Ég verð alltaf jafn glöð þegar mér tekst að finna innlit sem eru ólík þessum hefðbundnari, þar sem húsráðendum hefur tekist að skapa sinn persónulega stíl með fallegu litavali og vel völdum hlutum úr ólíkum áttum. Hér er einmitt þannig heimili, staðsett á efstu hæð í gömlu fjölbýlishúsi sem hefur verið gert upp þó með athygli fyrir arkitektúr og uppruna hússins sem er frá 1935. Ég veit vel að stundum hljóma ég eins og biluð plata, en veitið því athygli hvað gangurinn er fallegur málaður svona bleikur og alveg upp í loft, þó er ég viss um að flestir litir hefðu komið vel út þegar loftið fær að vera með.
Það sem gerir íbúðina helst ólíka öðrum eru allir dökku litirnir sem helst njóta sín í mottum, gardínum, gólfefnum og listaverkjum. Langt frá því að vera hefðbundin skandinavísk íbúð þrátt fyrir það að vera staðsett í hjarta Stokkhólms.
Ég er sérstaklega hrifin af þessari mynd og þá helst af uppstillingunni ofan á arninum þó svo að hann sjálfur sé einnig mjög fallegur.
Vel vandað litaval þar sem litirnir draga fram það besta úr hinum.
Hlýlegt og notalegt barnaherbergi.
Myndir via Historiska Hem
Ég vil þakka ykkur fyrir ótrúlega jákvæð viðbrögð við færslunni sem ég birti á facebook síðu Svart á hvítu í gær og læt hana fljóta með hér líka.
“Ég las vel tímabæra færslu í kvöld frá bloggkollega mínum í Svíþjóð – Trendenser um það hversu fátítt það er orðið að lesendur skilji eftir spor á bloggsíðum sem þeim líkar við.
Að sitja við tölvuna alla daga ársins í leit að fallegu efni sem veitir innblástur til að deila með lesendum sem sækja til okkar innblástur – án nokkurs gjalds. En gjaldmiðillinn er í raun sá að fá að heyra í lesendum, að það sé skilið eftir spor, smellt á like hnappinn eða á hjartað sem er fyrir neðan hverja færslu.
Ég er með nokkur þúsund lesendur sem lesa SVART Á HVÍTU og ég reyni einnig mitt allra besta að svara hverjum og einum sem sendir mér póst í leit að ráðleggingum en fjöldinn sem smellir á like hnappinn er í engum takti við fjöldan sem les færslurnar mínar
Mér finnst ég því ekki biðja um mikið þegar ég segi ykkur hversu gaman mér finnst að heyra frá ykkur – í alvöru!”
Skrifa Innlegg