Karen Lind

Endalausar framkvæmdir

FRAMKVÆMDIRHEIMILIÐ MITT

Við höfum verið að laga ýmislegt hérna heima. Stundum velti ég því fyrir mér hvort eitthvað sé að mér – en mér finnst mögulega óeðlilega gaman að laga og bæta umhverfið í kringum mig. Ég er með eitthvað sérstakt áhugamál á háþrýstidælum og áhrifum þeirra.. að sjá hvað hellurnar eru hreinar eftir slíkan þvott er ólýsanleg tilfinning.. ég meinaða.. eru ekki einhverjir aðrir svona smá “sækó” eins og ég?

Ég get ómögulega litið framhjá hlutum og er einhvern veginn alltaf að leita að betri og snyrtilegri lausn. Það var því búið að trufla mig örlítið hvernig húsið okkar var á litinn en það var þó ekki efst á lista yfir þá hluti sem þurfti að fara í. Hins vegar fórum við í það núna í sumar og núna er það málað hrímhvítt. Gluggapóstarnir eru svartir, sömuleiðis útidyrahurðin, grindverkið og tréverkið á svölunum. Þvílíkur munur!

Við skiptum sömuleiðis út bílskúrshurðunum. Nýju hurðirnar eru æðislegar en þær gömlu voru ca. 40-50 ára gamlar. Næst á dagskrá er að finna nýjan tölustaf á húsið, nýja lýsingu við aðaldyrnar sem og fyrir ofan bílskúrana. Vonandi náum við að klára það fyrir veturinn.

Að eiga hús fylgir mikil vinna.. ég er alltaf að sjá það betur og betur að ég nenni engan veginn að eiga einhvern stórkostlega fallegan garð. Hann verður bara plain & simple.. tíma mínum er betur varið en að hanga í beði að reita, klippa runna og slá gras!

 


Hér að ofan má sjá einn fleka af nýju bílskúrshurðunum.. og svo þá gömlu á næstu mynd.

Klófífan

HEIMILIÐ MITT

Fyrir tveimur sumrum týndi ég klófífuvönd fyrir utan bóndabæ sem mamma var á eitt sumarið sem barn. Klófífan er mitt blóm.. en það minnir mig á fallegar æskuminningar úr Kjósinni. Ég hélt í vonina um að klófífan myndi halda formi og útliti eftir þurrkun.. því mér finnst hún ein sú fallegasta. Raunin varð sú að fífan helst eins þó hún sé þurrkuð.

Ég bjó til tvo vendi um daginn, annan snyrti ég en hinn er ósnyrtur. Ég klippti þann fyrrnefnda til og gerði aðeins meira úr fífunni svo hún yrði meira pöffí og setti hann í vasa sem ég held mikið upp á. Fífan passar vel í vasann og það kemur eiginlega út eins og hún sé hár :)

Hversu fallegt? :)

Mývatn ♡

FerðalögPERSÓNULEGT

Það er fátt skemmtilegra en að ferðast um landið.. hvað þá þegar það er óplanað og hver dagur er ævintýri. Í framhaldi af Borgarnesi ákváðum við í flýti að bruna til Akureyrar. Við gistum þar eina nótt og fórum þaðan til Mývatns. Jeminn eini.. það er svo fallegt þar.

Við gistum á nýja Icelandair hótelinu við Mývatn. Virkilega vel heppnað concept – skemmtilega ólík rými með fallegum munum sem skreyta þau.

Notalegt frí á Íslandi

FerðalögPERSÓNULEGT

Ef þið hafið ekki farið á Hótel Hamar myndi ég hafa það í huga fyrir næsta ferðalag. Ein nótt í burtu er mátulegt – sértaklega þegar náttúrunni tekst að gleypa mann á svona einstakan hátt og gefa manni frí frá daglegu amstri.

Ég get ekki að því gert en ég get ómögulega verið í tjaldi. Ég gerði tilraun til þess í fyrra og það endaði svo fáranlega. Við vorum að drepast úr kulda.. og klukkan 2 um nóttina var tekin ákvörðun um að fara aftur heim. Hrikalega misheppnað sem fékk mig til að taka endanlega ákvörðun = aldrei aftur tjald.

