Ég átti mjög notalega stund með vinkonum í lok síðustu viku en við hittumst á Kasbah Café Reykjavík sem er falinn demantur í miðborginni. VÁ þvílík fegurð sem þessi staður er ♡ Kasbah er alvöru marokkóskur staður sem býður upp á hádegismat, kvöldmat ásamt kaffi/te og kökusneiðum og er staðsettur við gömlu höfnina í Reykjavík. Kasbah er hannaður af snillingunum hjá HAF Studio og þrátt fyrir að ég sjálf hafi ekki komið til Marokkó þá líður mér eins og ég hafi fengið smá kynningu af þessu einstaka landi með heimsókn á Kasbah – maturinn var dásamlegur, bragðmikill og alveg ekta marokkóskur og umhverfið er með því fallegra. Litirnir, tilfinningin og öll umgjörð staðarins er upp á tíu – starfsfólkið er yndislegt og hér eru miklar líkur á því að eigandinn sjálfur beri fram matinn í sínum fallegu marokkósku klæðum. Ég hrífst mjög af litlum fjölskyldureknum stöðum þar sem þú finnur að hjartað og stolt var allt sett í verkið og þetta er einmitt þannig staður.
Eigandi Kasbah var svo góður að bjóða okkur Karitas og Hörpu í hádegisverð, en Karitas kom að hönnun staðarins ásamt teyminu hjá HAF Studio og rekur jafnframt verslun sína HAF Store við hlið Kasbah. Ég mæli svo sannarlega með heimsókn, þetta er einn af földu demöntum miðborgarinnar. Sjáið litina og hönnunina, það kemur varla á óvart að ég hafi bráðnað smá þegar ég kom þangað inn ♡
Myndirnar tók Gunnar Sverrisson –
Hvernig var ykkar nálgun hjá HAF Studio að svona framandi veitingarstað? “Við lögðum upp með í hönnuninni að allt yrði handgert í Marrakech til að fanga stemninguna sem best. Áður en við tókum verkefnið að okkur höfðum við heimsótt Marrakech og vissum því hvað menningin og matargerðin hefur uppá að bjóða.
Við fórum svo í ferð út þar sem við komum smíðateikningum á handverksmenn úti í Marrakech og handvöldum svo alla muni inn á mörkuðum í Medina. Litavalið hjá Kasbah einkennist svo af grunnlitum borgarinnar, þessi rústrauði og sandguli eru einkennislitir Marrakech og er það í lögum borgarinnar að öll hús séu máluð í þessum litatónum.
Við erum mjög ánægð með útkomuna og margir gestir sem heimsækja staðinn segja að það sé eins og að fara frá Reykjavík til Marrakech, þá er markmiði okkar náð.” Segir Hafsteinn Júlíusson hjá HAF Studio.
Sjáið hvað staðurinn er einstaklega myndvænn, eitthvað segir mér að við eigum eftir að sjá mikið af heimsóknum frá þessum stað á Instagram:) Öll húsgögn og skrautmunir voru handvalin inn á mörkuðum í Medina og gaman að heyra að litavalið einkennist af grunnlitum borgarinnar. Þetta gerist ekki meira ekta – það eitt er víst, jafnvel vínið er sérinnflutt frá Marokkó. Ég get svo sannarlega mælt með heimsókn hingað. Takk fyrir mig Kasbah Café ♡ Og bravó HAF Studio fyrir hönnunina á þessum einstaklega fallega stað.
// Fylgstu einnig með á Instagram @svana.svartahvitu
Skrifa Innlegg