fbpx

RÆKTAR & SKIPULAGSTIPS FRÁ ALE SIF

Umfjöllun

Í upphafi hausts eigum við mörg það sameiginlegt að ætla að huga betur að heilsunni eftir ljúft sumarfrí. Margir fara í svokölluð átök sem eru líkleg til að taka enda fyrir jól en þeim fjölgar sem tala fyrir því að ein besta leiðin að árangri sé gott jafnvægi á hollu matarræði, jákvæðu hugarfari og hreyfingu. Ég hef fylgst með Alexöndru Sif eða Ale Sif í nokkur ár og þykir hún frábær fyrirmynd þegar kemur að jákvæðni, skipulagi, hreyfingu og hollustu og fannst því tilvalið að fá hana til að svara nokkrum spurningum til að gefa mér og vonandi fleirum hvatningu inní haustið – ég þarf svo sannarlega á henni að halda ♡

Kynnumst Ale Sif betur –

Ale Sif er algjört yndi, hún starfar sem þjálfari hjá Fitsuccess ásamt því að vera förðunarfræðingur og hefur hún sérstakan áhuga á skipulagi og hefur gefið út sitt eigið vikuskipulag í samstarfi við Prentsmið, en hún virðist ná ótrúlegum árangri í öllu því sem hún tekur sér fyrir hendur. Fyrir áhugasama þá er hægt að fylgjast betur með Ale Sif á Instagram @alesif

Þú ert þekkt fyrir að vera með mikla skipulagshæfileika – viltu deila með okkur hinum hvert trixið þitt sé?

Haha trixið.. þegar stórt er spurt er fátt um svör. Ég veit bara hvað máttur skipulags er mjög mikill og það er í rauninni það sem heldur mér við efnið. Ef ég væri ekki skipulögð þá myndi ég ekki koma helmingnum af því sem ég þarf að gera og og langar að gera í verk.

Ótrúlegt en satt þá var ég í rauninni C manneskja þegar ég geng í gegnum mikla erfiðleika í mínu lífi sem að fékk mig til að taka mig saman í andlitinu. Það fyrsta sem ég gerði var að temja mér skipulag og kaupa mér dagbók. Síðan þá hef ég verið óstöðvandi og er í dag algjör A++ manneskja.

Með tilkomu skipulags fannst mér ég fá nýja sýn á lífið og það fékk mig til þess að stefna að því að gera eitthvað gott úr sjálfri mér.

Það veitir mér hvatningu og heldur mér við efnið að vera skipulögð og þar er dagbókin lykillinn í skipulaginu þannig það má kannski segja að hún sé leynitrixið.

Hvernig byrjar fullkominn dagur í þínum huga?

Hann byrjar á ræs kl:5:20 þar sem að leiðin liggur á æfingu kl: 6:00. Mér fannst alltaf fólk sem æfði klukkan sex á morgnana vera geimverur því þessi tími var að mínu mati um hánótt, það var á þeim tíma sem ég æfði seinnpartinn. Svo kom að því að vinnustaðurinn minn flutti og mig langaði til þess að nýta daginn betur. Þannig ég ákvað að prufa að mæta klukkan sex á æfingu og ég vildi óska þess að ég hefði uppgötvað fyrr hversu mikil lífsgæði fylgdu því að æfa snemma á morgnana. Það var eins og ég hafi fengið auka tíma í sólahringinn.

Með því að byrja daginn vel þá kem ég sterkari inn í hann, full af orku og ferskari. Rúsínan í pylsuendanum er að ég get komið heim eftir vinnudaginn og t.d. átt tíma með kærastanum mínum.

Góð leið til að breyta sér úr sófakartöflu yfir í ræktardurg?

Númer eitt, tvö og þrjú að breyta hugarfarinu – mér finnst það vera lykillinn í svo mörgu í lífinu. Hugsa þetta sem lífsstílsbreytingu, ekki kúr eða eitthvað sem að þú gerir þér einungis í skamman tíma. Setja sér raunhæf markmið til þess að halda sér við efnið og fá hvatningu. Ég mæli jafnvel með að leita sér aðstoðar hjá þjálfara sem heldur þér enn frekar við efnið.