Tekk Rúmgafl

HEIMILIÐ MITT

Okkur áskotnaðist þessi fallegi tekk rúmgafl í dag. Nágranni okkar á neðri hæðinni átti rúmgaflinn en hann lést fyrir hálfu ári síðan. Betri nágranna var ekki hægt að hugsa sér og gerðum við Davíð allt sem við gátum til að reynast honum sem best. Hann var kominn á sín efri ár og fannst mér því extra gaman að “dekra” við hann. Ég þreif stundum gluggana fyrir hann og Davíð flikkaði upp á margt annað fyrir hann. Hann var afar ánægður með okkur og við hann. Þess vegna finnst mér alveg sérstaklega gaman að fá þennan fallega rúmgafl.

Á myndunum er Davíð að taka hann niður.. hann er sem sagt ekki kominn upp í okkar svefnherbergi. En rúmgaflinn kemur á réttum tíma því ég hef verið að klóra mér í hausnum varðandi punktinn yfir i-ið svefnherberginu. Tekk liturinn smellpassar við pælinguna en núna tekur við smá rannsóknarvinna. Ég býst við að ég fari í Sérefni og fái ráðgjöf um hvernig sé best að fríska upp á hann.

Bleiki liturinn í Snædísar herbergi

HEIMILIÐ MITT

Ég fæ svo margar spurningar um litinn á veggjunum í Snædísar herbergi að mér finnst ég skulda ykkur færslu um hann. Þið getið farið í hvaða málningaverslun sem er og látið blanda fyrir ykkur, en ef ég ætti að mæla með einhverri verslun þá er það Sérefni. Ekki er það einungis vegna þjónustunnar sem að mínu mati er sú allra besta sem ég hef fengið í málningarverslun, heldur hef ég einnig margoft heyrt málara tala um að málningin þaðan sé sú besta.

Ég var alveg ótrúlega lengi að finna litinn á veggina í herbergið hennar. Ég fékk samtals 22 prufur sem er algjörlega út í hött.. Loksins fann ég litinn sem ég leitaðist eftir.

Númerið á litnum er:

A1510-Y80R 
Og svo bað ég um hann 10% ljósari.


Stolt systir

PERSÓNULEGT

Við Snædís fórum til Oslóar um daginn til að heimsækja bróður minn. Þessa tilteknu helgi var HM hópurinn tilkynntur en hann átti ennþá möguleika á að vera valinn. Mig langaði alls ekki að hann yrði einn daginn sem hann fengi fréttirnar, hvort sem svarið yrði nei eða já.

Samúel tókst ætlunarverk sitt og var valinn í hópinn. Að deila þessari minningu með honum þegar hann fékk skilaboðin er dýrmætt og rennur mér seint úr minni. Ég spurði hann örugglega fimmtán sinnum “Ertu ekki að grínast” og saman lásum við skilaboðin síendurtekið til að vera örugglega viss um að við værum ekki að misskilja. Þegar ég fór loksins að meðtaka þetta tók við tilfinningaflóð og við hoppuðum bókstaflega af gleði.

Að sjá hann ná markmiðum sínum aðeins 22 ára gömlum er magnþrungið. Samúel er öðruvísi en allir sem ég þekki, þess vegna er hann kominn svona langt. Þegar maður fórnar öllu fyrir einn hlut, þá hlýtur maður að ná markmiðum sínum. Yfirnáttúrulegur einbeittur vilji eru orð sem lýsa honum betur en önnur.

Einlægur og jarðbundinn eru sömuleiðis orð sem lýsa persónu hans vel. Mér fannst það sjást í viðtalinu í gær á RÚV. Æ, ég er svo stolt af honum og fyrirgef honum allt fótboltavesenið sem yfirtók heimilið og æskuárin. Maður fékk oftar en ekki bolta í andlitið eða í svefnherbergisrúðuna á unglingsárunum – þá lét ég hann sko heyra það fyrir vikið.

  


Ef þú vilt eitthvað nógu mikið..

