fbpx

KLASSÍSK HÖNNUN : SEBRA BARNARÚMIÐ

BarnaherbergiHönnunKlassíkSamstarf

Hreiðurgerðin hefur tekið yfir á okkar heimili en með aðeins 3-5 vikur í komu barnsins er orðið tímabært að gera barnaherbergið huggulegt. Í samstarfi við verslunina Epal og danska barnavörumerkið Sebra Interiør fékk ég að velja mér draumabarnarúmið sem var efst á óskalistanum þegar ég átti son minn fyrir 6 árum síðan og hefur rúmið ekki haggast af óskalistanum síðan þá. Hér má sjá færslu sem ég skrifaði um Sebra rúmið nokkrum dögum fyrir fæðingu sonar míns og hér þegar það voru um 2 mánuðir í komu hans, það var augljóslega ofarlega í mínum huga þá og það kom því ekkert annað til greina en að velja loksins Sebra rúmið fyrir komu dótturinnar.

Sebra rúmið á sér skemmtilega sögu sem mig langar að segja ykkur frá, en á næstu vikum kem ég til með að sýna ykkur barnaherbergið okkar og nýja rúmið sem við vorum að setja saman.

Sebra Interiør er í dag einkaréttshafi af þessu klassíska rúmi sem hannað var árið 1942-43 af danska arkitektnum Viggo Einfeldt og hét rúmið lengst af Junoseng /Juno bed og þekkja margir það enn í dag aðeins undir því nafni enda um 77 ára gömul hönnun sem gengið hefur kynslóða á milli. Rúmið seldist gífurlega vel til að byrja með en það var sérstakt fyrir það leyti að rúmið “vex með barninu”. Byggingarefni var þó af skornum skammti í Danmörku á þessum tíma og erfitt var að anna eftirspurn (sem var mjög mikil) og hætti rúmið í framleiðslu uppúr árinu 1955 stuttu eftir andlát hönnuðarins.

Hönnunin á rúminu er tímalaus og var byggð á þeirri hugmynd að rúmið ætti að vaxa með barninu og vera öruggt. Hönnun rúmsins var mjög sérstök og auðþekkjanleg og þótti einnig á þeim tíma mjög einstakt að áherslan væri á öryggi fyrir barnið og var það líklega eitt fyrsta barnarúmið í heiminum þar sem hönnunin snérist fyrst og fremst um öryggi. Þetta fallega rúm varð fljótlega mjög vinsælt og er í dag talið vera danskt hönnunartákn.

Sebra Interiør eignaðist árið 2016 einkaréttinn á upprunalega Juno rúminu og kynnti uppfærða útgáfu af klassíska og fallega rúminu undir nafninu Sebra rúm – rúmið sem vex með barninu.

Sebra rúmið er einstakt fyrir þær sakir að hægt er að lengja rúmið og breyta rúminu úr ungbarnarúmi yfir í barnarúm (155 cm) þannig nýtist rúmið í mörg ár sem er ekki aðeins gott fyrir umhverfið heldur sparar einnig pening til lengra tíma litið. Eftir að Sebra tók yfir framleiðsluna þá uppfærðu þau rúmið til að mæta öllum nútímaöryggisstöðlum en ásamt því var bætt við þeim möguleika að hækka rúmbotninn svo að á fyrstu mánuðunum er hægt að hafa barnið ofar í rúminu sem minnkar álag á (sérstaklega móður) að þurfa ekki að lyfta barninu hátt úr rúminu á næturnar og veitir meira öryggi.

Ég veit fyrir mína parta að ég gæti ekki verið ánægðari með að Sebra rúmið sé loksins orðið okkar. Þegar ég átti son minn fyrir 6 árum síðan vorum við virkilega að halda að okkur fjárhagslega og enduðum með gamalt barnarúm þar sem ekki aðeins ískraði í hliðinni sem draga þurfti upp og niður á hverri nóttu heldur þurfti ég einnig að teygja mig langt ofan í rúm til að lyfta barninu upp verandi nýkomin úr keisaraskurði. Þegar ég horfi tilbaka voru það svo sannarlega ekki ánægulegar stundir og ég lofaði mér að það fengi ekki að gerast aftur ♡

// Færslan er unnin í samstarfi við verslunina Epal og Sebra Interiør. 

Í dag er Sebra rúmið framleitt í nokkrum fallegum litum ásamt með viðaráferð, til að skoða úrvalið getið þið smellt hér og farið þá yfir í vefverslun Epal þar sem þið getið einnig skoðað allt úrvalið frá Sebra. 

Ég get ekki beðið eftir að klára að græja barnaherbergið og hlakka mikið til að sýna ykkur myndir. Ég vona að þið hafið haft gaman af því að fræðast um þessa klassísku og fallegu dönsku hönnun.

// Fylgstu einnig með á Instagram @svana.svartahvitu

NÝ & SPENNANDI VEFVERSLUN! RAMBA

Skrifa Innlegg