Það er ekki hægt að segja annað en að mikill glamúr einkenni þetta ótrúlega fallega heimili en hér býr Petra Tungardern sem þekkt er í sínu heimalandi enda ritstýrir hún tísku og heimiliskafla sænska Metro, er bloggari, stílisti og frumkvöðull. Heimilið sem staðsett er í Stokkhólmi er alveg einstakt, en þrátt fyrir að hafa verið tekið í gegn þá var mörgum upprunalegum einkennum haldið við eins og t.d. loftlistarnir sem setja mikinn svip á heimilið. Það fer ekki á milli mála að einhver mjög hæfur innanhússhönnuður hannaði breytingarnar og er baðherbergið með því fallegasta sem ég hef séð ásamt mörgum fallegum lausnum í stofu og eldhúsi. Litavalið er fallegt og blái liturinn á stofu og svefnherbergi ekkert ósvipaður Denim Drift sem ég er með á mínu svefnherbergi.
Það er varla til glæsilegri stofa en þessi, arininn er engum líkur og loftið er eins og í konungshöll. Flottar módernískar hönnunarvörurnar skapa síðan flotta andstæðu við allan íburðinn sem fylgdi húsinu. Engar þungar ljósakrónur heldur einföld og töff ljós.
Fallegar hillurnar á eyjunni þar sem stilla má upp smá punti eða tímaritum.
Stofan er afmörkuð með stóru ljósu teppi sem er þó í svipuðum lit og gólfið, hér skiptir máli að teppið nái undir öll þau húsgögn sem tilheyra stofunni en ekki bara undir stofuborðið.
Anddyrið er glæsilegt með dökkum marmara á gólfum og dökkmáluðum veggjum.
Baðherbergið er algjör dásemd! Bleikur veggurinn á móti marmaranum, gyllt blöndunartæki og fallegir skrautmunir.
Glæsilegt fataherbergi með opnum skápum og teppalagt fyrir smá hlýleika
Það hlýtur að vera mjög góð tilfinning að vera nývöknuð og stíga fram úr rúminu á mjúkt teppi!
Þetta heimili fær topp einkunn enda ótrúlega glæsilegt – fyrir áhugasama þá má fylgjast með Petru á MetroMode hér.
Skrifa Innlegg