fbpx

LOKSINS HEIMA

HEIMAPERSÓNULEGTSVÍÞJÓÐ

Við erum loksins flutt inn! Fyrir rúmri viku fengum við afhenta lykla að íbúðinni okkar hérna í Malmö. Samstundis mætti flutningabíll með allt dótið okkar og stuttu seinna mamma og pabbi sem bókuðu flug um leið og þau vissu hvenær við fengjum afhent. Þau hjálpuðu okkur líka að flytja inn í Grikklandi og vá, hvað það er gott að eiga góða að sem eru tilbúnir til að taka sér tíma í svona stúss. Með hjálp þeirra vorum við búin að koma okkur almennilega fyrir á einum sólarhring, allt komið upp úr kössum og á sinn stað a nýja heimilinu.

Síðasta hótelnóttin

Íbúðin okkar er bjart loft á efstu hæð í 5 hæða húsi. Við mættum á opið hús einn sunnudag í janúar og urðum strax ástfangin af henni. Það voru um það bil 30 aðrir að skoða hana og áhuginn greinilega mikill. Daginn eftir var aftur opið hús og þá sáum við íbúðina að kvöldi til. Það ýtti enn frekar undir aðdáun okkar á henni og seinna sömu viku var hún orðin okkar. Við tók heldur löng bið en hún gleymist um leið og maður hefur komið sér fyrir og er kominn aftur í heimilisrútínu.

Þó ég segi að við séum búin að koma okkur almennilega fyrir vantar ennþá ýmislegt, en góðir hlutir gerast hægt. Stærsta verkefnið verður eflaust að koma öllum skónum okkar fyrir. Ég ætla ekki einu sinni að segja ykkur hvað pabbi taldi mörg skópör þegar við tókum upp úr kössunum.. jú kannski þegar ég sýni ykkur skógeymsluna og hvernig við leysum hana.

Að lokum má ég til með að segja ykkur frá einu allra mesta stússi sem ég hef nokkurn tímann vitað um. Við Arnór pökkuðum íbúðinni okkar í Aþenu niður í lok nóvember/byrjun desember og svo fórum við til London, og Íslands, ég til Suður Afríku, Arnór til Indónesíu og Florida og svo enduðum við saman hérna í Svíþjóð. Á meðan beið allt dótið í íbúðinni í Grikklandi. Í janúar flugu svo pabbi Arnórs og Biggi vinur hans til Munchen þar sem þeir sóttu sendiferðabíl og keyrðu alla leið niður til Ítalíu. Þaðan tóku þeir ferju í sólarhring yfir til Grikklands, keyrðu til Aþenu og sóttu allt dótið og lögðu svo af stað sömu leið til baka. Nema þeir keyrðu enn lengra, til Rostock í Þýskalandi, fóru í þriðju ferjuferðina sína til Trelleborg, sem er rétt fyrir utan Malmö. Þeir enduðu svo á því að vera hérna í Malmö í tvo daga áður en þeir skiluðu bílnum í Kiel í Þýskalandi (ennþá meiri akstur) og flugu svo loksins heim til Íslands. Ég veit ekki um meiri hetjur, að nenna öllum þessum akstri, nánar tiltekið 8 dögum á hraðbrautum og í ferjum, bara til að hjálpa okkur!

Alls kyns myndir frá síðustu dögum..

Heima er best og hérna líður okkur vel <3

Andrea Röfn

Fylgið mér á instagram – @andrearofn

 

#HUGUÐ

Skrifa Innlegg

Skilaboð 1

  1. Elísabet Gunnars

    12. March 2018

    Æ yndislegt ❤️ Til hamingju aftur! Hlakka til að koma í bolla bráðum ?