*Uppfært*
Þvílík gleði Í gær, þann 19. desember afhenti ég vinningshafanum 240 þúsund króna gjafabréf í fallegustu verslunum landsins. Hjartað mitt er yfirfullt af gleði og mikið sem vinningurinn rataði á góðan stað. Vigdís Hauksdóttir er sú allra heppnasta og fékk ég kærastann hennar með mér í lið til að koma henni á óvart og sjá má viðbrögðin á facebook síðu Svart á hvítu.
Ég vil þakka ykkur öllum fyrir ótrúlegar og jákvæðar móttökur í leiknum sem og á Snapchat rás Svartahvitu Ég vildi óska þess að ég hefði getað glatt ykkur öll – en það kemur kannski síðar.
Einnig vil ég þakka mínum kæru samstarfsaðilum fyrir að gera þennan frábæra leik að veruleika – þið eruð best
**
Þá er komið að stærsta gjafaleik í sögu Svart á hvítu bloggsins sem fagnaði nýlega 7 ára afmæli sínu. Ég er full þakklætis fyrir ykkur, þennan risavaxna og trygga lesendahóp sem bloggið mitt hefur eignast á undanförnum 7 árum og ég er jafnframt þakklát fyrir samstarfsaðila mína sem gera mér kleift að sinna því sem ég hef ástríðu fyrir, að blogga. Til að sýna ykkur þakklæti efni ég til eins glæsilegasta gjafaleiks sem haldinn hefur verið.
Uppáhaldsmánuðurinn minn á árinu er án efa desember og það virðist vera orðinn órjúfanlegur partur af aðventunni að halda jólagjafaleik og mikið sem ég er hrifin af þeirri jólahefð, það er jú sælla að gefa en að þiggja og það erum við líklega flest sammála um. Í þetta skiptið á einn heppinn lesandi von á því að næla sér í 240.000 kr. gjafabréf í mínum uppáhalds verslunum sem eiga það sameiginlegt að vera fallegustu verslanir landsins. Í þeim má finna það allra besta þegar kemur að hönnun fyrir heimilið og er þetta gjafabréf draumur fyrir alla fagurkera.
Verslanirnar sem um ræðir eru Aurum, Epal, Kokka, Kúnígúnd, Línan, Lumex, Módern, Myconceptstore, Norr11, Rökkurrós, Scintilla og Snúran sem gefa samtals 240.000 kr. gjafabréf.
Ég tók saman brot af mínum uppáhaldsvörum frá verslununum til að þið getið byrjað að leyfa ykkur að dreyma um 240.000 kr. gjafabréfið. Á næstu dögum mun ég einnig heimsækja verslanirnar og sýna á Snapchat @svartahvitu jólagjafahugmyndir ásamt því hvað hægt er að fá fyrir gjafabréfið glæsilega.
// Vinsamlegast lesið færsluna til enda til að sjá leikreglur.
Aurum er ein af skemmtilegri verslunum landsins með fjölbreytt úrval af hönnun frá öllum heimshornum og vekur verslunin gjarnan athygli fyrir fallegar gluggaútstillingar og bíð ég alltaf spennt eftir jólaglugganum. Verslunin í Bankastræti er tvískipt: Aurum skart og Aurum Hönnun & Lífsstíll og er því hér að finna eitthvað fyrir alla, stóra sem smáa og unga sem aldna.
// Aurum er á Facebook, Instagram og einnig á Pinterest
Í Epal búa nokkrir af frægustu hönnuðum heims og sérhæfir verslunin sig í úrvali af gæðahönnun frá Norðurlöndum og víðar. Hér má einnig finna brot af því besta af íslenskri hönnun. Epal má finna í dag á fjórum stöðum, í Skeifunni, Laugavegi, Kringlunni og í Hörpu.
// Epal er á Instagram, Facebook og á Snapchat @epaldesign
Kokka á Laugavegi er ein besta verslun miðborgarinnar og er hreint ótrúlegt hve mikið vöruúrval kemst fyrir á fáum fermetrum. Kokka sérhæfir sig í öllu því sem þig gæti mögulega vantað í eldhúsið og leggja þau áherslu á vel hannaðar og vandaðar vörur. Kokka er einn af mínum uppáhalds og tryggustu samstarfsaðilum og fagnaði verslunin í ár 15 ára afmæli sínu.
// Kokka er á Facebook, Instagram og á Snapchat @kokkarvk
Kúnígúnd er sérverslun á Laugavegi, Kringlunni og á Akureyri sem býður upp á vandaða gjafavöru og ber þar hæst vörur frá dönsku hönnunarfyrirtækjunum Georg Jensen, Royal Copenhagen, Holmegaard og Bing & Gröndal. Kúnígúnd er ein af eldri og glæsilegri verslunum landsins og þarf vart að kynna hana fyrir ykkur né ömmu ykkar.
