Mig langar svo að segja ykkur og sýna frá ferð sem við vinahópurinn fórum í á meðan ég var á Íslandi. Snillingarnir Ebba og Oddur sáu um að skipuleggja ferð á Iceland Bike Farm, bæ á Kirkjubæjarklaustri sem býður upp á skipulagðar fjallahjólaferðir um kindastíga á 11.000 hektara landsvæði þeirra. Á bænum er allur fjallahjólabúnaður til staðar og hægt að velja sér ólíka pakka eftir því hvað hentar hverjum hóp fyrir sig. Annan daginn fórum við í frábæra nokkurra klukkustunda göngu um svæðið ásamt Rannveigu, öðrum eigendanna, sem þekkir landið inn og út og leiddi okkur um þennan ævintýralega stað.
Hinn daginn fórum við í hellaskoðun ásamt Mumma, hinum eigandanum, og skoðuðum hella þar til við sátum öll innst inni í einum þeirra í kolniðamyrkri og grafarþögn. Þetta var mögnuð upplifun, að sjá og upplifa nánast ósnerta náttúru og að vera í algjöru myrkri um íslenskt sumar. Að hellaferðinni lokinni hjóluðum við um landið á fjallahjólum og hoppuðum í foss, borðuðum hjónabandssælu og lögðum okkur í íslenska mosann. Allt þetta í besta félagsskapnum – þvílíkur draumur!!
Á Bike Farm eru gistimöguleikar í tveimur uppábúnum kofum með gistipláss fyrir 3-4 einstaklinga. Við gistum þrjár í öðrum kofanum og sváfum eins og englar. Útsýnið úr kofanum yfir Geirlandsá setti punktinn yfir i-ið og ég get hreinlega ekki lýst fegurðinni nægilega vel, svo mikil var hún. Til viðbótar við gistikofana er innréttuð hlaða með eldhúsi, sófum, yoga aðstöðu, gufubaði, sturtum, og baðherbergjum. Andinn þarna er einstakur, svo afslappaður og fallegur.
Þetta er ekki auglýsing – mér finnst bara nauðsynlegt að þið vitið af þessum fallega og skemmtilega bæ sem bændurnir Rannveig og Mummi eiga og þjónustunni sem þau bjóða upp á! Meira hér.
Ég leigði bíl hjá Blue Car Rental meðan ég var á Íslandi og langar einnig að segja ykkur frá sumarleigunni þeirra, þar sem Íslendingum er boðið uppá góð leiguverð á bílum í sumar. Sumarleigan er kjörin fyrir þá sem langar í roadtrip á góðum bíl og svo finnst mér frábær hugmynd að leigja saman bíl ásamt vinum og splitta kostnaðinum sín á milli. Meira hér.
—
Andrea Röfn
Fylgið mér á instagram: @andrearofn
Skrifa Innlegg