PERSÓNULEGT

Ég skrifaði nokkra persónulega pósta hér fyrr á árinu. Þannig póstar eru nokkuð ólíkir mínum stíl en það var hluti af þessu ferðalagi sem ég “skrapp” í í lok síðasta árs og í upphafi þess nýja. Ferðalagið snerist um að ég myndi gera allt sem í mínu valdi stæði til að fá starf sem hæfði minni menntun. Ég er sálfræðimenntuð í grunninn og með framhaldsgráðu í mannauðsstjórnun. Ég hef sótt um örfá sérhæfð og krefjandi störf síðastliðin þrjú ár. Yfirleitt hef ég fengið viðtal og í framhaldi fengið annað viðtal. Þrátt fyrir góða frammistöðu var svarið alltaf það sama, að einhver annar hafi fengið starfið sökum reynslu. Þetta var ákveðið vonleysi og ég var alveg komin með nóg. Til hvers menntaði ég mig?

Þegar nóvember rann í garð var eins og einhver hafi tekið allt vald frá mér og tekið ákvörðun fyrir mig. Ég ákvað að gera allt sem í mínu valdi stæði til að fá vinnu sem hæfði minni menntun. Ég ákvað að hugsa öðruvísi. Ég sagði oft við sjálfa mig að á næsta hálfa árinu yrði ég komin með aðra vinnu. Í samráði við fagaðila var tekin ákvörðun um að mottóið mitt næstu mánuði væri að stíga út fyrir þægindarammann.

Ég valdi ýmsar leiðir til að ögra sjálfri mér. Til dæmis fór ég á átta vikna Dale Carnegie námskeið. Ég kenndi nokkra kúrsa hjá Miðstöð Símenntunar. Tók þátt í Herferð UN Women (týpískar aðstæður sem ég forðast). Ég hannaði baðherbergi fyrir hjón. Ég hlóð á mig verkefnum. Ég æfði eins og “brjálæðingur” og ætlaði mér að verða sterkari en nokkurn tímann áður. Hausinn á mér var að springa en mikið leið mér vel. Loksins stóð ég frammi fyrir áskorunum sem mér tókst að leysa með stakri prýði.

Þá kemur að jafnt og merkinu. Öll þessi vinna skilaði sér því að ég fékk draumastarfið hjá draumafyrirtæki í lok mars og hóf þar störf 4. apríl. Ég er enn að slípast til í starfi en mér líður eins og ég hafi fengið að skrifa starfslýsinguna sjálf. Starfið sem ég fékk ber heitið sérfræðingur á samskiptasviði Ölgerðarinnar. Ásamt því sé ég um viðburðarstjórnun fyrirtækisins. Ég blómstra og hlakka til að fara í vinnuna. Þessu fylgir mikil frelsistilfinning og ég er ótrúlega stolt af sjálfri mér.

Ég hlakka til að læra meira, mótast og þróast í starfi, kynnast kjarnakonum (og körlum) með sterkar skoðanir o.s.frv. Ég er á réttri hillu og er guðslifandi fegin að þessi einhver hafi tekið allt vald frá mér og ýtt mér í rétta átt.

Endum þetta á æðislegum myndum af Snædísi sem ég tók af henni rétt fyrir háttatíma.

.. ein heima

HEIMILIÐ MITTPERSÓNULEGT

Að vera ein heima hefur öðlast nýja merkingu. Ég kveiki hvorki á sjónvarpinu né hækka í uppáhaldslaginu í útvarpinu. Ég slekk á öllu og fer í bað. Skilaboðin frá öðrum foreldrum hljóðuðu gjarnan svona “Oh Karen, njóttu þess að vera frjáls og geta gert það sem þú vilt”. Ég svaraði þessu auðvitað játandi og var sannfærð um að ég vissi hvað fólk átti við. Hins vegar hafði ég rangt fyrir mér. Núna veit ég meininguna á bakvið þessar vinalegu ábendingar. Þess vegna er ég að elska að vera ein heima á laugardegi í dauðaþögn. Ég gæti verið í þessum stól eins lengi og hægt er. Það hljómar alveg spennandi. Jafnvel halla ég mér bara á borðið og hangi hér fram að kveldi.

Annars hafa orðið miklar breytingar í mínu lífi undanfarin mánuð. Ég segi ykkur frá því ansi fljótlega!