Er hægt að ná árangri án þess að hitta þjálfara?

Já það er hægt að ná árangri án þess að hitta þjálfara. FitSuccess hefur verið starfandi síðan frá árinu 2010 og við hittum engar af þeim sem eru í þjálfun hjá okkur. Sjálf byrjaði ég í þjálfun árið 2010 og varð svo starfsmaður þar árið 2011.

Það hentar vissulega ekki öllum að vera í þjálfun gegnum netið en það sem mér fannst vera svo mikill kostur er að maður stjórnar algjörlega hvaða tíma dags maður æfir og maður getur alltaf haft samband við þjálfara og fengið svör innan skamms sem dæmi. Árangursmyndirnar okkar í gegnum árin sýna það og sanna að það er hægt.

Hvort er mikilvægara að borða 100% hollt fæði eða mæta 5 daga vikunnar á æfingu til að sjá árangur?

Númer eitt, tvö og þrjú er mataræðið því að það er vel hægt að æfa eins og brjálæðingur og borða illa samhliða því og uppskera engan árangur. Hinsvegar tel ég að þetta tvennt saman sé alltaf lykillinn að árangri en það er þó ekki nauðsynlegt að æfa 5 daga vikunnar eða alla daga vikunnar. Þar getur verið allur gangur á og það er mikilvægt að ætla sér ekki of mikið. Sumir komast bara á æfingar 2 daga vikunnar og það er alveg nóg fyrir marga.

Hvað er það besta við starfið þitt?

Að eiga þátt í að breyta lífi kvenna. Það að vinna að árangri með líkamlegt form krefst mikillar sjálfskoðunar. Ég þekki það sjálf af eigin raun þar sem að ég byrjaði í þjálfun áður en ég verð þjálfari sjálf. Það er ómetanlegt að sjá breytingarnar sem verða á lífi þeirra sem leita til okkar og að sjá þær breyta lífsstílnum sínum til hins betra.

Hvaða eiginleiki í fari annara þykir þér mikilvægastur?

Mér finnst einlægni vera einn fallegasti mannkosturinn og heillast af fólki sem hefur þann eiginleika.

Ef þú gætir aðeins gert eina lyftingaræfingu það sem eftir er… hver væri hún? Ef við tölum um eina lyftingaræfingu sem vöðvahóp þá myndi ég sennilega segja glutes en ef það er bara ein æfing þá myndi ég velja deadlift.

Uppáhalds brennsluæfingin?

Ég á erfitt með að velja bara eina brennsluæfingu því að ég elska að hlaupa, fara út að hjóla og mæta í spinning og hafa smá fjölbreytileika í þessu. En svona til þess að velja eitthvað eitt þá myndi ég segja það þegar ég mæti ein í tækjasalinn og set ræktarplaylistann minn í botn. Ég elska það, hugurinn minn fer bara á flug og ég fæ oft mjög góðar hugmyndir á þessum æfingum.

Er morgunmatur mikilvægasta máltíð dagsins?

Það er umdeilt hvort að svo sé eða ekki og í raun persónubundið og þá sérstaklea útaf öllum þessum föstum sem eru í gangi. Að mínu mati þá er morgunmatur eins og bensín á tankinn, þú þarft orku og næringu til þess að fara af stað inn í daginn.

Oft er hreyfing það fyrsta til að víkja þegar mikið er að gera…

Það fer eftir því hvernig þú vilt forgangsraða deginum þínum. Að mínu mati er ekki nauðsynlegt að æfa nánast alla daga vikunnar en með því að koma hreyfingu í þína rútínu og með því að gefa þér tíma í æfingar þá ertu alltaf að fara koma út í plús. Ég til dæmis æfi sjálf því að það veitir mér vellíðan og fyrir mér eru æfingar viss partur af self love. Ég vil hugsa vel um sjálfa mig og það að stunda styktaræfingar og aðra hreyfingu hefur gert svo mikið fyrir mig bæði líkamlega og andlega.

Ég set upp æfingavikuna mína á hverjum sunnudegi til þess að hafa ákveðna hugmynd um hvernig ég ætla að tækla vikuna. Ég legg oftast upp með sex æfingar yfir vikuna og einn hvíldardag en stundum eru sumar vikur meira krefjandi en aðrar og þá finnst mér mikilvægt að hlusta á líkamann og hvíli oftar.

