fbpx

HVAÐ ER SVONA MERKILEGT VIÐ AALTO VASANN FRÁ IITTALA?

HönnunKlassíkPersónulegt

 

Aalto vasann frá Iittala þekkja flestir en Iittala vörur virðast vera staðalbúnaður á heimilum okkar sem höfum gaman af hönnun enda afar fallegar og vandaðar vörur. Ég ákvað að taka saman smá fróðleiksmola um þennan fagra vasa fyrir áhugasama, það er nefnilega ekki alveg að ástæðulausu að hann sé svona gífurlega vinsæll. Í ár fagnar hann einnig 80 ára afmæli sínu og í því tilefni verður hann framleiddur í nýjum lit, nostalgískum emerald grænum.

Saga finnska hönnunarfyrirtækisins Iittala hófst árið 1881 þegar glerverkstæðið var stofnað í litlu þorpi sem hét Iittala. Það var þó ekki fyrr en uppúr árinu 1920 sem fyrirtækið varð að því sem við þekkjum það í dag og hóf það þá framleiðslu á listrænum glermunum fyrir heimilið með listamenn eins og Alvar Aalto í fararbroddi. Aalvar Aalto hannaði vasann ásamt eiginkonu sinni Aino Aalto árið 1936 fyrir heimssýninguna í París. Tillagan sem Aalto sendi inn voru skissur af vösum og skálum í lífrænu formi sem hægt væri að nota á marga vegu, t.d. sem bakka, ávaxtaskálar eða ílát undir kaktusa og annað. Formin voru innblásin frá þeim fjölmörgu stöðuvötnum í Finnlandi, enda landið gjarnan kallað þúsund vatna landið og útlínur þess minna gjarnan á útlínur Aalto vasanna. Hugmyndin þótti mjög djörf á þessum tíma og sló aldeilis í gegn á heimssýningunni í París árið 1937 en þar voru sýndir 10 hlutir úr línunni, allt frá grunnum diskum til stærðarinnar vasa um meter háann. Árið 1937 sáu Aalto hjónin einnig um innanhússhönnun Savoy veitingarstaðarins í Helsinki og voru nokkrir hlutir frá heimssýningunni valdir fyrir staðinn, þar á meðal 16 cm hái Aalto vasinn sem var vinsælastur, fljótlega festist nafnið Savoy við vasann og þekkja margir hann undir því nafni enn í dag þrátt fyrir að Iittala tali um Aalto vasa.

Aalto vasarnir eru enn þann daginn í dag handgerðir af mjög færu handverksfólki í Iittala verksmiðjunni en það krefst margra ára þjálfunar að geta blásið Aalto vasann á fullnægjandi hátt. Það leit allt út fyrir að um 1960 yrði framleiðslu á vasanum hætt enda aðeins tveir litir ennþá í framleiðslu í einni stærð og salan gekk ekki nægilega vel. Aalto vasinn varð þó endurvakinn eftir að Aalvar Aalto lést í lok áttunda áratugarins (1976) og varð fljótlega gífurlega vinsæll og er í dag ein frægasta finnska hönnunin sem gerð hefur verið og hönnunartákn.

Aalto vasarnir eru munnblásnir á hverjum degi í Iittala verksmiðjunni, það tekur 7 handverksmenn, 12 ólík stig, 1100 °C og 10 klst til að búa til einn vasa.

Þar hafið þið það! Ég held ég kaupi mér blómvönd í minn vasa á morgun:)

ARNA & SIGVALDI // BAÐHERBERGIÐ FYRIR & EFTIR

Skrifa Innlegg

2 Skilaboð

 1. Thelma Rún

  28. February 2016

  En ótrúlega áhugavert og gaman að lesa þetta! Ætla að splæsa í blóm í dag líka :)

  • Svart á Hvítu

   28. February 2016

   Og ef við erum extra heppnar þá fáum við kannski blómvönd í tilefni dagsins frá sumum…:)