Janúar er fullkominn mánuður í mínum huga til að byrja að skipuleggja eða skoða hugmyndir að breytingum fyrir heimilið. Hvort sem ráðast eigi í meiriháttar breytingar og lagfæringar eða einfaldlega bara að mála. Þessar myndir af breytingunum hjá Rakel vinkonu minni eiga svo sannarlega eftir að gefa ykkur góða hvatningu fyrir heimilisframkvæmdir – einmitt það sem ég þurfti að skoða til að koma mér í gang!
Rakel Rúnars er ekki aðeins ein af mínum bestu vinkonum heldur eru líklega margir tryggir lesendur sem kannast við hana frá byrjun bloggsins Svartáhvítu. Hún er verkfræðingur að mennt og mikil smekkdama og býr hér í Hafnarfirðinum ásamt Andra Ford, sjúkraþjálfara og kírópraktor (sem opnaði nýlega Kírópraktorstofuna í Kringlunni sem ég mæli með) ásamt tveimur börnum, þeim Emil og Evelyn ♡
Skoðum ótrúlega breytingu á efri hæðinni – fyrir & eftir framkvæmdir.
Hvað hafið þið búið hér lengi? Við fluttum inn sumarið 2017 svo ca tvö og hálft ár.
Hvað er húsið stór? Í kringum 200 m2.
Segðu okkur í stuttu máli frá framkvæmdunum, hvað var það helsta sem þið breyttuð? Við tókum alla efri hæðina í gegn þar sem eru þrjú svefnherbergi, baðherbergi og sjónvarpsstofa. Við skiptum um alla glugga í húsinu, rifum panelinn úr loftinu og klæddum loftið upp á nýtt og settum innbyggða lýsingu. Endurgerðum nokkra veggi, endurnýjuðum allt rafmagn, færðum ofna til, settum nýjar hurðir og gólfefni. Létum smíða nýjan stiga og breyttum handriðinu. Við endurnýjuðum líka baðherbergið.
Var eitthvað sem kom á óvart við framkvæmdirnar? Sem betur fer ekki mikið en þó alltaf einhverjar hindranir sem þarf að leysa úr. Við ætluðum að setja hita í gólfið en platan milli hæða var ekki nægilega einangruð til að geta það og ekki möguleiki á að leysa það svo við settum bara nýja ofna í staðinn og færðum þá til. Það var léttir að sjá að loftið var allt heilt og enginn raki þar, þangað til við tókum loftið niður á baðherberginu og sáum ekki fallega hluti. Þannig það fór meiri tími og vinna í það heldur en reiknað var með í fyrstu.
Gerðuð þið mikið sjálf eða fenguð þið aðstoð? Nei við gerðum ekki mikið sjálf heldur fengum menn í verkið.
Gerðir þú fjárhagsáætlun, ef já – stóðst hún? Ég byrjaði á einhverri fjárhagsáætlun en var fljót að grafa hana. Þetta kostar að sjálfsögðu alltaf meira en maður vonar í byrjun.
Þegar þú lítur til baka, er eitthvað sem þú hefðir viljað gera öðruvísi? Já betra skipulag og undirbúning áður en við byrjuðum. Við ákváðum í miklu flýti að byrja verkefnið þar sem það hentaði á þeim tíma og við fengum góða menn í verkið.
Við höfðum einn dag til að tæma efri hæðina og flytja fjögurra manna fjölskylduna í herbergið á neðri hæðinni áður en það átti að byrja að rífa allt út. Svo í kjölfarið tók við mikið stress við að hanna allt, velja gólfefni, panta hurðir, ákveða flísar og allt fyrir baðherbergið. Svo þurfti að smíða nýjan stiga sem tekur sinn tíma sem tafði verkið. Ég gerði mér heldur enga grein fyrir öllu rykinu sem fylgdi og þar sem við bjuggum á neðri hæð hússins á meðan á framkvæmdum stóð hefði verið sniðugt að einangra efri hæðina betur. Ég man það næst. En maður lærir af hverju verkinu og við förum mikið betur undirbúin í næsta verkefni.
Er efri hæðin 100% tilbúin núna? Nei það vantar ennþá hurðir fyrir geymsluna sem er undir súðinni og nokkra rafmagnstengla. Þessi litlu smáatriði sem maður dregur endalaust. Svo erum við að bíða eftir gardínum (erum með bráðabirgða gardínur núna sem við áttum) og eigum eftir að finna rétta ljósið yfir stigann.
Breytingarnar á baðherberginu eru ótrúlegar!
Lumar þú á ráði handa þeim sem stefna á breytingar á heimilinu? Skipulag nr 1,2 og 3. Það þarf einnig að hafa í huga að oft þarf að panta hluti að utan sem getur tekið margar vikur og tafið verkið svo það er gott að vera tímanlega í hlutunum. Svo er þetta gríðarlegt þolinmæðisverk að standa í framkvæmdum, allt tekur meiri tíma en maður áætlar svo gott að hafa það í huga.
Hvað er næst á dagskrá? Við erum að byrja á baðherberginu á neðri hæðinni núna í febrúar. Svo höfum við nýtt sumrin í húsið að utan og lóðina og höldum því áfram í sumar.
Hvað er það besta við breytingarnar? Loftið brakar ekki lengur þegar það er vont veður og við erum blessunarlega búin að skipta út ítölsku Ticino tenglunum. Litlu hlutirnir:)
Ó svo fallegt! Ég er að elska þessa breytingu og það verður svo gaman að fylgjast með framhaldinu♡ Ef þú ert með spurningu varðandi framkvæmdirnar eða vilt vita hvaðan eitthvað er, endilega skildu eftir komment hér að neðan og ég / eða Rakel svörum.
Takk Rakel mín fyrir að gefa mér leyfi til að deila myndunum.
// Fylgstu einnig með á Instagram @svana.svartahvitu
Skrifa Innlegg