fbpx

KLASSÍSK HÖNNUN: SJÖAN EFTIR ARNE JACOBSEN

Hönnun

Nú fer hver að verða síðastur að taka þátt í afmælisleik Trendnets þar sem einn heppinn lesandi fær Sjöu í vinning – smelltu hér til að skrá þig í pottinn en einnig er hægt að taka þátt á Instagram síðu Trendnets til að auka líkurnar.

Í tilefni 7 ára afmælis Trendnets gefum við heppnum lesanda veglega afmælisgjöf, Sjöu eftir Arne Jacobsen sem fæst í Epal.

Í tilefni þess þykir mér tilvalið að skrifa færslu um þessa klassísku hönnun sem er aldeilis eftirsótt hjá þeim sem kunna vel að meta fallega og klassíska hönnun. Sjöan er mest seldi stóll í sögu Fritz Hansen og hefur selst í fleiri en 7 milljónum eintaka sem gerir hann líklega einn mest selda stól í sögu húsgagnahönnunar.

Arne Jacobsen hannaði Sjöuna árið 1955 en á meðal hans þekktustu verka má nefna Eggið og Svaninn sem í dag eru álitin sem táknmynd skandinavískar hönnunar.

“Arne Jacobsen (1902-1971) er þekktur sem einn áhrifaríkasti arkitekt sem uppi hefur verið og meistaraverk hans sem arkitekt eru meðal annars SAS hótelið í Kaupmannahöfn þar sem hann hannaði einnig m.a. teppi hótelsins, lampa, gluggatjöld, borðbúnað og hnífapör. Hæst ber þó stólana Svaninn og Eggið, sem báðir voru sérstaklega hannaðir fyrir hótelið. Enn í dag má sjá húsgögn Arne Jacobsen víða í byggingunni og eitt herbergi hótelsins, nr. 606 er varðveitt með öllum upphaflegum búnaði.”

Arne Jacobsen er talinn hafa verið mikill fullkomnisti og afar háar væntingar hans til framleiðslufyrirtækja á húsgögnum sínum leiddi hann á fund með Fritz Hansen árið 1934. Sá fundur markaði upphaf af löngu og afar farsælu samstarfi, en enn þann dag í dag sér Fritz Hansen um að framleiða upphaflega hönnun Arne Jacobsen.

“Í verkum hans fléttast saman áhrif frá fagurfræði alþjóðlegs módernisma og danskri hefð. Hann teiknaði m.a. húsgögn, vefnað, veggfóður og borðbúnað en mörg af frægustu húsgögnum hans voru upphaflega hönnuð sem hluti af einstökum byggingarverkefnum. Áhugavert er að bera byggingar Arne saman við húsgagnahönnun hans, þar sem tilfinning höfundarins fyrir léttleika og ótrúlega næmt formskyn hans skín í gegn í hverjum hlut.

Arne Jacobsen fæddist í Kaupmannahöfn árið 1902. Hann ólst upp á yfirskreyttu heimili vel stæðra foreldra í Kaupmannahöfn og vakti snemma athygli fyrir góða teiknikunnáttu. Á unglingsárum komst hann í kynni við bræðurna Mogens og Flemming Lassen, sem báðir urðu þekkt nöfn í danskri byggingarlist. Þau kynni urðu til þess að Arne ákvað að hefja nám í arkitektúr en hugur hans hafði fremur staðið til myndlistarnáms. Á námsárunum hlaut Arne sína fyrstu viðurkenningu fyrir hönnun stóls fyrir danska sýningarskálann á Heimssýningunni í París árið 1925, sem kennari hans, Kay Fisker, teiknaði…”

Ég mæli með fyrir áhugasama hönnunarunnendur að lesa ítarlega grein um Arne Jacobsen hjá Listasafni Reykjavíkur sem tekin var saman í tilefni 100 ára fæðingarafmælis hönnuðarins árið 2002. 

Sjöuna þarf vart að kynna en það er áhugavert að lesa sér til um Arne Jacobsen sem var merkilegur hönnuður og hönnun hans heillar enn unga sem aldna. Sjöan er klassísk og stílhrein svo að hún hentar öllum heimilum og er einnig fáanleg í ótalmörgum útgáfum.

Til hamingju með 7 ára afmælið Trendnet !

// Fylgstu einnig með á Instagram @svana.svartahvitu 

FALLEGT ÍSLENSKT HEIMILI : ALLT DÖKKMÁLAÐ HJÁ FAGURKERA

Skrifa Innlegg