fbpx

ANNA KRISTÍN & REYNAR: TAKA HEIMILIÐ Í GEGN FRÁ A-Ö

DIYHeimili

Ég hef undanfarnar vikur fylgst spennt með framkvæmdum hjá smekkdömunni Önnu Kristínu Óskarsdóttur og unnusta hennar Reynari Ottossyni en þau festu kaup á sinni fyrstu íbúð í sumar. Þau hafa staðið í ströngu í framkvæmdum og íbúðin er í dag orðin fokheld og heilmikil uppbygging sem tekur við – sem er jú skemmtilegasti parturinn að okkar mati!

Anna Kristín ætlar að leyfa okkur að fylgjast með framkvæmdunum frá A-Ö hér á Svart á hvítu og ég get hreinlega ekki beðið eftir að sjá fleiri myndir og einnig fá að heyra hverjar hennar hugmyndir eru varðandi val á innréttingum, gólfefnum, liti á veggjum og öllu þar á milli. Þetta verður eitthvað!

Við byrjum á því að deila með ykkur nokkrum framkvæmdarmyndum ásamt myndum af íbúðinni fyrir framkvæmdir svo við getum farið að velta fyrir okkur öllum möguleikunum sem eru ó svo margir.

Dásamleg mynd af systrunum vera að stytta sér stundir á meðan foreldrarnir vinna.

 

Anna Kristín og Reynar voru eins og svo margir föst á leigumarkaðnum í mörg ár og því var mikil gleði þegar þeim tókst að festa kaup á sinni fyrstu íbúð sem þau stefna á að flytja inn í á næstu vikum.

Anna Kristín er menntuð sem ljósmyndari og starfar við fjölbreytt verkefni ásamt því að fljúga um loftin blá sem flugfreyja. Hún er þekkt fyrir fallegan og afslappaðan stíl, oftast með kaffi í hönd & stundum kampavín. En hún kann svo sannarlega að njóta lífsins.

// Hér að neðan má sjá myndir af íbúðinni fyrir framkvæmdir. 

Hvað eruð þið búin að gera hingað til?

Við erum búin að vera á fullu að rífa niður þannig ekki mikið sem er búið að gera sem er sjáanlegar breytingar en vonandi fer að styttast í uppbygginguna svo hægt sé að sjá einhverjar breytingar. Við þurftum að taka af öllum gólfum þar sem það voru örugglega 7 mismunandi gólfefni á gólfunum, tókum niður alla skápa sem voru fyrir utan í hjónaherberginu,
tókum niður vegg sem var á milli stofu og barnaherbergis (heitir húsbóndaherbergi á teikningunni haha) og erum að færa eldhúsið þangað inn og erum núna að fræsa fyrir öllum lögnum og rafmagni í eldhúsið og fylla inní hurðagötin í aðalrýminu (stofa/eldhús).

Kom eitthvað ykkur á óvart?

Nei í rauninni ekki, við vissum þegar við keyptum þessa íbúð að þetta yrði mikil vinna og vorum alveg spennt fyrir því að geta loksins farið í framkvæmdir á okkar eigin eign.

Hafið þið getað gert mest sjálf eða þurft að nýta ykkur iðnaðarmenn?

Við erum að gera nánast allt sjálf með hjálp góðra vina og fjölskyldu. Við erum svo heppin að vera með marga yndislega iðnaðarmenn í kringum okkur sem hafa verið að rétta okkur hjálparhönd og erum við þeim óendanlega þakklát. Við þurftum þó að fá kjarnaborara til að gera gatið fyrir lögnunum frá íbúðinni okkar niður í kjallarann en það þurfti alveg risa græju í það. Svo fáum við aðstoð bæði pípara og rafvirkja í flóknustu verkin.

Hvenær stefnið þið á að flytja inn?

Það fer smá eftir við hvern er talað hahaha……. Ég sá alltaf fyrir mér að fara inn í byrjun október en Reynar segir að við ættum að gera ráð fyrir að vera komin fyrir jól. Hann er að gera mestu vinnuna í íbúðinni þannig ætli það sé ekki meira að marka hann hahaha. 

Eruð þið byrjuð að skoða innréttingar og gólfefni?

Við erum svona aðeins byrjuð og vitum hvað við viljum en við eigum eftir að kynna okkur það nánar, skoða hjá fyrirtækjum og fá tilboð. Þetta gerðist allt svo hratt og óvænt að við höfum ekki náð að setjast almennilega niður yfir það. 

Við hlökkum til að deila með ykkur fleiri framkvæmdarhugmyndum og myndum hér á blogginu ♡ Þið getið einnig fylgst með Önnu Kristínu á Instagram @annakristinoskars þar sem hún deilir í story framkvæmdum, lífinu og því sem heillar augað.

 

// Fylgstu einnig með á Instagram @svana.svartahvitu 

KONUNGLEG SMÁATRIÐI Á GLÆSILEGU HEIMILI

Skrifa Innlegg