fbpx

NÝJA HEIMA : 2 MÁNUÐUM SÍÐAR

HeimiliPersónulegt

Það er aldeilis kominn tími á uppfærslu hér á blogginu og því er vel við hæfi að sýna ykkur hvað er að frétta af íbúðinni góðu. Undanfarnar vikur hafa vægast sagt verið krefjandi hjá mér, en ég ákvað að skrá mig í skemmtilegasta nám í heimi ofan á fulla vinnu og framkvæmdir. Sitthvað hefur því setið á hakanum – en ég klára námið um helgina og kem því full force aftur í bloggheima með fullt af skemmtilegum hlutum til að deila með ykkur.

Að íbúðinni. Eins og þið vitið þá keyptum við okkar fyrstu íbúð í sumar og fengum afhent í byrjun september og ætluðum í lítilsháttar framkvæmdir, en núna er búið að skipta um öll loft í íbúðinni, einangrun og rakavörn, draga í nýtt rafmagn, brjóta niður vegg í svefnherbergi og stækka það örlítið, spartsla veggi og loft, skipta um ofna í stofu (í vinnslu), flísar á forstofugólfi voru teknar af og síðast en ekki síst þá fór parketið af í síðustu viku sem var aldeilis ekki planið.

Í upphafi þegar við keyptum íbúðina vissum við að gera þurfti við húsið að utan, sprauta í sprungur sem raki var að komast í gegnum. Eftir að búið var að gera við sprungurnar hætti ekki að koma raki inn í íbúðina á neðri hæðinni og kom þá í ljós að það lak ofnalögn í stofuveggnum okkar og veggurinn ásamt gólfefni við ofninn voru skemmd af raka. Og þá fór parketið af!

Ég er alveg ótrúlega spennt að sækja loksins ljósin mín í Lumex og setja upp þegar loftin verða orðin máluð.

Svefnherbergin

Einu skiptin sem Bjartur fær að hitta pabba sinn ♡

Núna er smiðurinn minn og hetjan mín loksins kominn með kærkomna aðstoð frá félaga sínum sem er málari sem aðstoðar okkur að mála loftin og klára að spartsla. Þetta hefur allt tekið dágóðann tíma þar sem Andrés er nánast algjörlega búinn að gera þetta aleinn eftir sína vinnu, með örlítilli aðstoð hér og þar ásamt því að pabbi minn er alltaf ómissandi í svona verkum. Næst verður því klárað að mála og þegar mér tekst loksins að finna parket sem uppfyllir strangar kröfur sem smiðurinn setur þá verður vonandi gólfið græjað eftir 1-2 vikur.

Ég viðurkenni að það er mjög freistandi að detta í rosa framkvæmdargír og græja líka baðherbergi og borðplötu í eldhús, en eins og ég taldi upp hér að ofan erum við að mestu leyti aðeins í því sem þurfti að gera ekki “af því bara” og þar sem við unnum svo sannarlega ekki í lottói þá er margt sem fær að bíða betri tíma.

Ég get að minnsta kosti ekki beðið eftir að þetta verkefni klárast og við getum flutt inn.

// Fylgstu einnig með á Instagram @svana.svartahvitu 

BRASS BY HAF STUDIO -

Skrifa Innlegg