Hitt og þetta úr Target

BANDARÍKINKATIE MÆLIR MEÐ

Ég lofaði nokkrum á snapchat að setja inn hluti sem ég verslaði í Target um daginn. Þetta er lagerinn sem mér finnst nauðsynlegt að eiga (ásamt öðru, en þetta keypti ég núna).

Ég keypti Swiffer moppu og ég elska hana! Ég keypti bæði þurr- og blautþurrkur með henni. Þetta er alveg í uppáhaldi þessa stundina. Ég er svo sem ekki að þurrmoppa allt húsið, en ég tek meðfram veggjum því þar safnast rykið vanalega. Ég ryksuga frekar oft, kannski fjórum sinnum í viku. Þrátt fyrir það kemur ótrúlega mikið í Swiffer moppuna – kemur á óvart (“.). Swiffer er að henta mér mjög vel þessa stundina þar sem ég hef ekki jafn mikinn tíma og áður til að þrífa.. fljótleg og áhrifarík þrif!

Annars ætla ég að skrifa nokkur orð undir hverja mynd.

Mögulega segir tannlæknirinn að þetta séu ekki bestu kaupin.. en ég fæ svakalega klígjur yfir hvítu tannkremi og hef vanið mig á að kaupa Crest. Ég á yfirleitt ágætis lager af tannkremi og tannburstum (sem ég kaupi hjá tannlækninum mínum) en mér finnst ekkert meira óþolandi en að eiga ekki tannkrem allt í einu.

Þessum er ég háð. Það fer með mig að finna fyrir einhverju milli tannanna. Þessir ásamt Soft picks frá Gum er dúndurblanda.

Gain lyktin frá Febreze er í miklu uppáhaldi. Mér finnst hún mun betri en aðrar lyktir frá Febreze. Island Fresh er ágæt en hin ber sigur úr býtum.

Gott preworkout. Kostar lítið í Target eða 21$.

Ibúprófen í vökvaformi með berjabragði. Hentar mjög vel fyrir Snædísi því hún vill ekki þetta sem ég keypti hér heima.

Þetta elska ég (sérstaklega grape bragðið). Það er örlítið koffín í hverju bréfi en ég finn ekki fyrir því. Algjört æði og mæli alveg sérstaklega með þessu til að hressa upp á vatnið af og til :)

Uppþvottalögur frá Gain. Ahh, ég elska þetta! Þessi lykt er algjör bomba, létt og góð.. ég vildi óska þess að þetta væri til á Íslandi (var til í Kosti hér áður fyrr).

Rosy lips frá Vaseline. Gefur vörunum fallega og náttúrulega ljósbleika áferð. Ég er lítið fyrir að vera með varaliti og nota þetta því daglega fyrir smá “tint”. Fæ oft spurningar um hvað ég sé með á vörunum, þá er það þetta.

Þetta er algjör nauðsyn. Sérstaklega fyrir ryksuguna. Ég set nokkrar kúlur í ryksugupokann og það gjörbreytir öllu. Það er ansi góð leið til að koma góðri lykt inn á heimilið. Þessar tvær lyktir eru æðislegar og í uppáhaldi (ásamt venjulegri Gain).

Life changer! Swifferinn keypti ég í Target. En takið eftir lyktinni á blautþurrkunni… Gain! Jiii… ég hoppaði hæð mína þegar ég sá þetta. Ekkert lýsingarorð nær að lýsa gleðinni, en þetta er dásamleg lykt. Hins vegar dugar blautþurrkann ekki svo lengi. Ef ég ætlaði að moppa allt húsið þá myndi ég þurfa nokkrar blautþurrkur. Nema einhver annar sé með ráð?

Alltaf fínt að eiga nokkra svitalyktaeyði á lager. Hér eru nokkrar lyktir sem mér finnst mjög góðar. Ég hef verið að nota Clean Lavender og hún er frábær. Ég skil ekki af hverju hún heitir Lavender því ég finn ekki þá lykt af honum.

Og að lokum þetta brúnkusprey! Það hentar mér mjög vel, þornar fljótt og gefur jafna áferð. Ég þarf ekki að nudda því á mig.. rétt spreyja yfir andlitið og það dugar. Allt sem er einfalt er í uppáhaldi.