum. Ég næ að skila vinnunni af mér en það hallar aðeins undan fæti þegar kemur að fjölskyldunni, líkamsrækt, vinum og fleira, eflaust eins og hjá mörgum. En ég er að reyna að ná utan um þetta – það er bara spurning hvenær ég kemst í góðan takt með þetta allt saman.

Nokkur orð

HEIMILISVÖRUR

Mig langaði að skrifa nokkur orð vegna umræðunnar um Trendnet og áhrifavalda. Kannski nokkrum dögum of sein en mér finnst þó mikilvægt að ég komi þessu frá mér þar sem ég hef skrifað hér í nokkur ár.

Ég áttaði mig strax á því að ég hef greint frá samstarfi með röngum hætti í öll þessi ár og mér þykir það leitt. Um tíma setti ég reyndar nokkrar færslur í svokallaðan “Umfjöllun”-ar flokk en hætti því svo.. því mér fannst annað eiga betur við. Mér fannst persónulegra og heiðarlegra að skrifa hvernig samstarfinu væri háttað. Það væri meira gegnsæi í því. Engin fræði þar að baki – bara mín leið til að láta lesendur vita.

Ég hef ætíð sagt frá því ef um samstarf væri að ræða en það var ekki lagalega rétt uppsett. Auðvitað hefði ég átt að kynna mér reglurnar betur – ég tek það á mig. Ég ber að sjálfsögðu ábyrgð á vinnubrögðum mínum og enginn annar. Meiningin hefur ekki verið að dylja fyrir neinum og héðan í frá mun ég gera þetta rétt. Ef ég geri þetta ekki rétt, þá megið þið endilega pikka í mig ef þið nennið því.

Annars er ég á leið til Boston í nóvember – ég þarf að versla aðeins fyrir jólin. Reyndar er ég nýkomin frá San Francisco en ég náði ekki að kaupa nema tvo hluti. Í nýrri borg er mikilvægara að upplifa en versla að mínu mati. Annars held ég upp á CB2 verslunina og rakst á nokkra fallega hluti á heimasíðunni, og ég get svarið fyrir það, þessi svarti spilastokkur er geggjaður. Ég vissi ekki að það væri hægt að finnast spilastokkur flottur!

Marmarahorn.. alveg geggjuð. Vonandi eru þau til!

Gylltur poppar rými upp – væri til í hana inn í stofu, ég er með of svipaða litapallettu þar.


Geymslubox.. afar smart.


Stundarglas. Ég á stundarglas sem ég keypti í Marshalls á nokkra dollara.. en lögunin á þessu er smart.

Hellúú.. aldrei hef ég séð svona fínan spilastokk áður.

Skúlptúr.. á svipaðan nema þessi er ólögulegur og því fíla ég hann betur. Ég geymi minn inn í skáp en fyrir forvitna þá skrifaði ég færslu um hann fyrir nokkrum árum síðan (sjá hér).

Tvö ár ♡

PERSÓNULEGT

Í dag eru tvö ár frá því Snædís kom í líf mitt. Að eignast hana var það besta sem hefur komið fyrir mig. Lífið er svo mikið fyllra og fallegra með henni. Við ætlum að halda lítið afmælið fyrir fjölskyldu á næstu dögum og ég hef alveg áttað mig á því að ég er ekki þessi “all in” afmælisveislumamma. Það eru meiri líkur á því að ég fari til tunglsins en að ég hafi þema-afmæli með öllu tilheyrandi. Ég viðurkenni fúslega að ég væri alveg til í að fara í eina bakarísferð og redda málunum þar.

Það er samt ótrúlegt hvað það læðist að manni einhver undarleg pæling.. “það eru allir að þessu, verð ég ekki að gera það líka?”. Instagram sýnir manni svo ótrúlega fallegar myndir af íslenskum barnaafmælum að manni nánast fallast hendur. En ég veit að ég fengi kvíða- og svimakast ef ég ætti að halda slíka veislu fyrir hana.. svo ég slaufa framhjá því og held mig við eitthvað bragðgott en basic :)

Sömu sögu hef ég að segja um afmælisgjöfina. Þar til vitið verður meira verður þetta látlaust, en hún fékk hvolpasveitarviftu (og pening) eða hvað þetta heitir, hahaha. Ekta dót sem fæst við kassann í matvörubúð. Þessi krúttlega gjöf vakti það mikla lukku að henni var ekki sleppt í allan dag. Ég er með frekar lítið af dóti hér heima svo hún þarf ekki mikið til að gleðjast.

Hér er hún mætt upp í rúm.. með tvo bangsana sína sem er haldið mikið upp á. Sérstaklega þann sem hún er með yfir höfðinu.. sá bangsi er barnið mitt líka – ef hann týnist.. þá veit ég ekki hvað gerist! Hún er svo háð honum að það er orðið hálf óþægilegt.

VIGT: Höfuðverk eftir Fríðu Þorleifs

HEIMILIÐ MITTÍSLENSK HÖNNUN

Á laugardögum er ótrúlega notalegt að keyra til Grindavíkur og kíkja í verslunina VIGT. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem ég skrifa um þessa einstöku og fallegu verslun enda er hún í miklu uppáhaldi hjá mér. Nú hafa þær mæðgur bætt við sig húsgagnalínu sem er hreint út sagt stórkostleg. En ég brunaði satt að segja til Grindavíkur til að kíkja á höfuðverkin eftir Fríðu Þorleifsdóttur. Ég var nánast búin að ákveða að kaupa styttuna áður en mætti í verslunina, og það endaði jú þannig.. að ég fór með eina heim.

Ég sogast að ýmsu sem viðkemur höfðum. Ég á t.d. fimm til fjórar höfuðstyttur, núna eitt höfuðverk (skemmtilegt og tvírætt orð), vasa með andlitum svo eitthvað sé nefnt. Þessi höfuðverk eftir Fríðu eru hrikalega kúl & ég er stoltur eigandi í dag!

Ég endaði Grindavíkurferðina á að borða á Hjá Höllu, en það er frábær veitingastaður. Matargerð er Höllu svo sannarlega í blóði borið en ég hef aldrei fengið mat frá henni sem hefur valdið vonbrigðum. Nú fer Hjá Höllu að fara opna í Flugstöð Leifs Eiríkssonar hvað á hverju.

  

Ég sýni ykkur mína höfuðstyttu bráðlega. Ég náði ekki að finna stað fyrir hana áðan.. en Snædís heimtaði nærveru mína svo við enduðum með því að horfa á Dýrin í Hálsaskógi og kúrum saman hér undir sæng á meðan ég pikka í tölvuna.

Góða helgi..