// Kúnígúnd er á Facebook, Instagram og á Snapchat @kunigund.island
Línan var stofnuð árið 1976 ótrúlegt en satt, en það eru ekki nema nokkur ár frá því að ég uppgötvaði þennan demant í Kópavoginum og kolféll fyrir versluninni enda úrvalið sérstaklega skemmtilegt. Hér má finna úrval af gjafavöru og húsgögnum og má nefna þekktu merkin House Doctor og Voluspa sem eru meðal vörumerkja.
// Línan er á Facebook, Instagram og sjá einnig á Pinterest
Í Lumex býr einn ástsælasti hönnuður allra tíma, Tom Dixon sjálfur sem tekist hefur að heilla upp úr skónum flesta hönnunaraðdáendur um heim allan. Lumex sérhæfir sig í lýsingu fyrir fyrirtæki og heimili en er einnig með fallega smávörudeild sem er heimsóknarinnar virði.
// Lumex er á Facebook og einnig á Pinterest
Húsgagna- og lífstílsverslunin Módern fagnaði nýlega 10 ára afmæli sínu og hélt upp á þann áfanga með því að flytja sig yfir í stórt og glæsilegt húsnæði í Faxafeni. Í Módern má finna tímalausa hönnun eða framúrstefnulega hönnun eins og hún gerist best hverju sinni með áherslu á gæði og má hér finna vörumerki á borð við sígilda ítalska Minotti og vinsæla Kähler.
// Módern er á Facebook
Myconceptstore er falleg verslun á Laugaveginum sem lætur mér alltaf líða eins og ég sé að rölta um stræti Parísarborgar. Hér er lögð jafn mikil áhersla á fallegt umhverfi og fallegar vörur og er það viss upplifun að heimsækja verslunina. Hér fást sérvaldar vörur fyrir heimilið, dásamlegar úlpur, skart, bækur og margt fleira.
// Myconceptstore er á Facebook
Danska hönnunar- og húsgagnafyrirtækið Norr11 er með glæsilegan sýningarsal og notalega verslun á Hverfisgötu beint á móti Þjóðleikhúsinu. Norr11 er ungt merki sem einsetur sér að búa til falleg húsgögn sem standast tímans tönn. Í Norr11 má einnig finna vinsæl merki á borð við Frederik Bagger og Playtype.
//Norr11 er á Instagram og á Facebook
Rökkurrós er einn af földu demöntum Reykjavíkur og er þessi fallega verslun staðsett í verslunarkjarnanum Grímsbæ. Rökkurrós er lífstílsverslun sem selur fatnað, fylgihluti og hönnunar- og gjafavöru. Vintage, bohemian og nútímalegar hönnunarvörur eru samblandan sem Rökkurrós hefur upp á að bjóða og má þar m.a. finna vinsæla merkið Love Warriors.
// Rökkurrós er á Instagram og á Facebook
Scintilla hefur verið fastagestur á Svart á hvítu blogginu undanfarin ár og verið lengi eitt af mínum uppáhaldsmerkjum. Scintilla er íslenskt hönnunarhús sem sérhæfir sig í hönnun og framleiðslu á textíl og gjafavöru fyrir heimili, hótel og fyrirtæki.
// Scintilla er á Instagram og á Facebook
Snúran er ein af glæsilegri verslunum landsins og jafnframt rekin af vinkonu minni Rakel Hlín sem ég kynntist í gegnum bloggið. Snúran er verslun í Síðumúla 21 sem kappkostar að bjóða upp á spennandi og fallegar vörur sem prýða heimilið. Ath. Snúran ólíkt hinum verslununum gefur 20.000 kr. gjafabréf fyrir Bitz leirstelli sem ég hef áður dásamað og dreymir sjálfri um að eignast.
// Snúran er á Facebook, Instagram og á Snapchat @snuran.is
Þá eru það mikilvægu atriðin:
Til að skrá sig í pottinn þarf að,
1. Skilja eftir athugasemd hér að neðan með fullu nafni (það þarf að skrolla mjög langt niður).
2. Fylgja Svart á hvítu á facebook.
3. Líka við og deila þessari færslu (stilla færsluna á public til að ég sjái að þú hafir deilt).
Á næstu dögum mun ég kíkja í heimsókn í verslanirnar og sýna góðar jólagjafahugmyndir á Snapchat ásamt því að hver veit nema þar verði hægt að næla sér í aukavinninga – ég mæli því með að fylgjast vel með.
Ég dreg út einn heppinn vinningshafa mánudaginn 19. desember.
Ég vil þakka ykkur fyrir samfylgdina á árinu sem er að líða og óska ykkur gleðilegra jóla.
x Svana
Skrifa Innlegg