Ég hef verið mikið fjarverandi bæði hér og á Instagram síðustu vikur. Við vorum með gesti alla síðustu viku, fyrst fjölskylduna hans Arnórs og svo kom pabbi í nokkra daga og auðvitað hefur það áhrif á rútínuna manns. En ég hef aðallega verið fjarverandi í huganum. Svona tímapunktur þar sem ég er algjörlega tóm af innblæstri, finnst ég „bara“ vera ólétt og ekkert annað vera í gangi hjá mér. Ég hef áður skrifað um tilfinninguna að vera ekki skóla eða fullri vinnu þar sem tíminn er „ákveðinn“ fyrir mann á einhvern hátt og örygginu sem því fylgir. Innst inni veit ég samt að það er hollt og þó mér finnist ekkert vera fyrir stafni akkurat núna, ef ég leyfi mér að taka þannig til orða, þá hefur örugglega aldrei verið meira fyrir mig að hugsa um og huga að.
Mynd: Sara Björk Þorsteinsdóttir
Varðandi bloggið og Instagram er ég frá upphafi meðgöngunnar búin að passa mig á að vera ekki týpan sem fjallar eingöngu um hana. Það hefur algjörlega komið niður á efninu sem ég set inn og eru nokkrar ástæður fyrir því..
- Ég er yfirleitt með föt á heilanum, fallega skó, fylgihluti og slíkt. Þegar maður er hins vegar hættur að passa í 90% af fötunum sínum er ekki næstum því jafn gaman að pæla í dressum, hvað er nýtt hverju sinni og svo framvegis. Þetta er líka það efni sem ég er duglegust að skrifa um hér og birta á mínum miðlum.
- Eina sem ég skoða þessa dagana er barnadót. Barnaföt, barnarúm, barnabílstóll, barnavagn og ég gæti lengi haldið áfram.
- Orkan mín er ekki sú sama og áður og þar af leiðandi er ég ekki á jafn miklu stangli og ég er vön, og í rauninni minna til að segja og sýna frá.
Við Arnór áttum mjög gott spjall um helgina, hann hugsar hlutina alltaf svo rökrétt og sleppir því að flækja þá. Hann benti mér á að það er stórkostlegur hlutur í gangi í lífi okkar beggja. Það er lítill einstaklingur er að vaxa inni í mér og eftir minna en 4 mánuði mætir hún á svæðið. Þetta er lífið í dag og það er engin ástæða til að rembast við að leita að öðru til að skrifa um eða sýna. Ég elska að deila hlutum hérna inni, vera persónuleg og leyfa þeim sem hafa áhuga að skyggnast inn í lífið okkar, upp að vissu marki að sjálfsögðu. Mér líður eins og ég sé nokkrum kílóum léttari eftir þetta spjall og er strax komin með ótal hugmyndir niður á blað.
Þannig að búið ykkur undir nóg af meðgöngu- og mömmuefni næstu mánuði – að sjálfsögðu í bland við öðruvísi posta. Ég vona að þið haldið áfram að lesa og þætti líka ótrúlega vænt um að heyra ykkar feedback hér í commentunum, hvað ykkur finnst gaman að lesa og sjá hérna inni.
♡
Andrea Röfn
Skrifa Innlegg