fbpx

LÍFIÐ Í SVÍÞJÓÐ

HREYFINGPERSÓNULEGTSVÍÞJÓÐ

Góðan daginn og gleðilegan sunnudag. Er ég ein um að finnast tíminn líða hratt þrátt fyrir ástand dagsins í dag? Við erum að vísu með eins árs orkubolta á heimilinu sem heldur okkur svo sannarlega á tánum frá morgni til kvölds, og lætur tímann bókstaflega fljúga. Eins og ég kom inn á í síðustu færslu eru aðgerðir sænska kerfisins við Covid-19 faraldrinum gjörólíkar aðgerðum annarra landa og eru skiptar skoðanir á þeim um allan heim. Allt er opið og úti á götu er varla að sjá að heimsfaraldur gangi yfir. Við Arnór tökum aðstæðunum að sjálfsögðu alvarlega og förum mjög varlega í einu og öllu.

Aþena Röfn er á svo skemmtilegu tímabili sem er á sama tíma það mest krefjandi hingað til. Hún hefur svo ótrúlega sterkar skoðanir á öllu án þess að geta tjáð þær með orðum og því eru skapsveiflurnar nokkuð miklar þessa dagana. Hún labbar um alla íbúð, ýtir á hvern einasta takka sem á vegi hennar verður og opnar allar skúffur sem hún kemst í. Svo er hún með radar á mömmu sinni sem má helst ekki vera of langt undan þessa dagana, og leitar bókstaflega að mér á heimilinu ef hún hefur ekki séð mig í smá tíma. Síðustu tvær vikur höfum við síðan notið þess að hafa Arnór heima á meðan æfingar hjá liðinu voru settar á hold.

Ég get ímyndað mér að þetta ástand reyni mikið á marga, það reynir allavega á okkur þrátt fyrir að við séum vön því að vera töluvert mikið heima fyrir. Hjá langflestum eru aðstæðurnar breyttar sem kallar á endurskipulagningu og aðlögun að deginum eins og hann er í dag. Það eru nokkur atriði sem ég hef tileinkað mér síðustu vikur og datt í hug að deila með ykkur.

Halda rútínu – Ég er með vekjaraklukku sem heitir Aþena Röfn og vekur mig alla morgna milli 6 og 6:30 með því að segja ‘HÆ’og brosa mjög skært til mín. Einhver ykkar hafa eflaust tekið eftir ‘HÆ’ þemanu á instagram hjá mér þessa dagana. Að vera með barn í rútínu gerir það töluvert einfaldara fyrir mig að halda henni sjálf, en önnur atriði eins og húðrútína og matarvenjur sitja ekki á hakanum þrátt fyrir breyttar aðstæður. Mér finnst mikilvægt að gera skil á dögunum, klæða mig á morgnanna (eins og Andrea talaði um hér) og reyna að halda hversdagsleikanum við þó að allir dagar séu svolítið eins og sunnudagar núna.

Heimaæfingar – Ég hef ekki æft neitt af viti síðan fyrir meðgöngu og var orðin ansi þyrst í hreyfingu þegar faraldurinn skall á. Þegar loka þurfti líkamsræktarstöðvunum heima hóf Indíana vinkona mín, sem er með GoMove Iceland, fjarþjálfun að heiman sex sinnum í viku fyrir hópana sem æfðu hjá henni í World Class. Allar æfingarnar eru settar þannig upp að auðvelt er að gera þær heima og án nokkurra áhalda. Ég æfi langoftast samferða live útsendingunni hennar og finnst mikil hvatning í því að vita á morgnanna klukkan hvað ég sé að fara að æfa og skipuleggja daginn þá í kringum æfinguna. Þessi veirufaraldur hefur allavega haft eitthvað jákvætt í för með sér fyrir mitt leyti, mér finnst loksins gaman að æfa aftur og ætla að lofa sjálfri mér að missa ekki dampinn þegar heimurinn kemst aftur í eðlilegt horf. Það er ennþá hægt að skrá sig hjá Indíönu fyrir áhugasama – sendið henni bara línu á instagram.

Útivera – langir göngutúrar og golf með Aþenu sofandi í vagninum var helst á dagskrá í síðustu viku sem gaf okkur mikla orku og gerði það að verkum að dagarnir flugu hjá. Þetta er auðvitað ekki í boði alls staðar og ég hugsa mikið til landanna þar sem er útgöngubann og einungis leyfilegt að fara í litla göngutúra innan 1 km radíuss frá heimilinu sínu. Við njótum á meðan þetta er í boði hjá okkur.

Andlega hliðin – Þessar aðstæður reyna töluvert á hjá flestum og mér finnst alveg jafn mikilvægt að huga að andlegu hliðinni eins og þeirri líkamlegu. Hjá mér er oft stutt í kvíðann yfir engu og öllu, en ég tek stuttar hugleiðslur reglulega yfir daginn þar sem ég stilli mig af, huga að önduninni og nefni í hljóði það sem ég er þakklát fyrir. Hugleiðsla þarf ekki að vera heilög eða taka langan tíma en getur gert svo mikið fyrir mann. Annað sem gerir mikið fyrir mig andlega er að heyra í fjölskyldu og vinum og þessa dagana er ég þakklátari en nokkru sinni áður fyrir tæknina.

Að lokum langar mig að minna ykkur á að detta ekki í samanburð við aðra á þessum tímum. Við sjáum svo lítinn part af heildinni hjá þeim sem við fylgjum á samfélagsmiðlum og þó að einn sé að baka, sá næsti að taka heimaæfingu og sá þriðji að taka til í geymslunni þýðir það ekki að þú verðir að gera slíkt hið sama! Öll erum við í mismunandi aðstæðum og með mismikla orku og tíma á höndum okkar. Margir tala um að nú sé tíminn til að gera það sem okkur hefur alltaf langað til en aldrei gefið okkur tíma í að gera, það er frábær áminning en á ekki við um alla akkurat núna, og það er líka bara allt í lagi.

Farið vel með ykkur!

Andrea Röfn

Fylgið mér á instagram @andrearofn

OUTFIT

Skrifa Innlegg

Hætta við svar

2 Skilaboð

  1. Elísabet Gunnars

    5. April 2020

    Hææææ …
    yndislegar myndir og vel valin orð.

  2. Indíana

    5. April 2020

    ❤️??