fbpx

TRENDIN Í HAUST // VIÐTAL Í GLAMOUR

Fyrir heimilið

Nýlega sat ég fyrir svörum hjá Glamour fyrir sérstaka verslunarhandbók Smáralindar, þar ræddum við trendin í haust ásamt fleiru – hér er aðeins stiklað á stóru og hægt að fara mun ítarlegra í hausttrendin og ég sé að minntist ekki á nokkur atriði sem ég fæ því að eigi inni fyrir bloggið.

Hvaða litir verða að þínu mati heitastir í haust fyrir heimilið? Fallegir bleikir tónar verða enn meira áberandi og færa sig frá því að finnast helst í skrautmunum og stökum máluðum veggjum – yfir í innréttingar og flísar. Við fáum þ.a.l. að sjá fleiri bleik eldhús og baðherbergi sem ég tryllist úr spenning yfir. Vínrauður og dökkgrænn eru einnig litir sem fara haustinu vel og má bæta þeim við á auðveldan hátt með púðum, kertastjökum, glermunum og plöntum.

Hvaða trend erum við að sjá í innanhúshönnun í vetur, eitthvað nýtt sem kemur á óvart? Það er fátt sem er að koma mikið á óvart og við sjáum áfram vinsæla tískustrauma sem eru orðnir að klassík eins og plönturnar sem eru ómissandi í dag og má frekar tala um trend innan þeirra varðandi vissar tegundir, áferð og liti. Hringlaga speglar verða áberandi og þá hengdir upp eins og listaverk fyrir ofan sófa en ekki aðeins í forstofu og á baðherbergjum sem gefur aukna dýpt í rýmið.

Samkvæmt leit Pinterest notenda er “fimmti veggurinn” eitthvað sem er á hraðri uppleið en þá er átt við að loftið sé málað í lit sem er spennandi möguleiki sem vel má leika sér með í svefnherbergjum, barnaherbergjum og jafnvel á baðherbergjum.

Tága og fléttuhúsgögn ásamt fylgihlutum eru einnig að koma dálítið aftur inn núna hvort sem í einföldum stíl eða sem skrautlegir “Páfuglastólar”. Persónuleg heimili eru eftirsóknaverðust og núna er tími lita og hvítmáluð mínimalísk heimili eru enn á undanhaldi og fjölbreytnin mikil sem er svo æðislega skemmtilegt.

Það sem ég er þó langspenntust fyrir eru dýramynstrin sem hafa verið svo vinsæl í fatnaði undanfarið ár, sérstaklega hlébarðamynstrið. Við munum fara að sjá mun meira af því á heimilum. “

Hvaða innanhústrend er klassískt á haustin? Eitthvað sem klikkar aldrei og alltaf er hægt að bæta inn á heimilið? Á haustin og þá sérstaklega hér á Íslandi þegar dimmir snemma er nauðsynlegt að bæta við kertum, fallegri værðarvoð og gæruskinn sem lagt er á stól fyrir hlýju og notalegheit. Það er einnig gott ráð að miða við að hafa fleiri en einn ljósgjafa í hverju rými fyrir notalegt andrúmsloft, gólflampa, borðlampa, veggljós og kerti og því um að gera að fjárfesta í fallegum lampa fyrir haustið.Nefndu fimm hluti sem þig langar að bæta inn á heimilið í haust? Þar sem að ég flyt loksins inn á nýtt og stærra heimili í haust er óskalistinn aðeins að lengjast, mig vantar meðal annars nýtt borðstofuborð og gaman væri að eignast glerskáp undir stellið.

Efst á óskalistanum núna er stærðarinnar inniplanta ásamt fallegum listaverkum, ljósmyndum eða veggspjöldum til að skreyta heimilið. Handofnu Beni Ourain ullarmotturnar eru guðdómlegar og hafa lengi verið á óskalistanum, ætli veturinn sé ekki tilvalinn tími til að bæta við smá hlýju fyrir tærnar?

 // Fylgist einnig með á Instagram @svana.svartahvitu 

& ÞÁ KOM LOKSINS HAUST ♡

Skrifa Innlegg