Ætli það sé ekki ólíklegt að rekast á heimili innanhússhönnuðs og fá engar hugmyndir eða innblástur fyrir sitt eigið heimili? Þeir eru nefnilega almennt örlítið betri en við hin að hugsa í lausnum og nýta einnig hvern fermetra sérstaklega vel. Hér er um að ræða ekki nema 44 fm íbúð sem sænski innanhússhönnuðurinn Joakim Walles býr í hjarta Stokkhólms. Þegar fermetrar eru af skornum skammti þarf aldeilis að hugsa í lausnum og hér hefur Joakim tekist að koma sér einstaklega vel fyrir í þessari fallegu stúdíóíbúð. Sérsmíðuð opin hilla er notuð til að hólfa niður aðalrýmið og býr þannig til svefnherbergi sem er í senn vinnurými, hrikalega góð lausn og svo elegant þar sem á hillunum sitja allskyns listaverk og hönnunarbækur og verður því úr einskonar gallerí veggur.
Íbúðin var upphaflega hólfuð niður en Joakim reif allt út og endurskipulagði sem eitt opið rými.
Myndir via Nordic Design / Adam Helbaoui
Virkilega fallegt heimili og vel skipulagt. Við fyrstu sýn hefði ég giskað á að Joakim væri nokkuð fullorðinn maður miðað við val á innbúi og innréttingum svo það kom mér smávegis á óvart að sjá að hann er á mínum aldri. Einnig er skemmtilegt að sjá hvað íbúðin hefur breyst mikið á 5 árum eins og sjá má í þessu innliti hér.
Skrifa Innlegg