fbpx

DJARFT LITAVAL Á FALLEGU HEIMILI Í DUBLIN

Heimili

Í dag kíkjum við í heimsókn á dálítið spennandi heimili utan Skandinavíu – alla leið til Dublin þar sem finna má þetta glæsilega heimili með djörfu litavali. Þrátt fyrir sterka litapallettu verður þó falleg heild þar sem skrautlegar gólfflísar prýða öll gólf ásamt því að hurðir og allir listar eru málaðir í sömu litum og veggir. Útkoman er svo sannarlega eitthvað fyrir augun og alltaf skemmtilegt að sjá nýja nálgun á hönnun heimila. Svefnherbergið er í látrausri litapallettu og er jafnframt uppáhalds herbergið mitt, það er aðeins meiri ró yfir því. Hvað finnst ykkur?

Innlitið birtist í nýju bresku hönnunartímariti Design Anthology sem fallar um list, arkitektúr, ferðalög og stíl. Ég vonast til að rekast á það einn daginn í hillum bókaverslana, ég elska að uppgötva ný tímarit.

Kíkjum á þessa litadýrð…

Anddyrið er einstaklega skemmtilegt, skrautlegar gólfflísar og blómaveggfóður á stiganum. Blái liturinn er svo notaður til að gefa rýminu aðeins meiri dýpt.

Við erum ekki vön að skoða írsk heimili hér á blogginu, en þau eru ekkert ósvipuð þeim bresku sem þekkt eru fyrir að fara ótroðnari slóðir en þau sænsku t.d. og taka meiri áhættu þegar heimilin eru innréttuð. Þetta hér er gott dæmi þrátt fyrir að vera í það mesta þegar kemur að skrautlegum stíl.

Myndir // Design Anthology // Barbara Corsico

Hönnunin var í höndum Kingston Lafferty Design stofunnar – ef þið viljið vita meira um þetta heimili og hönnunina smellið þá hér. Rétt upp hönd sem væri til í svona litadýrð á heimilið!

// Fylgstu einnig með á Instagram @svana.svartahvitu 

ÓMÓTSTÆÐILEGT STELL FRÁ BITZ

Skrifa Innlegg