Þannig að það fer allt eftir aðstæðum en ég mæli með að reyna að hafa það inni í vikuplaninu að stunda einhverskonar hreyfingu. Sömuleiðis er mikilvægt að finna þér hreyfingu sem þú hefur gaman af – það að hreyfa sig getur aukið lífsgæðin á svo margan hátt.

Hvað gerir kona til að vinna í átt að betri heilsu og sterkari líkama þegar skortur er á tíma?

Vá þessi er smá erfið.. það er svo mismunandi hvernig aðstæðum konur geta verið í.

En það er mjög algengt að það sé erfiðara fyrir konur að komast á æfingar því yfirleitt eru það þær sem að sjá að mestum hluta um heimilið. Ég tek það samt fram að það er ekki í öllum tilvikum þannig en það er mjög algengt. Við konur eigum það til að halda að við séum ómissandi og viljum vera þær sem að sjá mest um heimilið, börnin og allt sem að því kemur.

Númer eitt, tvö og þrjú ef þær eru ekki einhleypar að virkja makann til þess að aðstoða meira á heimilinu og treysta honum fyrir því, gera þetta að meiri liðsvinnu þannig að konan fái sinn tíma til þess að rækta líkama og sál. Það er hægt að búa til tíma fyrir æfingar eins og t.d. á morgnanna meðan allir eru enn sofandi en það getur verið krefjandi ef að næturnar eru erfiðar með lítil börn og þessi tími virðist einmitt hræða marga en það þarf bara að mæta.

Svo eru vissulega ekkert allar með maka og því erfiðara að komast frá ef börn eru í spilinu en yfirleitt er hægt að koma því fyrir með málamiðlunum eins og t.d. að æfa heima fyrir þegar tími gefst. Svo eru ekki allar með börn en nóg fyrir stafni og þá er það forgangsröðunin, hvort viðkomandi vilji gefa sér tíma í þetta.

Ég tók þetta málefni smá fyrir um daginn á instagraminu mínu og fékk svo góðar ábendingar. Þá voru það reyndar mömmur en þær bentu á að það er svo margt annað sem að maður leyfir sér eins og t.d. að sitja fyrir framan sjónvarpið, fara í bíó og annað en þær völdu frekar að mæta á æfingar því að það gerði þær meðal annars að betri mæðrum og það væri svona “minn tími dagsins”.

Ég gæti endalaust hugsað þessa spurningu og komið með ráð en aðstæður eru oft þannig að það er erfitt að koma æfingum fyrir.

Að mínu mati er allt hægt ef viljinn er fyrir hendi en það þarf að forgangsraða og skipuleggja sig til að dæmið gangi upp.

Það þarf ekki alltaf að mæta í tækjasalinn eða á einhverja sérstaka æfingu – það er svo mismunandi hvað fólk fílar að gera. Bara það að fara reglulega í göngutúr getur til dæmis gert mikið fyrir líkama og sál og tekur ekki langan tíma.

Nennir þú alltaf á æfingu?

Ónei, það kemur alveg fyrir að ég er ekki peppuð. Í flestum tilvikum fer ég samt á æfingu þó svo að það taki oft mjög langan tíma að komast út úr húsi. Það sem er svo magnað að öll þau skipti sem ég hef rifið mig á æfingu þá sé ég aldrei eftir því að lokinni æfingu.

Lagið sem kemur þér alltaf á æfingu?

Uppáhalds lagið mitt er Never Let you go með Rudimental það er svo peppandi takturinn í því og þeir eru ein uppáhalds hljómsveitin mín. En svo er ég með sér ræktarplaylista sem ég uppfæri reglulega og ég dett algjörlega í æfingar “zone” þegar ég hlusta á hann.

Takk fyrir spjallið kæra Ale Sif! Hlakka til að tileinka mér þín ráð og jákvæða hugarfar ♡

// Fylgstu einnig með á Instagram @svana.svartahvitu 

OPNUN UM HELGINA // THE SHED - FALINN GIMSTEINN Í HAFNARFIRÐI

Skrifa Innlegg